Ferill 695. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1325  —  695. mál.
Svar


mennta- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Evu Sjöfn Helgadóttur um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.


     1.      Hvernig vindur fram innleiðingu laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021?
     2.      Hvaða fösum innleiðingarinnar er lokið, hverjum er ólokið og hvenær má vænta þess að einstökum fösum verði lokið?
     3.      Hvaða forsendur liggja til grundvallar ákvörðunum um hvernig fösunum er forgangsraðað?


    Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða í lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021, ber mennta- og barnamálaráðherra ábyrgð á því að viðeigandi ráðstafanir séu gerðar til að undirbúa gildistöku laganna og styðja við innleiðingu þeirra. Í því felst meðal annars að stýra aðgerðum við innleiðingu í samstarfi við ráðherra skv. 1. mgr. 3. gr. laganna og sveitarfélög. Í greinargerð frumvarpsins er gert ráð fyrir þriggja ára innleiðingartímabili laganna sem lýkur í lok árs 2024. Í nefndaráliti meiri hluta velferðarnefndar er innleiðingartímabilið skilgreint sem fimm ár en gert ráð fyrir endurmati að þremur árum liðnum.
    Frumvarpið var lagt fram á Alþingi 30. nóvember 2020. Í upphafi árs 2021 var hafist handa við undirbúning innleiðingar með fyrirvara um samþykkt frumvarpanna. Áhersla þessa undirbúningsfasa var á áætlaðar breytingar á stofnanauppbyggingu með tilkomu Barna- og fjölskyldustofu og Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála. Forsenda þessara áherslu var að stofnanirnar, einkum Barna- og fjölskyldustofa, myndu gegna mikilvægu hlutverki í að styðja við innleiðingu samþættingar og því væri áríðandi að gera þeim kleift að takast á við ný og breytt verkefni sem þeim var ætlað í framlögðum frumvörpum. Í þessu fólst meðal annars að ráðgjafar í breytingastjórn, sem störfuðu á grundvelli samnings við þáverandi félagsmálaráðuneyti, veittu stofnununum stuðning.
    Í kjölfar þess að lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna voru samþykkt á Alþingi 11. júní 2021 var lögð áhersla á útfærslu skipulags innleiðingar laganna enda er slíkt skipulag forsenda áframhaldandi framvindu verkefnisins. Þáverandi félags- og barnamálaráðherra fól nokkrum sérfræðingum félagsmálaráðuneytis að mynda verkefnastjórn um innleiðingu laganna og hóf hópurinn störf í október 2021. Eftir breytingar á skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, sbr. þingsályktun nr. 6/152, var fjölgað í verkefnastjórninni með hliðsjón af verkefnum nýs mennta- og barnamálaráðuneytis. Hlutverk verkefnastjórnar er að hafa umsjón með og samhæfa innleiðingu laganna, auk þess að hafa þétt samráð við lykilaðila, koma að samráði, málþingum og kynna lögin sem víðast. Verkefnastjórn fundar vikulega.
    Við útfærslu frekara skipulags innleiðingarinnar var litið til nefndarálits meiri hluta velferðarnefndar Alþingis, þar sem segir meðal annars: „Meiri hlutinn telur rétt að nýta þá vinnu og þá hópa sem þegar eru að störfum við að halda utan um verkefnið, þ.e. stýrihóp Stjórnarráðsins um málefni barna og þingmannanefnd um málefni barna. Til að styðja enn frekar við innleiðingarverkefnið telur meiri hlutinn mikilvægt að skipaður verði formlegur starfshópur aðila úr röðum þjónustuveitenda og þjónustuþega, barna og foreldra. Til að tryggja nauðsynlega aðkomu sveitarfélaga að innleiðingu laganna á öllum stigum telur meiri hlutinn nauðsynlegt að hvert sveitarfélag tilnefni sérstakan tengilið á tímabili innleiðingar auk þess sem þverfaglegir svæðisbundnir innleiðingarhópar verði starfandi.“
    Í samræmi við framangreint var við lok árs 2021 skipaður starfshópur fulltrúa þjónustuveitenda, foreldra og barna. Í starfshópinn var óskað eftir fulltrúum frá dómsmálaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti, þáverandi félagsmálaráðuneyti og mennta- og menningarmálaráðuneyti, auk Barnaverndarstofu (nú Barna- og fjölskyldustofu), Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samtaka stjórnenda í velferðarþjónustu, Grunns – félags fræðslustjóra og stjórnenda skólaskrifstofa, Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra, Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, Landssambands ungmennafélaga og umboðsmanns barna. Þess var sérstaklega óskað að hlutaðeigandi ráðuneyti tilnefndu fulltrúa úr röðum þjónustuveitenda sem þeirra málefnasviði tilheyrðu. Hlutverk hópsins er að styðja við innleiðingu laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og hefur hann fundað u.þ.b. mánaðarlega frá stofnun.
