Ferill 6. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1265  —  6. mál.
Síðari umræða.



Nefndarálit með frávísunartillögu


um tillögu til þingsályktunar um uppbyggingu félagslegs húsnæðis.

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bjarna Þór Þórólfsson frá Búseta, Maríu Pétursdóttur og Valdísi Ösp Árnadóttur frá Öryrkjabandalagi Íslands, Sigrúnu Árnadóttur frá Félagsbústöðum hf., Þóri Gunnarsson og Arnald Sölva Kristjánsson frá Alþýðusambandi Íslands og Önnu G. Ingvarsdóttur og Hermann Jónasson frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands, Búseta, Félagsbústöðum hf., Hagsmunasamtökum heimilanna, Öryrkjabandalagi Íslands og Reykjavíkurborg.
    Með tillögunni er lagt til að ríkisstjórninni verði falið að efla almenna íbúðakerfið með uppbyggingu eitt þúsund leigu- og búseturéttaríbúða á hverju ári, í samstarfi við húsnæðisfélög án hagnaðarsjónarmiða.
    Við meðferð málsins í nefndinni kom fram að umbætur á húsnæðismarkaði væru brýnar og jafnframt var gerð grein fyrir fjölþættum umbótaverkefnum sem unnið er að af hálfu stjórnvalda, þ.m.t. húsnæðisstefnu.
    Í sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs er lögð áhersla á umbætur í húsnæðismálum þar sem m.a. segir: „Við munum beita okkur fyrir stöðugri uppbyggingu húsnæðis um land allt með einföldun regluverks, félagslegum aðgerðum í gegnum almenna íbúðakerfið, bættri réttarstöðu leigjenda, samvinnu við sveitarfélög og áherslu á að nauðsynlegar upplýsingar um húsnæðismarkað séu aðgengilegar hverju sinni.“
    Settur var af stað undirbúningur að stefnu í húsnæðismálum og starfshópur um aðgerðir og umbætur á húsnæðismarkaði sem skilaði tillögum 19. maí sl. Hópnum var falið að fjalla um leiðir til að auka framboð á húsnæði til að mæta uppsafnaðri og fyrirsjáanlegri íbúðaþörf ólíkra hópa til lengri og skemmri tíma, stuðla að auknum stöðugleika auk annarra aðgerða til að bæta stöðuna á húsnæðismarkaði. Í skýrslu starfshópsins eru settar fram 28 tillögur í sjö flokkum.
    Í skýrslu starfshópsins er lögð áhersla á að auka framboð íbúða til að stuðla að jafnvægi á húsnæðismarkaði og auka húsnæðisöryggi. Gerð er tillaga um húsnæðisáætlun fyrir allt landið og sérstök áhersla lögð á áframhaldandi uppbyggingu almenna íbúðakerfisins og endurskoðun opinbers húsnæðisstuðnings. Þá er í skýrslunni að finna tillögur um virkan og heilbrigðan leigumarkað sem raunverulegan valkost, tillögur um skilvirkt regluverk, stjórnsýslu og framkvæmd í skipulags- og byggingarmálum og um samþættingu uppbyggingu íbúða og samgönguinnviða.
    Á grundvelli tillagna starfshópsins hafa stjórnvöld nú þegar sett af stað vinnu með áherslu á aukna uppbyggingu íbúða, endurbættan húsnæðisstuðning og bætta réttarstöðu og húsnæðisöryggi leigjenda. Eftirtalin verkefni eru hafin:
          Aukin uppbygging íbúða: Ríkið og Samband íslenskra sveitarfélaga munu nú þegar hefja viðræður um rammasamning um byggingu 4.000 íbúða árlega á landsvísu næstu fimm árin og 3.500 íbúða árlega næstu fimm ár þar á eftir. Horft verður sérstaklega til þeirra markmiða sem sett eru fram í tillögum starfshópsins, m.a. um að félagslegt húsnæði nemi að jafnaði 5% nýrra íbúða (um 200 íbúðir árlega) og hagkvæmt húsnæði sé sem næst 30% (um 1.200 íbúðir árlega) með sérstakri áherslu á almenna íbúðakerfið.
          Endurbættur húsnæðisstuðningur: Settur verður á fót starfshópur ríkis og sveitarfélaga með aðild aðila vinnumarkaðarins um endurskoðun á húsnæðisstuðningskerfum í samræmi við markmið og greiningar í skýrslu starfshópsins. Starfshópurinn skal skila tillögum sínum eigi síðar en 30. september nk.
          Réttindi og húsnæðisöryggi leigjenda: Ákvæði húsaleigulaga verða endurskoðuð með það að markmiði að bæta réttarstöðu og húsnæðisöryggi leigjenda. Þar verður m.a. horft til tillagna átakshóps frá janúar 2019 sem áréttaðar eru í skýrslu stafshópsins sem skilar skýrslu sinni nú. Frumvarp þess efnis verði lagt fram á Alþingi á haustþingi 2022.
    Meiri hlutinn er sammála um að umbætur á húsnæðismarkaði séu brýnar. Það er mat meiri hlutans að efni tillögunnar falli að öllu leyti innan verkefna sem nú þegar eru unnin til umbóta á húsnæðismarkaði eins og rakið er hér að framan.
    Með vísan til framangreinds leggur meiri hlutinn til að tillögunni verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Líneik Anna Sævarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 28. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis, sbr. 2. mgr. 29. gr. þingskapa.

Alþingi, 13. júní 2022.

Líneik Anna Sævarsdóttir,
form.
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir,
frsm.
Ásmundur Friðriksson.
Guðrún Hafsteinsdóttir. Orri Páll Jóhannsdóttir. Óli Björn Kárason.