Ferill 186. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1290  —  186. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


við frumvarp til laga um loftferðir.

Frá minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Nefndin hefur haft til umfjöllunar umfangsmikið frumvarp til heildarlaga um loftferðir. Það er jákvætt að í flestum tilfellum hefur verið hægt að koma til móts við athugasemdir og áhyggjur umsagnaraðila.
    Minni hlutinn telur þó nauðsynlegt að gera athugasemd við þær fyrirætlanir sem birtast í frumvarpinu um víðtækt afnám á skipulagsvaldi sveitarfélaga. Í 146. gr. frumvarpsins um skipulagsreglur flugvallar er að finna víðtæka heimild ráðherra til að setja skipulagsreglur fyrir flugvelli, þvert á skipulagsvald sveitarfélaga. Samþykkt á slíku ákvæði myndi kollvarpa skipulagsvaldi sveitarfélaga innan eigin staðarmarka, þvert á meginsjónarmið skipulagslaga, nr. 123/2010, um að ákvarðanataka í skipulagsmálum eigi að vera næst þeim sem málið varðar. Var það ætlun flutningsmanns frumvarpsins að gera ákvæðið að lögum, þvert á vilja sveitarfélaganna sem átti að hrifsa skipulagsvaldið af, án þess að tilraun væri gerð til að ná fram málamiðlun með samráði í aðdraganda framlagningar málsins. Við umfjöllun nefndarinnar var þetta eitt af hinum stóru álitaefnum sem þurfti að leysa úr, en afstaða meiri hluta nefndarinnar byggir á því að fundist hafi ásættanleg lausn sem tryggir að sveitarfélög verði ekki svipt skipulagsvaldi sínu. Minni hlutinn vonar að breytingar meiri hlutans nægi til þess en telur ástæðu til að fylgjast áfram með framkvæmd ákvæðisins eftir að breytingar meiri hlutans ná fram að ganga og frumvarpið verður að lögum, í því skyni að leita fullvissu um að lögin séu ekki skaðleg gagnvart skipulagsvaldi sveitarfélaganna.

Flutningur hergagna.
    Minni hlutinn telur einnig ástæðu til að gera athugasemdir við tiltekið ákvæði frumvarpsins, nánar tiltekið 112. gr. um hergögn og hervopn.
    Fyrir fjórum árum ljóstraði fréttaskýringarþátturinn Kveikur upp um ámælisverða afgreiðslu stjórnvalda á leyfisveitingum til vopnaflutninga með íslenskum loftförum. Þátturinn sýndi að yfirvöld höfðu m.a. heimilað flutninga vopna til Sádi-Arabíu, þaðan sem þau bárust til Jemens og Sýrlands – þvert á alþjóðlegar mannréttindaskuldbindingar Íslands. Eftir þrýsting frá Alþingi var verklagi breytt og eftirlitið fært í annað ráðuneyti. Í svörum utanríkisráðherra við skriflegum fyrirspurnum á yfirstandandi löggjafarþingi kemur hins vegar bersýnilega í ljós að stærsta breytingin er sú að algjörum leyndarhjúp hefur verið slegið um ferlið, allar upplýsingar um flutning hergagna eru nú skilgreindar sem trúnaðarmál þannig að eina leiðin fyrir þingmenn að fá upplýsingar um umfang slíkra vopnaflutninga er ef þau samþykkja að halda trúnað um efni gagnanna.
    Einu upplýsingarnar sem liggja fyrir í skriflegum svörum ráðherra við fyrirspurnum um vopnaflutninga eru að alls bárust 69 umsóknir um vopnaflutninga frá vorinu 2019 þar til í febrúar 2022, en aðeins einni þeirra var hafnað. Íslensk stjórnvöld hafa neitað að afhenda Alþingi nokkrar frekari upplýsingar, nema að áskildum trúnaði, sem bindur þingmenn þagnarskyldu um upplýsingarnar. Stjórnvöld ætla því ekki að afhenda neinar upplýsingar um það hvort leyfisveitingar þeirra séu í ósamræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands. Þau ætla ekki einu sinni að afhenda einföldustu upplýsingar um hversu mikið af vopnum er verið að flytja, á milli hvaða landa eða um neitt annað sem máli skiptir.
    Ríkisstjórn Íslands stærir sig gjarnan af því að vinna í þágu friðar á alþjóðavísu, en slær á sama tíma fullkomnum leyndarhjúp um vopnaflutninga fyrir stríðsrekstur og mögulega stríðsglæpi. Að mati minni hlutans hefur aukinheldur komið fram við umfjöllun nefndarinnar að stjórnvöld hafi takmarkaða getu til að leggja sjálfstætt og fullnægjandi mat á það hvort umsóknir um vopnaflutninga geti stangast á við alþjóðlegar skuldbindingar og mannréttindi. Það gengur einfaldlega ekki upp og leggur minni hlutinn því til að heimild ráðherra til að leyfa vopnaflutninga fyrir loftför skráð hér á landi verði felld á brott úr frumvarpinu. Leggur minni hlutinn því til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við 112. gr.     
     a.      Orðin „nema með heimild ráðherra sem fer með varnarmál eða þess sem hann felur heimildarveitinguna“ í 2. mgr. falli brott.
     b.      Í stað orðanna „1. og 2. mgr.“ í 3. mgr. komi: 1. mgr.

Alþingi, 14. júní 2022.

Andrés Ingi Jónsson.