Ferill 626. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1294  —  626. mál.




Svar


háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur um stöðu kvenna í nýsköpun.


     1.      Hyggst ráðherra flétta jafnréttisstefnu inn í framtíðarsýn sína um að íslenskt hugvit verði stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar?
    Í stjórnarsáttmála stjórnarflokkanna er lögð áhersla á jafnan rétt og jafna stöðu karla og kvenna á öllum málefnasviðum í Stjórnarráði Íslands. Sú skuldbinding tekur að sjálfsögðu einnig til áherslumála ráðherra sem unnið verður að á kjörtímabilinu.
    Framtíðarsýn um íslenskt hugvit sem stærstu útflutningsgrein þjóðarinnar byggist á áherslum um eflingu þekkingargreina og nýsköpunar á öllum sviðum þjóðfélagsins og í öllum þjóðfélagshópum. Jafnrétti er þannig lykilþáttur í áherslum stjórnvalda á þessu málefnasviði. Í stjórnarsáttmála og í nýrri fjármálaáætlun fyrir tímabilið 2023–2027, er kveðið á um að tekist verði á við samfélagslegar áskoranir á þeirri forsendu að velsæld verði best tryggð með traustum efnahag, jöfnum tækifærum og aðgerðum í þágu nýsköpunar, umhverfis og loftslags.
    Hvort sem litið er til samkeppnishæfni þjóðarinnar eða almennrar velsældar í landinu, er afar mikilvægt að nýsköpunar- og frumkvöðlastarf, eigi sér stað í fjölbreyttum hópi fólks, við ólíkar aðstæður og í mismunandi umhverfi. Þá er sérlega mikilvægt að örar stafrænar umbreytingar og tækniþróun, leiði ekki til aukinnar aðgreiningar í þjóðfélaginu. Ráðherra hefur fjölbreytileika að leiðarljósi í framtíðarsýn og stefnumótun ráðuneytis háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunar og endurspeglast það með skýrum hætti í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Þar eru sett fram markmið sem miða að því að hugvit og nýskapandi lausnir nýtist við úrlausnir á brýnum samfélagslegum áskorunum og stuðli að aukinni velsæld þjóðarinnar.

     2.      Telur ráðherra að gæta þurfi að jafnréttissjónarmiðum sem leiðarstefi í því markmiði stjórnvalda að efla fjárfestingarumhverfi sprota- og nýsköpunarfyrirtækja?
    Í samræmi við framangreint, er mikilvægt að gæta að jafnréttissjónarmiðum í þeim markmiðum stjórnvalda að efla fjárfestingarumhverfi sprota- og nýsköpunarfyrirtækja. Jafnréttissjónarmið eru og höfð til hliðsjónar í aðgerðum stjórnvalda á þessu sviði, bæði hvað varðar samkeppnissjóði og opinbera fjárfestingu í þágu nýsköpunar.
    Sem dæmi má nefna að Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins (NSA) tekur þátt í bæði innlendum og erlendum samstarfsverkefnum sem hvetja til aukinnar þátttöku kvenna í nýsköpun. Grunngildi sjóðsins á sviði jafnréttismála byggjast á grunngildum íslenska ríkisins, sem meðal annars birtast í ákvæðum stjórnarskrár og sjóðurinn hefur sett sér stefnu um ábyrgar fjárfestingar og samfélagslega ábyrgð. Í stefnu um ábyrgar fjárfestingar segir m.a. að litið sé til stjórnarhátta í fjárfestingum, umhverfismála, jafnréttismála og félagslegra mála. Þar segir: „Nýsköpunarsjóður lætur umhverfismál, jafnréttismál og félagsleg málefni sig varða og lætur til sín taka ef atvik koma upp á þessum sviðum, með það að markmiði að hafa áhrif á viðhorf og stefnu þeirra félaga sem sjóðurinn fjárfestir í. Nýsköpunarsjóður hvetur til greinargóðrar upplýsingagjafar fyrirtækja um atriði er þau varða á sviði umhverfismála, jafnréttismála og félagslegra málefna með áherslu á þau svið sem eru viðeigandi viðkomandi rekstri.“
    Eitt forgangsverkefni ráðuneytis háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunar sem nú er unnið að er endurskoðun á umhverfi samkeppnissjóða með það að markmiði að tryggja að styrkveitingar skili árangri í samræmi við markmið. Í því verkefni er m.a. litið til mismunandi stöðu kynjanna.

