Ferill 233. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1297  —  233. mál.
2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á skaðabótalögum, nr. 50/1993 (gjafsókn).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigrúnu Sif Jóelsdóttur frá samtökunum Líf án ofbeldis og Margréti Steinarsdóttur frá Mannréttindaskrifstofu Íslands.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Félagsráðgjafafélagi Íslands, samtökunum Líf án ofbeldis og Mannréttindaskrifstofu Íslands.
    Frumvarpið felur í sér breytingar á skaðabótalögum, nr. 50/1993.

Umfjöllun nefndar.
    Nefndin hefur fjallað efnislega um frumvarpið en með því er lagður til möguleikinn á lögbundinni gjafsókn í einkamálum er varða sókn miska- og skaðabóta vegna kynferðisbrota og ofbeldisbrota milli nákominna. Markmiðið með breytingunni er að lögð verði sérstök áhersla á þolendur kynferðisbrota og þolendur ofbeldisbrota í nánum samböndum þannig að þolendur umræddra brota geti, þrátt fyrir niðurfellingu mála á rannsóknar- og ákærustigi eða sýknu í sakamáli, leitað leiða til að sækja bætur á hendur þeim sem verkið framdi.
    Nefndin tekur undir það sem fram kemur í umsögn Félagsráðgjafafélags Íslands en félagið bendir í umsögn sinni á að í frumvarpinu felist mikilvæg réttarbót fyrir þolendur kynferðisbrota og heimilisofbeldisbrota. Jafnframt bendir félagið á að það sé ekki á allra færi að höfða dómsmál vegna mikils kostnaðar og frumvarpið því til þess fallið að bæta aðgengi þolenda að því að sækja bótarétt fyrir dómstólum. Í umsögnum Mannréttindaskrifstofu Íslands og samtakanna Líf án ofbeldis komu fram sams konar sjónarmið.
    Fram kom við umfjöllun nefndarinnar að þrátt fyrir þá afstöðu dómsmálaráðuneytisins sem fram kemur í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála og lögum um fullnustu refsinga (bætt réttarstaða brotaþola, fatlaðs fólks og aðstandenda), þskj. 741, 518. mál, að ráðuneytið telji ekki réttmætt að ríkissjóður standi í frekara mæli straum af kostnaði kröfuhafa af heimtu skaðabóta, telur nefndin mikilvægt með hliðsjón af eðli þessara brota og alvarleika þeirra að gjafsókn verði veitt í þeim tilvikum sem heyra undir ákvæðið með þeim takmörkunum sem þar greinir.
    Nefndin telur ekki að málið komi til með að hafa víðtæk áhrif í málaflokknum, en telur þó mikilvægt að undir þeim kringumstæðum sem tilgreindar eru í ákvæðinu sé liðkað fyrir veitingu gjafsóknar umfram skilyrði 126. gr. laga um meðferð einkamála.

Breytingartillaga.
    Við meðferð málsins var nefndinni bent á að ákvæðið í 1. gr. frumvarpsins gæti talist of víðtækt. Því leggur nefndin til að í greininni verði vísað til ákvæða 194.–198., 200.–202. og 218. gr. b almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, í stað þess að vísað sé til XXII. kafla laganna í heild sinni. Nefndin telur rétt að taka tillit til mismunandi alvarleika kynferðisbrota. Veiting gjafsóknar í málum vegna hugsanlegra brota á öðrum ákvæðum XXII. kafla laganna myndi því fara eftir almennum reglum og metur gjafsóknarnefnd í hverju tilviki fyrir sig hvort skilyrði séu uppfyllt.
    Þá leggur nefndin til að gerð sé krafa um að hugsanlegt brot hafi verið til rannsóknar hjá lögreglu. Ríkir almannahagsmunir liggja að baki því að sem flest kynferðisbrot og heimilisofbeldisbrot séu kærð og sæti rannsókn lögreglu og þetta skilyrði því til þess fallið að tryggja að þolendur verði ekki fráhverfir því að kæra slík ofbeldisbrot til lögreglu þar sem annað lagalegt úrræði standi til boða. Með breytingunni er þannig verið að stemma stigu við því að ákvæðið muni í framkvæmd koma í stað kæru, rannsóknar eða saksóknar.
    Jafnframt leggur nefndin til að stefnandi, sem á grundvelli ákvæðisins óskar eftir gjafsókn í skaða- eða miskabótamáli, sýni fram á í umsókn til gjafsóknarnefndar að málstaður hans gefi nægilegt tilefni til málshöfðunar, þ.e. að líkur séu á að skaðabótaskylda sé fyrir hendi í málinu. Nefndin áréttar að skilyrðum a- og b-liðar 1. mgr. 126. gr. laga um meðferð einkamála þarf ekki að vera fullnægt svo komi til greina að veita gjafsókn. Það er hlutverk gjafsóknarnefndar að leggja mat á það hvort framangreind skilyrði um nægilegt tilefni séu uppfyllt og taka ákvörðun um veitingu gjafsóknar samkvæmt ákvæðinu.
    Nefndin áréttar að tilgangur þessarar breytingar er ekki að grafa undan markmiði frumvarpsins um aukin lagaleg úrræði fyrir þolendur heldur að koma í veg fyrir veitingu gjafsóknar í þeim málum sem ekki er ætlað að heyra undir ákvæðið.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Efnismálsgrein 1. gr. orðist svo:
                  Stefnandi dómsmáls sem höfðað er til greiðslu skaða- eða miskabóta vegna háttsemi sem hefur verið til rannsóknar lögreglu sem hugsanlegt brot gegn 194.–198., 200.–202. og 218. gr. b almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, skal hafa gjafsókn í héraði, fyrir Landsrétti og Hæstarétti ef málstaður stefnanda gefur nægilegt tilefni til. Gjafsóknarnefnd tekur ákvörðun um veitingu gjafsóknar samkvæmt ákvæðinu.
     2.      2. gr. orðist svo:
                  Lög þessi öðlast gildi 1. júní 2023.

    Sigmar Guðmundsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 15. júní 2022.

Bryndís Haraldsdóttir,
form.
Hilda Jana Gísladóttir,
frsm.
Birgir Þórarinsson.
Eyjólfur Ármannsson. Jóhann Friðrik Friðriksson. Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir.
Kári Gautason.