Ferill 689. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1404  —  689. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Evu Sjöfn Helgadóttur um lögræðissvipta.


     1.      Hversu mörg þeirra sem hafa verið svipt lögræði undanfarin tíu ár hafa á þeim tíma verið í þvingaðri lyfjagjöf?
     2.      Hver er dvalartími lögræðissviptra á lokuðum geðdeildum? Svar óskast um meðaldvalartíma, stysta dvalartíma og lengsta dvalartíma undanfarin tíu ár.
     3.      Hversu mörg ótímabær dauðsföll hafa verið meðal lögræðissviptra undanfarin tíu ár?


    Samræmd skráning í rafrænni sjúkraskrá á beitingu nauðungar eða þvingunarúrræða er ekki til staðar á Íslandi og því eru umbeðnar tölfræðiupplýsingar ekki aðgengilegar að svo stöddu. Í apríl 2021 óskaði heilbrigðisráðuneyti eftir því að embætti landlæknis hæfi vinnu við þróun og innleiðingu kerfis eða viðmóts fyrir heilbrigðisstarfsfólk til að skrá beitingu nauðungar. Á vegum embættis landlæknis er unnið að því að skilgreina samræmda skráningu þvingunarúrræða í rafræna sjúkraskrá og síðan þarf að breyta rafrænum sjúkraskrárkerfum þannig að samræmd skráning sé framkvæmanleg, sem aftur mun tryggja betri yfirsýn og möguleika á tölfræðiúttektum sem þessum.