     3.      Telur ráðherra ástæðu til að greind verði kynjahlutföll umsækjenda um fjármögnun nýsköpunarfyrirtækja í gegnum opinbera fjárfestingarsjóði sem og kynjahlutföll þeirra sem hljóta fjármögnun? Liggja fyrir opinber gögn um kynjahlutföll umsækjenda og þeirra sem nú þegar hljóta fjármögnun?
    Ráðherra telur sannarlega ástæðu til þess að greind séu kynjahlutföll umsækjenda, enda er slík greining almenn regla í sjóðum og úrræðum á vegum stjórnvalda. Margvísleg kyngreind tölfræðigögn liggja fyrir um úthlutanir og umsóknir úr sjóðum sem nú heyra undir háskóla- iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið. Þannig er gerð greining á kynjahlutföllum umsækjenda í samkeppnissjóði, svo sem Tækniþróunarsjóð og Rannsóknasjóð, sem og í minni, sérhæfðari sjóði, svo sem Lóu, styrki til nýsköpunar á landsbyggðinni. Í umsóknarferli sjóðanna eru umsækjendur meðal annars beðnir um að meta samfélagsleg áhrif ef verkefni þeirra fá brautargengi, svo sem kynjahlutföll starfa sem verða til og hvort kynjamunur sé á þeim hópum sem munu njóta góðs af væntanlegri afurð. Í lok árs 2020 kom út rannsóknarskýrslan „Valdefling kvenna til nýsköpunar“ 1 (höf: Alma Dóra Ríkarðsdóttir) þar sem þessi gögn eru greind og settar fram tillögur um atriði sem betur megi fara. Sjá ítarlegri tölur í viðauka.
    Greining er gerð á kynjahlutföllum þeirra fyrirtækja sem sækja um skattfrádrátt vegna rannsókna og þróunar og þeirra fyrirtækja sem fá fjármagn úr sjóðum NSA og Kríu, svo dæmi séu tekin. Niðurstöður þessara greininga eru hafðar til hliðsjónar í stefnumótun stjórnvalda á sviði nýsköpunar.
    Þá kemur fram í glænýrri en óbirtri skýrslu sem unnin er af KPMG og kynnt var á ráðstefnu í byrjun júní að mikill munur er á hlutföllum fjárfestinga vísisjóða milli kynja. Þannig nam fjárfesting í kvennateymum um 11–12% af fjárfestu fjármagni frá vísisjóðum á árunum 2019–2020 en 60–73% féll í hlut karlateyma. Á liðnu ári féll hlutfall fjárfestinga í kvennateymum niður í aðeins 2% og karla í 45%. Á sama tíma vekur athygli að um 53% af heildarfjármagni fór til blandaðra teyma, sem er tvöföldun á því sem sést hefur árin þar á undan.
Kynjahlutföll umsækjenda og þeirra sem nú þegar hljóta fjármögnun.
    Eins og fram hefur komið liggja fyrir opinber gögn um kynjahlutföll umsækjenda í helstu stuðningsaðgerðir stjórnvalda og er slík gögn m.a. að finna á vef Hagstofunnar og í gögnum á vegum Rannís, auk þess sem ýmsar sértækar greiningar hafa verið framkvæmdar á kynjahlutföllum styrkþega í opinbera sjóði. Þá er kortlagning kynjasjónarmiða hluti af undirbúningi fjármálaáætlunar og birtar hafa verið greiningar í stöðuskýrslu verkefnastjórnar Stjórnarráðsins um kynjaða fjárlagagerð.
    Miðlun upplýsinga og greining á stöðu áhersluverkefna með mælaborðum er eitt af forgangsverkefnum ráðuneytis háskóla-, iðnaðar og nýsköpunar. Kyngreining tölfræðigagna, er einn af lykilþáttum slíkra mælaborða. Þá má nefna að gerður hefur verið samningur við OECD um áhrifamat skattendurgreiðslna til fyrirtækja vegna rannsókna og þróunar en í þeirri greiningu mun m.a. litið til kynjasjónarmiða.
    Konur voru í forsvari fyrir um þriðjung styrkja úr Tækniþróunarsjóði árið 2020 og hefur hlutfall kvenna meðal styrkþega farið hækkandi milli ára í heildina litið þó talsverður munur sé á milli atvinnugreina. Konur voru í forsvari fyrir 45% verkefna sem fengu styrk úr fyrstu úthlutun Lóu – nýsköpunarstyrkja fyrir landsbyggðina árið 2021.
    Hlutur kvenna í fjárfestingum NSA hefur farið vaxandi ár frá ári og nam um 30% árið 2021, hvort sem litið er til heildarfjölda félaga eða heildarupphæðar fjárfestinga. Kría – sprota- og nýsköpunarsjóður hóf starfsemi á síðasta ári og í fyrstu úthlutun úr sjóðnum var gengið til samninga við þrjá vísisjóði. Konur voru í forsvari í tveimur þessara sjóða og allir þrír sjóðirnir hafa ábyrgar fjárfestingar að leiðarljósi.

