Ferill 668. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1431  —  668. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Steinunni Þóru Árnadóttur um netsölu áfengis innan lands.


     1.      Hvernig er staðið að eftirliti með ólöglegri áfengissölu innan lands?
    Samkvæmt áfengislögum, nr. 75/1998, er sala áfengis leyfisskyld starfsemi, sbr. I. og IV. kafla laganna. Á grundvelli 1. mgr. 10. gr. áfengislaga og 1. mgr. 7. gr. laga um verslun með áfengi og tóbak, nr. 86/2011, hefur Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins síðan einkaleyfi til smásölu áfengis. Innflutningur, heildsala, smásala og framleiðsla áfengis sem fram fer í atvinnuskyni án leyfis er refsiverð á grundvelli 1. mgr. 4. gr. áfengislaga, sbr. 27. gr. þeirra laga. Á þeim grundvelli getur slík háttsemi leitt til rannsóknar sakamáls sem þá er í höndum lögreglu, sbr. 1. mgr. 52. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008. Í 2. mgr. 52. gr. sömu laga kemur fram að lögregla skuli hvenær sem þess gerist þörf hefja rannsókn vegna vitneskju eða gruns um að refsivert brot hafi verið framið, hvort sem henni hefur borist kæra eða ekki. Lögreglu ber þar af leiðandi að rannsaka möguleg brot á lögunum, bæði þegar fyrir liggur leyfi til atvinnustarfsemi samkvæmt lögunum og ef um er að ræða leyfislausa starfsemi.
    Auk lögreglu hafa tollgæsla og skattayfirvöld eftirlit með þeim sem hafa leyfi til atvinnustarfsemi, sbr. 4. mgr. 4. gr. áfengislaga. Þar að auki hafa leyfisveitendur, sveitarstjórnir og sýslumenn ákveðnu eftirlitshlutverki að gegna á grundvelli laganna. Þannig skal leyfisveitandi afturkalla leyfi ef leyfishafi uppfyllir ekki lengur skilyrði fyrir leyfisveitingu, sbr. 24. gr. laganna. Þá er í 25. gr. mælt fyrir um að sýslumaður og sveitarstjórn, eftir því hver gaf út leyfið, geti veitt handhafa leyfis sem gefið er út samkvæmt áfengislögum áminningu verði hann uppvís að vanrækslu á skyldum sem á honum hvíla eða hann uppfyllir ekki skilyrði sem um reksturinn gilda. Þá hafa sömu stjórnvöld heimildir til að svipta leyfishafa leyfi verði hann uppvís að frekari vanrækslu meðan áminning er enn í gildi, með þeim hætti sem lýst er í 2. mgr. 25. gr. laganna.

     2.      Hafa komið fram kærur af hálfu hins opinbera vegna ólöglegrar netsölu fyrirtækja með áfengi innan lands?
    Óskað var eftir upplýsingum frá embætti ríkislögreglustjóra um fjölda mála þar sem brot á grundvelli 4. gr. áfengislaga hafði verið kært, þ.e. vegna ólöglegrar netsölu fyrirtækja innan lands. Samkvæmt upplýsingum úr málaskrá lögreglu hafa á síðastliðnum fimm árum, frá árinu 2017 og fram til 15. júní 2022, komið upp tvö mál þar sem kæra hefur verið lögð fram hjá lögreglu fyrir ólöglega netsölu fyrirtækja með áfengi innan lands á grundvelli 1. mgr. 4. gr. laganna.

     3.      Hefur verið ráðist í rannsókn á ólöglegri netsölu með áfengi innan lands? Ef ekki, hvers vegna?
    Lögreglu ber skylda til að afgreiða kærur sem henni berast og er vísað til svars við 1. tölul. fyrirspurnarinnar varðandi nánari útlistun á því. Lögregla hefur þó heimildir til að vísa frá kæru á grundvelli 4. mgr. 52. gr. laga um meðferð sakamála ef ekki þykja efni til að hefja rannsókn vegna hennar. Slík ákvörðun er alfarið í höndum lögreglu og getur hún sætt endurskoðun hjá embætti ríkissaksóknara, sbr. 6. mgr. 52. gr. sömu laga. Þá er rétt að taka fram að íslenskt sakamálaréttarfar byggist á því grundvallarsjónarmiði að meðferð sakamála eigi ekki að lúta pólitískum afskiptum valdhafa á hverjum tíma. Skv. 1. mgr. 19. gr. laga um meðferð sakamála hefur dómsmálaráðherra eftirlit með framkvæmd ákæruvalds og getur krafist þess að ríkissaksóknari láti í té gögn og greinargerðir um meðferðir einstakra mála. Í því felst þó ekki almenn heimild fyrir ráðherra til að óska eftir upplýsingum um stöðu einstakra mála eða hvernig rannsókn þeirra miðar með einum eða öðrum hætti. Með vísan til þess óskar ráðuneytið ekki eftir upplýsingum um einstakar rannsóknir sakamála hjá lögreglu, enda gengi slíkt gegn grundvallarreglum um sjálfstæði ákæruvalds.