    Jafnframt hefur verið unnið að endurskipun stýrihóps Stjórnarráðsins í málefnum barna og þingmannanefndar um málefni barna, en búið er að óska eftir tilnefningum í þessa hópa. Stýrihópnum er ætlað víðtækt stefnumótunarhlutverk auk þess að vera formlegur samráðsvettvangur fulltrúa ráðherra sem fara með stjórnarmálefni sem tengjast réttindum barna og þjónustu við þau. Meðal verkefna hópsins á grundvelli laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021, er að undirbúa stefnu um farsæld barna og framkvæmdaáætlun um verkefni ríkisins sem varða farsæld barna, sbr. 3. gr. laga nr. 86/2021. Þá er hópnum falin framkvæmd ýmissa aðgerða á grundvelli þingsályktunar nr. 28/151, um barnvænt Ísland – framkvæmd barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem samþykkt var á Alþingi í júní 2021, sem og annarra verkefna að beiðni mennta- og barnamálaráðherra. Þingmannanefndinni er ætlað að tryggja aðkomu þingmanna að innleiðingu laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og frekari vinnu og undirbúningi við endurskoðun lagaumhverfis og stefnumótun sem varðar málefni barna.
    Í nóvember 2021 óskaði ráðuneytið eftir því við öll sveitarfélög landsins að þau tilnefndu fulltrúa þjónustuveitenda í innleiðingunni. Sama beiðni var send á alla framhaldsskóla, heilsugæslur, lögreglustjóra, sýslumenn og ýmsar stofnanir ríkisins sem koma að þjónustu við börn, þ.m.t. embætti landlæknis, Landspítala, Sjúkrahúsið á Akureyri, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og fólk með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, Ráðgjafar- og greiningarstöð, Fangelsismálastofnun og Útlendingastofnun. Fulltrúunum var í kjölfarið boðið á vinnufund fulltrúa þjónustuveitenda í framlínu sem var haldinn 17. nóvember 2021. Alls voru 256 þátttakendur sem tóku þátt í skipulögðum umræðum um áskoranir og tækifæri við innleiðingu laganna. Niðurstöður vinnufundarins voru teknar saman og fóru í frekari úrvinnslu í verkefnastjórn innleiðingarinnar.
    Í fjárlögum fyrir árið 2022 er gert ráð fyrir 1,8 milljörðum kr. vegna laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Þar af fer 1,1 milljarður kr. í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og um 700 millj. kr. er varið í að fjármagna innleiðingu laganna í þjónustukerfum á vegum ríkisins. Gert hefur verið ráð fyrir sömu árlegu upphæð í fjármálaáætlun út innleiðingartímabilið. Haustið 2021 var skipaður vinnuhópur með fulltrúum þáverandi félags- og barnamálaráðuneytis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis auk Sambands íslenskra sveitarfélaga sem hafði það hlutverk að leggja fram tillögur um úthlutunarreglur vegna fjármagns sem er til ráðstöfunar til sveitarfélaga skv. 27. gr. laganna. Hópurinn komst að sameiginlegri tillögu um skiptingu fjármagns milli sveitarfélaga eftir ákveðnum breytum sem taldar voru hafa forspárgildi fyrir þörf á fjármagni til innleiðingar verkefnisins. Tillögurnar komu til umfjöllunar ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og gaf innviðaráðherra í kjölfarið út reglugerð um framlög til að mæta kostnaði sveitarfélaga vegna samþættingar þjónustu í þágu farsældar barna á árinu 2022, nr. 1455/2021. Áfram er unnið að útfærslu skiptingar fjármagns milli sveitarfélaga fyrir næsta ár. Jafnframt er enn unnið að því að útfæra grundvöll úthlutunar fjármagns til framhaldsskóla og heilsugæsla vegna tengiliða þjónustu í þágu farsældar barna.
