Ferill 719. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1405  —  719. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Jóhanni Páli Jóhannssyni og Kristrúnu Frostadóttur um beiðni ráðherra um úttekt Ríkisendurskoðunar á sölu eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka.


     1.      Hvers vegna óskaði ráðherra eftir því 7. apríl 2022 að Ríkisendurskoðun gerði úttekt á sölu eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka?
    Í tilvísuðu erindi ráðuneytisins til Ríkisendurskoðunar er tilgreind ástæða þess að farið var á leit við stofnunina að hún kannaði og legði mat á hvort salan hafi samrýmst lögum og góðum stjórnsýsluháttum. Er þar vísað til umræðu sem skapast hafði um hvort framkvæmd sölunnar hafi verið í samræmi við áskilnað laga og greinargerð sem borin var undir fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis til rýni og umsagnar áður en sölunni var hrint í framkvæmd.

     2.      Á hvaða lagagrundvelli er beiðni ráðherra til Ríkisendurskoðunar reist?
    Í tilvísuðu erindi ráðuneytisins til Ríkisendurskoðunar kemur fram að samkvæmt lögum um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga hafi ríkisendurskoðandi m.a. það hlutverk að hafa eftirlit með framkvæmd samninga sem eru gerðir við einkaaðila og hafa eftirlit með starfsemi og árangri ríkisaðila. Um er að ræða vísun til ákvæða í d- og g-lið 1. mgr. 4. gr. laganna. Jafnframt er í beiðninni frá ráðuneytinu áréttað að lögin kveða á um að ríkisendurskoðandi ákveði sjálfur hvernig hann sinnir hlutverki sínu samkvæmt lögunum. Um er að ræða vísun til 3. mgr. 1. gr. laganna.

     3.      Leitaði ráðherra álits ráðuneytis síns, sbr. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands, áður en beiðnin var lögð fram? Ef svo er, hvers efnis var ráðgjöfin?
    Ráðherra leitaði eftir afstöðu starfsmanna ráðuneytisins til þess hvort forsendur væru til að óska eftir því við Ríkisendurskoðun að hún tæki framkvæmd sölunnar til athugunar og fékk þau svör að mörg dæmi væru um að stjórnvöld legðu fram slíkar beiðnir sem og að á slíkar beiðnir væri fallist.

     4.      Hefur ráðherra áður óskað eftir úttektum frá eftirlitsstofnunum Alþingis á tilteknum málum? Ef svo er, í hvaða tilvikum og af hvaða ástæðum?
    Ráðuneytið hefur áður óskað eftir aðkomu Ríkisendurskoðunar að tilteknum málum. Mörg dæmi eru um óskir eftir úttektum og athugunum Ríkisendurskoðunar frá ráðuneytum en einnig frá sveitarfélögum og frá stofnunum, t.d. Landspítala, Tryggingastofnun ríkisins, Raunvísindastofnun og Verkmenntaskóla Austurlands. Meðal mála sem Ríkisendurskoðun hefur annast á síðari árum að tilstuðlan annarra ráðuneyta má nefna athuganir á Innheimtustofnun sveitarfélaga, stjórnsýslu fiskveiðimála, Ríkisútvarpið, framkvæmd laga um málefni fatlaðra o.fl. Ekki er sérstaklega haldið utan um beiðnir af þessu tagi í ráðuneytinu en við eftirgrennslan komu upp eftirfarandi dæmi:
          Í október 1992 óskaði ráðuneyti eftir því við Ríkisendurskoðun að skoðað yrði hvernig staðið var að ákvörðun um kaup á tilteknum ferjum, hvaða áætlanir hafi legið til grundvallar og hversu raunhæfar þær hafa verið. Ætlunin var að leiða í ljós hvort eitthvað hefði mátt betur fara í þeim málum.
          Í september 1999 fóru heilbrigðisráðuneytið og fjármálaráðuneytið þess á leit við Ríkisendurskoðun að hún kannaði rekstrarstöðu heilbrigðisstofnana. Fyrirhugað væri að notast við niðurstöður slíkrar vinnu við fjárlagagerð.
          Í nóvember 2000 óskaði ráðuneytið eftir því að Ríkisendurskoðun kannaði framkvæmd laga og reglna um íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins. Ætlunin var að afla upplýsinga um hvernig staðið væri að slíkum málum hjá einstökum ráðuneytum, áður en gerðar yrðu tillögur til úrbóta og var að því tilefni leitað liðsinnis Ríkisendurskoðunar.

     5.      Hvernig verður gjaldtöku háttað vegna úttektarinnar, sbr. tilvísun Ríkisendurskoðunar til 2. mgr. 8. gr. laga nr. 46/2016 í svarbréfi til fjármála- og efnahagsráðuneytis 7. apríl 2022?
    Ráðuneytið væntir þess að ef til gjaldtöku kemur vegna úttektarinnar þá muni hún nema þeim kostnaði sem af úttektinni hlýst hjá Ríkisendurskoðun.

     6.      Telur ráðherra það falla undir starfssvið Ríkisendurskoðunar að meta lögfræðileg atriði sem varpað geta ljósi á það hvort ráðherra hafi sjálfur rækt starfsskyldur sínar samkvæmt lögum nr. 155/2012, um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum, lögum nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands, og stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, við sölu eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka?
                  a.      Ef svarið er nei, hafði þetta þýðingu fyrir þá ákvörðun ráðherra að beita sér fyrir því að málið yrði rannsakað af Ríkisendurskoðun en ekki af eftirlitsaðila sem að lögum er bær til þess að fjalla um hvort ráðherra hafi gerst brotlegur við starfsskyldur sínar?
                  b.      Ef svarið er já, telur ráðherra að lögbundnar skyldur hans sem ráðherra samkvæmt téðum lögum hafi einskorðast við fjárreiður, sbr. 43. gr. stjórnarskrárinnar, en ekki falið í sér framkvæmd stjórnarmálefna að öðru leyti?

    Af lögum um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga verður ráðið að stofnunin hafi heimildir til þess að leggja mat á atriði af því tagi sem vísað er til í þessum lið, enda einskorðast starfssvið hennar ekki við fjárhagsendurskoðun. Í eftirliti stofnunarinnar með rekstri og fjárreiðum, sbr. 3. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, getur m.a. falist að leggja mat á framkvæmd samninga og á starfsemi og árangur ríkisaðila, sbr. d- og g-lið 1. mgr. 4. gr. laganna. Eitt af meginverkefnum Ríkisendurskoðunar er að leggja mat á frammistöðu ríkisaðila, sem gjarnan er nefnt stjórnsýsluendurskoðun. Í framkvæmd hefur starfssvið ríkisendurskoðanda verið túlkað rúmt og fyrst og fremst hans sjálfs að ákveða hvar mörk starfssviðs hans liggja.
    Ráðherrar fara með og bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum, sbr. 14. gr. stjórnarskrárinnar, hver á sínu málefnasviði. Um skyldur ráðherra samkvæmt lögum um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum er fjallað í svari við fyrirspurn á þskj. 951 í 647. máli. Meðal þeirra skyldna eru m.a. að bera greinargerð um fyrirkomulag og markmið fyrirhugaðrar sölu undir fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis og leggja mat á hvort söluferlið hafi samræmst forsendum sem lagt var upp með í greinargerðinni. Í skyldum ráðherra sem vísað er til felast þannig stjórnarmálefni sem kunna að falla utan við þrönga skýringu hugtaksins fjárreiður enda þótt allar varði þær ráðstöfun fjárhagslegra hagsmuna.