     4.      Telur ráðherra að til greina komi að við úthlutun fjárveitinga, t.d. af hálfu Kríu – sprota- og nýsköpunarsjóðs og Rannís, verði litið til jafnréttissjónarmiða eða gerðar kröfur þar um í reglugerð eða lögum?
    Jákvæð þróun hefur orðið á síðustu árum hér á landi, hvað varðar hlut kvenna í úthlutun úr sjóðum á vegum Rannís og gegnum opinbera fjármögnunarsjóði. Það er í samræmi við áherslur stjórnvalda að nýsköpun og þróun atvinnulífs sé byggð á fjölbreytni og jöfnum tækifærum. Hins vegar má segja að þessi þróun sé of hæg, ekki síst í hraðvaxandi tæknigreinum. Til greina kemur að úthlutun fjárveitinga úr opinberum sjóðum taki í auknum mæli mið af jafnréttissjónarmiðum og ákvæði um slíkt komi fram í reglugerðum eða lögum, sérstaklega hvað varðar stefnumarkandi sjóði og stuðningsúrræði á vegum stjórnvalda. Hafa ber þó í huga að samkvæmt almennum sjónarmiðum stjórnsýsluréttarins ber ávallt að velja hæfustu umsækjendur og umsóknir eftir faglegu mati hverju sinni.
    Til að ná betri árangri í vegferð að jafnrétti í nýsköpunar- og frumkvöðlastarfi er þörf á að skoða ferlið í heild og vera óhrædd við að endurskoða úthlutunarreglur og umhverfi nýsköpunar. Þá er ekki aðeins mikilvægt að sækjast eftir jöfnum hlutföllum kynjanna þegar kemur að fjölbreytni í þátttöku í nýsköpun og fjárfestingum. Til dæmis eru líka tækifæri til þess að líta til aukinnar fjölbreytni hvað varðar atvinnugreinar og þarfir, en tæknigreinar eru nú mjög ríkjandi. Einnig þarf að líta til mismunandi aldurshópa, þjóðernis, uppruna og samfélagslegra aðstæðna svo að sem flestar raddir bætist í hópinn og stuðli að meiri árangri með aukinni fjölbreytni í nýsköpun og þróun og fjárfestingum því tengdar, í sem flestum greinum atvinnulífsins.

Viðauki:
    Rannsóknamiðstöð Íslands, Rannís, sem annast umsýslu Rannsóknasjóðs, Innviðasjóðs, Tækniþróunarsjóðs, Markáætlunar í vísindum og tækni, Nýsköpunarsjóðs námsmanna, Starfslaunasjóðs sjálfstætt starfandi fræðimanna, Loftlagssjóðs, Jafnréttissjóðs og Menntarannsóknasjóðs, hefur safnað upplýsingum um kynjahlutföll í stjórnum sjóðanna, í fagráðum og hjá verkefnisstjórum umsókna.

    Á árunum 2016 til 2021 var kynjahlutfall í stjórn Tækniþróunarsjóðs að jafnaði 2,6 karlar á móti 3,4 konum, þar af voru konur og karlar formenn stjórnar til jafns innan tímabilsins (sjá mynd).

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Við flokkun á 3.249 umsóknum sem bárust Tækniþróunarsjóði á árunum 2016–2020 eftir kyni verkefnisstjóra kemur fram eftirfarandi skipting.
    Greind var hlutfallsleg skipting umsókna hjá Tækniþróunarsjóði eftir kyni verkefnisstjóra (sjá mynd).

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Greint var árangurshlutfall umsókna eftir kyni verkefnisstjóra (sjá mynd).

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Greind var hlutfallsleg skipting umsókna og árangurshlutfall eftir tegund umsækjenda (sjá töflu).

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Greind var hlutfallsleg skipting verkefnisstjóra eftir kyni (sjá mynd).
    Umsóknir voru einnig greindar eftir 14 atvinnugreinaflokkum í hlutfall umsókna eftir kyni verkefnisstjóra (sjá mynd).

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Árangurshlutfall eftir kyni verkefnisstjóra umsækjenda var eftirfarandi (sjá mynd).

    Þá var leitað eftir mati umsækjenda í Tækniþróunarsjóð á mögulegum kynjaáhrifum styrkveitingar, svohljóðandi (sjá mynd).

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.






Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Greind var aldursdreifing umsækjenda og styrkþega í Tækniþróunarsjóð 2016–2020 eftir kyni verkefnisstjóra (sjá mynd).


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.





Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Kynjahlutföll umsækjenda og styrkþega í Nýsköpunarsjóð námsmanna á árunum 2016– 2021 var með eftirfarandi hætti (sjá töflu).

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Í samræmi við kynjahlutföll nemenda í háskólum voru konur í meiri hluta styrkþega Nýsköpunarsjóðs námsmanna (sjá mynd).

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Hlutfall umsækjenda sem fengu atvinnutækifæri í framhaldi af vinnslu verkefnis, skipt eftir kyni (sjá mynd).

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



1     www.stjornarradid.is/library/01--Frettatengt---myndir-og-skrar/ANR/Ranns%c3%b3knarsk%c3%bdrsla%20-%20Alma%20Dora%20-%20NSN.pdf