Ferill 703. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1440  —  703. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Helgu Völu Helgadóttur um viðurkenningu á heilbrigðismenntun sem aflað hefur verið í öðru landi.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hversu langan tíma tekur mat á því hvort einstaklingur uppfylli skilyrði til að starfa í starfsgreinum í heilbrigðiskerfinu hér á landi, sem til þarf leyfi, löggildingu eða aðra jafngilda viðurkenningu, á grundvelli faglegrar menntunar og hæfis sem hann hefur aflað sér í öðru landi, sbr. 2. gr. laga nr. 26/2010?
     2.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að slík viðurkenning taki skemmri tíma en nú til þess að draga úr mönnunarvanda í heilbrigðiskerfinu?

    
    Samkvæmt 4. gr. í lögum nr. 34/2012, um heilbrigðisstarfsmenn, hefur sá einn, sem fengið hefur til þess leyfi landlæknis, rétt til að nota starfsheiti löggiltrar heilbrigðisstéttar skv. 3. gr. og starfa sem heilbrigðisstarfsmaður hér á landi. Embætti landlæknis veitir starfsleyfi til einstaklinga sem uppfylla skilyrði laga og reglugerða til notkunar starfsheita löggiltra heilbrigðisstétta, sbr. 4. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007. Skilyrði fyrir veitingu starfs- og sérfræðileyfis er að finna í 5. og 8. gr. laga nr. 34/2012, um heilbrigðisstarfsmenn. Samkvæmt 5. gr. laganna skal ráðherra, þegar hann setur reglugerðir um skilyrði fyrir starfsleyfi löggiltrar heilbrigðisstéttar, gæta skuldbindinga sem íslenska ríkið hafi tekið á sig um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi vegna aðildar að Evrópska efnahagssvæðinu eða stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða á grundvelli annarra gagnkvæmra samninga, sbr. 29. gr. laganna. Lög nr. 26/2010, um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi, fólu í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/36/EB um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi. Um umsóknir EES-ríkisborgara um starfsleyfi innan löggiltrar heilbrigðisstéttar, sem falla undir 2. gr. laga nr. 26/2010, fer samkvæmt reglugerð nr. 510/2020, um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanna frá öðrum EES-ríkjum eða Sviss til að starfa hér á landi. Hér eftir verður fjallað um málshraða við afgreiðslu umsókna um starfsleyfi sem byggja á framangreindum lögum og reglugerðum.
    Í reglugerð nr. 510/2020, um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanna frá öðrum EES-ríkjum eða Sviss til að starfa hér á landi, er að finna ákvæði um frest til afgreiðslu umsókna um starfsleyfi og sérfræðileyfi, sbr. 35. gr. reglugerðarinnar. Í ákvæðinu kemur fram að landlæknir skuli staðfesta viðtöku umsóknar um starfsleyfi og sérfræðileyfi innan eins mánaðar frá því að hún berst og láta umsækjanda vita ef skjöl vantar. Þá skuli umsókn um starfsleyfi vegna stéttar sem telst til samræmdrar stéttar afgreidd svo skjótt sem auðið er og eigi síðar en þremur mánuðum eftir þann dag sem fullgerð umsókn umsækjanda var lögð fram. Að því er varðar umsókn um starfsleyfi stéttar er fellur utan hinna samræmdu stétta er miðað við að afgreiðsla sé í síðasta lagi fjórum mánuðum eftir móttöku allra nauðsynlegra gagna. Embætti landlæknis hefur túlkað það þannig að öll gögn liggi fyrir þegar tilskilin gögn hafa borist embættinu, umsögn menntastofnunar eða fagfélags liggur fyrir og athugasemdir umsækjanda.
    Málsmeðferðartími við afgreiðslu umsókna frá ríkisborgurum frá öðrum EES-ríkjum eða Sviss er ólíkur eftir því hvort umsækjandi aflaði sér menntunar sinnar innan EES og Sviss eða utan, og svo eftir því hvort lágmarkskröfur fyrir þá starfsstétt sem sótt er um starfsleyfi í séu samræmdar innan EES og Sviss eða ekki. Málsmeðferðartíminn er stystur ef samræmdar lágmarkskröfur eru til staðar og menntunar hefur verið aflað innan EES og Sviss. Þetta stafar af ólíkri málsmeðferð þessara umsókna samkvæmt tilskipun 2005/36/EB og reglugerð 510/2020.
