Ferill 755. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1437  —  755. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Jóhanni Páli Jóhannssyni um aðfarargerðir.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Telur ráðherra aðfarargerðir sem framkvæmdar eru til að koma á umgengni, lögheimili og/eða forsjá á heilbrigðisstofnunum forsvaranlegar? Mun ráðherra beita sér fyrir því að þær eigi sér ekki stað í framtíðinni?

    Ráðherra telur að almennt eigi stjórnvöld eins og aðrir að forðast að gera nokkuð það sem getur truflað veitingu nauðsynlegrar heilbrigðisþjónustu. Það á að mati ráðherra einnig við um aðfarargerðir sem framkvæmdar eru til að koma á umgengni, lögheimili og/eða forsjá og þá sérstaklega ef unnt er að koma þeim við annars staðar. Það er hlutverk heilbrigðisstofnana að tryggja að sjúklingar, þ.m.t. börn, fái viðeigandi heilbrigðisþjónustu og gæta að réttindum sjúklinga meðan á því stendur. Liður í því að geta veitt sem besta heilbrigðisþjónustu er að sjúklingum líði öruggum á heilbrigðisstofnunum og veigri sér ekki við að mæta þangað, svo sem vegna hættu á að þar verði framkvæmdar aðfarargerðir þær sem um er spurt.
    Að öðru leyti skal tekið fram vegna fyrirspurnarinnar að um aðfarargerðir þær sem fyrirspurnin lýtur að er fjallað í barnalögum, nr. 76/2003, en þau heyra undir málefnasvið dómsmálaráðherra, sbr. b-lið 20. tölul. 2. gr. forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 6/2022, sbr. og 2. gr. forsetaúrskurðar nr. 7/2022. Dómsmálaráðherra fer jafnframt með stefnumótun á málefnasviðinu og það er því undir honum komið að gera breytingar á framkvæmd þessara mála, sbr. 1. mgr. 13. gr. forsetaúrskurðar nr. 6/2022. Þá skal á það bent að við framkvæmd aðfarargerða af þessu tagi skal boða fulltrúa barnaverndarþjónustu en það málefni heyrir undir málefnasvið mennta- og barnamálaráðherra, sbr. b-lið 3. tölul. 10. gr. forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefni milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 6/2022, sbr. og 10. gr. forsetaúrskurðar nr. 7/2022. Það er því bæði rétt og skylt að framangreindir ráðherrar, sem fara með umrædd stjórnarmálefni, svari fyrirspurninni í samræmi við hlutverk sín, en sambærilegum fyrirspurnum hefur þegar verið beint að þeim.