    Félags- og barnamálaráðherra og rektor Háskóla Íslands undirrituðu 22. september 2021 samstarfssamning um að Háskólinn setji á laggirnar tvær tímabundnar lektorsstöður við Félagsráðgjafardeild skólans til þriggja ára til að efla kennslu og rannsóknir vegna nýrra laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Önnur staðan er á sviði barnaverndar með áherslu á rétt barna til þjónustu og þátttöku og þverfaglegs samstarfs með áherslu á teymisvinnu og málastjórn. Hin staðan, sem er hálft starf, er staða á sviði kostnaðar- og nytjagreininga með áherslu á mælingar á hagrænum ávinningi breytinganna. Stöðurnar eru stofnaðar til að sem best takist til við að innleiða ný vinnubrögð sem byggja á samþættingu þjónustu við börn, en mikilvægt er að leggja áherslu á menntun fagstétta, auk endur- og símenntunar í beitingu aðferða málastjórnunar og þverfaglegrar samvinnu.
    Liður í þessu samstarfi er að Háskóli Íslands mun í haust bjóða upp á nýja námsleið, diplómanám í farsæld barna. Náminu er ætlað að styðja við innleiðingu löggjafarinnar með því að veita þekkingu á löggjöfinni sjálfri, barnamiðaðri nálgun, samþættingu þjónustu, hlutverki tengiliða og málstjóra. Lögð verður áhersla á færni í teymisvinnu og þverfaglegri samvinnu. Umsóknarfrestur um námið er runninn út og bárust alls 175 umsóknir um það. Unnið er að samningi milli mennta- og barnamálaráðuneytis og Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands um að vinna rannsókn sem leggur grunn að mati á árangri löggjafar um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, með því m.a. að mæla viðhorf bæði þjónustunotenda og þjónustuveitenda til núverandi þjónustu þannig að síðar verði hægt að meta hvort breyting hafi orðið.
    Vinnufundir, kynningar og samráð hafa skipað stóran sess við undirbúning og innleiðingu laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna enda er þekking á inntaki laganna grundvöllur þess að þjónustuveitendur og aðrir geti þróað og innleitt verklag í samræmi við þau. Frá samþykkt laganna hefur verkefnastjórn ráðuneytisins komið að um 50 viðburðum, kynningum og fundum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, víðsvegar um landið með aðilum sveitarfélaga, fagfélaga og stofnana svo dæmi séu nefnd. Sem dæmi um stærri viðburði má nefna vinnufund þjónustuveitenda 17. nóvember 2021, sem áður hefur verið fjallað um, og vinnufund sem haldinn var þann 16. maí sl. undir heitinu Farsæld í skólastarfi og var samstarfsverkefni mennta- og barnamálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands.
    Frá stofnun Barna- og fjölskyldustofu 1. janúar sl. hefur stofnunin, í samræmi við lögbundið hlutverk sitt, tekið virkan þátt í kynningu og samráði um verkefnið í nánu samstarfi við mennta- og barnamálaráðuneyti. Meðal annars hefur stofnunin haldið tíu fundi víða um land með fulltrúum allra sveitarfélaga landsins og þjónustuveitenda á svæðunum ásamt fulltrúum ráðuneytisins. Ætlunin er að halda kynningarstarfi áfram út innleiðingartímabilið. Meðal annars er fyrirhugað að vinna aðgengilegt kynningarefni um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna fyrir börn, foreldra og þjónustuveitendur.
    Barna- og fjölskyldustofa hefur sérstöku hlutverki að gegna við framkvæmd laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og hefur stofnunin sett upp innleiðingaráætlun verkefnisins í nokkrum skrefum. Næstu skref Barna- og fjölskyldustofu í innleiðingarferlinu eru m.a. að vinna leiðbeinandi verklag fyrir tengiliði og málstjóra, nánari reglur um vinnslu persónuupplýsinga við samþættingu þjónustu, eyðublöð og fræðsluefni fyrir þá sem koma að samþættingu þjónustu. Á heimasíðu Barna- og fjölskyldustofu, bofs.is, er að finna tengil undir nafninu Farsæld og er þar að finna ýmsar gagnlegar upplýsingar.
