Ferill 731. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1419  —  731. mál.




Svar


innviðaráðherra við fyrirspurn frá Teiti Birni Einarssyni um strandsvæðisskipulag og burðarþolsmat á Vestfjörðum og Austfjörðum.

    
    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Mun ráðherra beita sér fyrir því að strandsvæðisskipulag fyrir Vestfirði og Austfirði verði ekki staðfest fyrr en viðkomandi svæðisráð hefur fjallað um skipulag haf- og strandsvæðanna út frá forsendum burðarþolsmats og mótað tillögur um skipulag svæðanna sem byggðar eru á veigamiklum vísindalegum og lögbundnum rannsóknum um vistkerfið? Ef svo er, þá hvernig?

    Mat Hafrannsóknastofnunar á burðarþoli fjarða er eitt af því sem svæðisráð lagði til grundvallar í vinnu við gerð tillögu að strandsvæðisskipulagi fyrir Austfirði og Vestfirði. Í skýrslunum Samfélag, nýting, náttúra 1 og Afrakstur samráðs 2 er gerð grein fyrir þeim forsendum sem hafðar voru til hliðsjónar við mótun tillagnanna, þ.e. núverandi nýtingu svæðanna, þ.m.t. burðarþolsmat og áhættumat erfðablöndunar, verndarákvæðum sem gilda á þeim og áherslum úr samráði.
    Tillögur svæðisráða að strandsvæðisskipulagi Vestfjarða og strandsvæðisskipulagi Austfjarða eru aðgengilegar á vefnum hafskipulag.is ásamt forsendu- og samráðsskýrslum. Kynningartími tillagna er frá 15. júní til 15. september 2022. Tillögur svæðisráða verða kynntar á opnum fundum á Vestfjörðum og Austfjörðum. Sjá nánar á hafskipulag.is. Að loknum kynningartíma taka svæðisráð afstöðu til fram kominna athugasemda og samþykkja endanlega tillögu. Að því loknu staðfestir ráðherra skipulagið.
1     www.skipulag.is/media/pdf-skjol/Samfelag-nyting-nattura_forsenduskyrsla-Austfirdir.pdf
2     www.skipulag.is/media/pdf-skjol/Samantekt-samradsfundir-samradsvefsja-Austfirdir.pdf