Ferill 611. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1417 — 611. mál.
Svar
umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um losun gróðurhúsalofttegunda við opinberar framkvæmdir.
1. Hefur losun gróðurhúsalofttegunda áhrif við mat á framkvæmdakostum við opinberar framkvæmdir?
Samkvæmt upplýsingum frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu er ekki er tekið tillit til losunar gróðurhúsalofttegunda við valkostagreiningu framkvæmda á vegum Framkvæmdasýslunnar – Ríkiseigna. Allar framkvæmdir að verðmæti yfir 500 millj. kr. fara í umhverfisvottunarferli þar sem gerðar eru miklar kröfur til þess að valdar séu umhverfisvænar lausnir og að við framkvæmdina sé losun gróðurhúsalofttegunda í lágmörkuð eins og hægt er.
2. Hver er áætluð losun gróðurhúsalofttegunda vegna byggingar nýs Landspítala við Hringbraut? Hver er losunin í samanburði við svipuð verkefni í nágrannalöndunum?
Samkvæmt upplýsingum frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu er nú unnið að uppfærslu á svokallaðri LCA-greiningu vegna nýbygginga Landspítalans við Hringbraut en þar fæst útreikningur á kolefnisspori bygginga. Gert er ráð fyrir að útreikningurinn liggi fyrir fljótlega. Ekki liggur fyrir hvaða viðmið er átt við sérstaklega varðandi losunina í samanburði við svipuð verkefni í nágrannalöndunum, en sambærilegar og svipaðar byggingar hafa í för með sér sambærilegt eða svipað kolefnisspor.
3. Hvaða áhrif hefur það á losun gróðurhúsalofttegunda að nýr Landspítali við Hringbraut er byggður samkvæmt amerískum byggingarstöðlum en ekki evrópskum? Er munur og ef svo er, af hverju?
Samkvæmt upplýsingum frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu er hönnun burðarvirkis nýbygginga við Hringbraut samkvæmt íslenskum stöðlum. Ekki er val um leiðir heldur er skylda að fara eftir þessum stöðlum. Sett hefur verið sú krafa að meðferðarkjarninn og rannsóknahúsið verði starfhæft í kjölfar jarðskjálfta. Þessi krafa nær til allra innviða og kerfa, en burðarvirkið fylgir íslenskum stöðlum eins og áður sagði. Þessi krafa er í fullu samræmi við erlenda staðla og ráðleggingar fyrir hönnun sjúkrahúsa. Notast er við FEMA-ráðleggingar frá USA. Þessi krafa hefur verið rýnd af bresku verkfræðistofunni Buro Happold og Corpus-hönnunarhópnum sem eru sammála þessari leiðbeiningarleið. Ef verið er að leita eftir því hvort meira en minna stál í byggingum eða meiri en minni steypa valdi hækkun á kolefnisspori, þá er fylgni milli aukins magns og aukins kolefnisspors í byggingarframkvæmdum. Nýlega var Nýjum Landspítala ohf. úthlutað af hálfu BRE Global Ltd. lokaumhverfisvottun sjúkrahótelsins. Hlaut NLSH ohf. hæstu BREEAM-einkunn sem gefin hefur verið hér á landi fyrir sjúkrahótelið eða 72,9% skor og „Excellent“ einkunn. Í alþjóðlega BREEAM- vottunarkerfinu er lagt mat á marga mismunandi þætti eins og umhverfisstjórnun á byggingar- og rekstrartíma, góða innivist sem tekur m.a. til hljóðvistar, inniloftgæða og lýsingar, góða orkunýtni og vatnssparnað, val á umhverfisvænum byggingarefnum, úrgangsstjórnun á byggingar- og rekstrartíma, viðhald vistfræðilegra gæða nánasta umhverfis og lágmörkun ýmiss konar mengunar frá byggingu, t.d. varðandi frárennsli og ljósmengun. Unnið er að umhverfisvottun annarra nýbygginga við Hringbraut.
