Ferill 734. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1279  —  734. mál.




Fyrirspurn


til fjármála- og efnahagsráðherra um hámark greiðslubyrðar fasteignalána.

Frá Ásthildi Lóu Þórsdóttur.


     1.      Hversu mörgum umsóknum neytenda um fasteignalán hefur verið synjað á þeim grundvelli að greiðslubyrði yrði of há samkvæmt reglum um hámark greiðslubyrðar fasteignalána í hlutfalli við tekjur neytenda, nr. 1268/2021?
     2.      Hversu mörgum umsóknum neytenda um óverðtryggð fasteignalán sem hafa staðist greiðslumat hefur verið synjað á grundvelli umræddra reglna og þeir því neyðst til að taka í staðinn verðtryggð fasteignalán vegna þess að lánveitandi miðaði eingöngu við greiðslubyrði í upphafi lánstíma en ekki heildargreiðslubyrði á lánstímanum? Er eðlilegt að auðveldara sé að taka mun óhagstæðari lán?
     3.      Að hvaða marki hafa lánveitendur nýtt undanþáguheimild 5. gr. umræddra reglna til að veita allt að 5% af heildarfjárhæð fasteignalána á hverjum ársfjórðungi til neytenda með greiðslubyrði umfram hámark samkvæmt 3. gr. reglnanna?
     4.      Telur ráðherra það samræmast umræddum reglum eða markmiðum þeirra að miða aðeins við greiðslubyrði verðtryggðra lána í upphafi lánstíma en líta um leið fram hjá því að hún verður margfalt hærri á síðari hluta lánstímans? Var tilgangur þeirra reglna sá að draga úr samkeppni milli ólíkra lánategunda á kostnað neytenda?
     5.      Telur ráðherra koma til greina að skerpa á umræddum reglum til að tryggja að miðað sé við heildargreiðslubyrði á lánstímanum við framkvæmd þeirra fremur en greiðslubyrði í upphafi lánstíma til að fyrirbyggja þá hliðarverkun að neytendur taki mun óhagstæðari verðtryggð lán, með tilliti til þess að heildargreiðslubyrði þeirra á lánstímanum verður mun hærri en hliðstæðra óverðtryggðra lána?


Skriflegt svar óskast.