    Þær heilbrigðisstéttir sem hafa samræmdar lágmarkskröfur um menntun samkvæmt tilskipun 2005/36/EB eru læknar, tannlæknar, hjúkrunarfræðingar, ljósmæður og lyfjafræðingar. Þegar embætti landlæknis getur beitt samræmdum lágmarkskröfum tilskipunarinnar til að taka afstöðu til umsóknar um starfsleyfi þarf ekki að skoða innihald náms umsækjanda og það styttir málsmeðferðartímann. Landlækni er þó heimilt að gera kröfu um framvísun tiltekinna gagna, t.d. vottorðs sem inniheldur upplýsingar um sviptingu, takmörkun, afturköllun starfsleyfis eða önnur slík viðurlög vegna alvarlegra brota í starfi eða mistaka (e. letter of good standing) og vottorðs frá lögbæru stjórnvaldi í heimalandi umsækjanda um að vitnisburður um formlega menntun og hæfi sé í samræmi við það sem um getur í tilskipuninni, sjá 1. mgr. 40. gr. reglugerðar nr. 510/2020.
    Ef umsókn tekur til heilbrigðisstéttar sem hefur ekki samræmdar lágmarkskröfur þá óskar embætti landlæknis eftir umsögn frá viðeigandi menntastofnun eða fagfélagi, en það lengir málsmeðferðartímann. Heimild fyrir því að óska eftir umsögn er að finna í 4. mgr. 35. gr. reglugerðar nr. 510/2020. Nauðsynlegt er með tilliti til rannsóknarskyldu embættisins að afla slíkrar umsagnar til þess að hafa til hliðsjónar þegar ákvörðun er tekin um leyfisveitingu þar sem embættið hefur í flestum tilfellum ekki yfir að ráða þeirri sérfræðikunnáttu sem þörf er á til að meta innihald náms. Meta þarf hvort námið sem umsækjandi hefur stundað sé að inntaki verulega frábrugðið inntaki þess náms sem boðið er upp á hér á landi í viðkomandi heilbrigðisgrein.
    Nákvæmar upplýsingar um málsmeðferðartíma einstakra umsókna um starfsleyfi hjá embætti landlæknis liggja ekki fyrir. Hins vegar hefur embættið upplýst að afgreiðsla umsóknar um starfsleyfi, þ.e. frá því að umsókn berst og þar til starfsleyfi er veitt eða umsókn er synjað, tekur almennt ekki lengri tíma en 3–6 vikur þegar umsókn varðar starfsleyfi í heilbrigðisstétt sem hefur samræmdar lágmarkskröfur innan EES, og byggist á menntun sem aflað hefur verið innan EES. Afgreiðslutími á umsóknum um starfsleyfi í öðrum heilbrigðisstéttum, þ.e. þegar afla þarf umsagnar, tekur almennt ekki lengri tíma en 5–10 mánuði frá því að umsókn berst, en umsagnaraðili fær a.m.k. 60 daga til að veita embætti landlæknis umsögn og umsækjandi fær auk þess frest til að skila inn gögnum og athugasemdum sem metin eru á síðari stigum.
    Málsmeðferðartími umsókna um starfsleyfi heilbrigðisstétta með samræmdar lágmarkskröfur er að jafnaði 2–4 vikur frá því að öll nauðsynleg gögn liggja fyrir og skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis eru uppfyllt. Ef vísa þarf umsókn frá vegna þess að nauðsynleg gögn liggja ekki fyrir eða ef skilyrði eru ekki uppfyllt þá er málsmeðferðartími þessara umsókna þó eigi lengri en 3 mánuðir.
    Málsmeðferðartími umsókna um starfsleyfi heilbrigðisstétta sem hafa ekki samræmdar lágmarkskröfur er að jafnaði 2–3 vikur frá því að umsögn og önnur nauðsynleg gögn hafa borist og í umsögn er mælt með leyfisveitingu. Ef umsækjandi er ekki talinn uppfylla öll skilyrði fyrir starfsleyfi þá getur tekið allt að 4 mánuði að ljúka afgreiðslu umsóknar. Málshraði er því mislangur milli mála og er eðli málsins samkvæmt lengri þegar afla þarf umfangsmikilla gagna og fá umsögn um nám umsækjanda.
    Á grundvelli framangreindrar umfjöllunar um málsmeðferð og málshraða við afgreiðslu umsókna um starfsleyfi hjá embætti landlæknis þykir ekki vera tilefni til að gera ráðstafanir til að stytta málshraða og vera innan þess ramma sem lög nr. 26/2010, tilskipun 2005/36/EB og reglugerð nr. 510/2020 setja.