    Leiðarljós við innleiðingu laganna er að þjónustuveitendur og aðrir nýti innleiðingartímabil í tilraunaverkefni og að í virku samtali allra hagaðila muni liggja fyrir innan innleiðingartímabilsins hver besta framkvæmdin er á hverjum stað. Nokkur sveitarfélög og svæði eru þegar komin vel á veg við innleiðingu og er Barna- og fjölskyldustofa í sérstöku samstarfi við fjögur sveitarfélög um frumkvöðlastarf í þeim efnum. Önnur sveitarfélög, þjónustuveitendur og svæði eiga lengra í land og verður litið til þeirra við forgangsröðun kynninga og samráðs næstu mánuði.
    Innan mennta- og barnamálaráðuneytis er hafin vinna við undirbúning útgáfu reglugerða á grundvelli laganna. Undirbúningur hefur farið fram í víðtæku samráði, þ.m.t. við Barna- og fjölskyldustofu, starfshóp fulltrúa þjónustuveitenda, foreldra og barna og aðra aðila. Drög að reglugerð um tengiliði og málstjóra í þágu farsældar barna verða birt til umsagnar í samráðsgátt á næstu vikum. Til að undirbúa útgáfu reglugerða um stigskiptingu þjónustu var ákveðið að fara í kortlagningu og greiningu á þeim úrræðum sem eru til staðar innan sveitarfélaga. Samið var við verktaka sem var falið að greina úrræði í sex mismunandi sveitarfélögum. Greiningunni var skilað í formi skýrslu sem var afhent ráðuneytinu í desember 2021. Í framhaldinu óskaði Barna- og fjölskyldustofa eftir upplýsingum frá öllum sveitarfélögum landsins um úrræði sem þar standa til boða fyrir börn og fjölskyldur. Þegar þær upplýsingar hafa borist verða þær nýttar við áframhaldandi undirbúning reglugerðanna.
    Á vettvangi stýrihóps Stjórnarráðsins í málefnum barna er jafnframt fyrirhugað að undirbúa stefnu og framkvæmdaáætlun um verkefni ríkisins er varða farsælda barna og í kjölfarið verður farsældarþing haldið í samræmi við ákvæði laganna. Stuðningi og hvatningu til sveitarfélaga vegna svæðisbundinna farsældarráða verður haldið áfram.

     4.      Hvaða nýju verkefnum hefur verið hrint í framkvæmd í tengslum við lögin og hvaða fjárveitingar hafa fylgt hverju verkefni?
     5.      Hvaða fjárveitingar hafa farið til sveitarfélaga frá samþykkt laganna og þar til nú, til að koma á fót úrræðum fyrir börn, þannig að málstjórar þjónustu í þágu farsældar barns hafi yfir úrræðum að ráða fyrir börn sem á þeim þurfa að halda?


    Í lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna er fjallað um þau verkefni sem verið er að hrinda í framkvæmd í tengslum við lögin. Meðal annars er þar um að ræða tilkomu tengiliða og málstjóra þjónustu í þágu farsældar barna. Fjallað hefur verið um fjármögnun þessara verkefna í svari við spurningum 1-3, þar með talið fjármagn sem veitt er frá ríki til sveitarfélaga í gegn um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Engar fjárveitingar hafa runnið frá ríki til sveitarfélaga sem er sérstaklega ætlað að koma á fót úrræðum fyrir börn vegna verkefna sem eru á ábyrgð sveitarfélaga.
    Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að úrræði fyrir börn og barnafjölskyldur verði endurskipulögð í samræmi við samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Ekki er unnt að gera grein fyrir öllum verkefnum sem eru í undirbúningi sem tengjast lögunum en sem dæmi má nefna aðgerð 1 í aðgerðaáætlun 2021–2024 um menntastefnu til 2030, sem fjallar um heildstæða skólaþjónustu byggða á þrepaskiptum stuðningi sem styður við nám og farsæld barna og ungmenna, og skipan stýrihóps um aðgengi að þjónustu fyrir börn.