4. Hver er áætluð losun gróðurhúsalofttegunda vegna framkvæmda samkvæmt gildandi samgönguáætlun til fimm ára?
Samkvæmt upplýsingum frá innviðaráðuneytinu var ekki lagt mat á losun gróðurhúsalofttegunda vegna framkvæmda við gerð gildandi samgönguáætlunar, eingöngu á ávinninginn eftir að framkvæmdirnar eru teknar í notkun.
Nú er unnið að undirbúningi nýrrar samgönguáætlunar og við gerð hennar er lagt mat á losun við framkvæmd hennar.
Engu að síður hefur Vegagerðin við framkvæmd verkefna lagt mat á hve mikið votlendi raskast við einstakar framkvæmdir og endurheimt jafnmikið á móti í samstarfi við sérfræðistofnanir. Endurheimtir hafa verið 360 ha af votlendi síðan 2002. Vegagerðin hefur einnig verið í samstarfi við skógræktarfélög um endurheimt skóga sem raskast við framkvæmdir og Landgræðsluna um endurheimt annarra vistkerfa. Nokkrar vistferilsgreiningar hafa verið gerðar fyrir framkvæmdir Vegagerðarinnar fyrir m.a. brýr og 1+1 stofnvegi. Miðað við þær vistferilsgreiningar er losun vegna byggingar 1 km 1+1 þjóðvegar um 332 t CO2 ígildi. Kolefnisspor byggingar á brúm eru 1,0 –2,4 tonn á nýtanlega fermetra brúargólfs. Rétt er að taka fram að inni í þessum tölum er líka losun vegna framleiðslu og flutnings hráefna en ekki einungis losun á verkstað. Unnið er að því innan Vegagerðarinnar að ná betur utan um losun gróðurhúsalofttegunda vegna framkvæmda til að kortleggja þau tækifæri sem eru til að draga úr bæði innbyggðu kolefni og losun á verkstað. Nú þegar eru ýmsar aðgerðir í gangi til að draga úr losun á verkstað, t.d. er leitast við að tengja verkstaði við dreifikerfi rafmagns til að draga úr notkun rafstöðva, endurunnið malbik í slitlög o.fl. Að auki hefur rannsóknasjóður Vegagerðarinnar styrkt mörg rannsóknarverkefni sem snúa að því að draga úr hinu innbyggða kolefni framkvæmdar, t.d. hvað varðar steypu og endurnýtingu jarðefna og slitlaga.
5. Er gert ráð fyrir kolefnisjöfnun þessara verkefna? Hvernig fer sú jöfnun fram?
Samkvæmt upplýsingum frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu er það ekki gert með beinum hætti.
Samkvæmt upplýsingum frá innviðaráðuneytinu þá endurheimtir Vegagerðin jafnmikið votlendi og raskast við framkvæmdir eins og fram hefur komið. Notaðar eru reikniformúlur frá Umhverfisstofnun og Landgræðslunni og er þess gætt að þær séu íhaldssamar, þ.e. þannig að stærð þeirra votlendissvæða sem raskast sé frekar ofmetin en vanmetin. Ekki hefur verið reiknaður kolefnisbindingarhagnaður vegna endurheimtar. Sömu sögu er að segja af endurheimt annarra vistgerða eins og skóga og landgræðslu. Endurheimt er töluvert meira en raskast við framkvæmdir og fer hversu mikið meira eftir m.a. verndargildi þeirra vistkerfa sem raskast. Ekki hefur verið farið í formlega kolefnisjöfnun framkvæmdaverkefna en leiðin til þess væri þá m.a. í þessari endurheimt vistkerfa. Vegagerðin er að þróa þá ferla sem þarf til að meta losun gróðurhúsalofttegunda vegna framkvæmda á hönnunarstigi í takt við þá þróun sem er hjá systurstofnunum hennar á Norðurlöndum. Sú vinna er á frumstigum en verður forsenda þess að hægt sé að taka tillit til þessara umhverfisþátta í okkar framkvæmdum.