Ferill 696. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1444  —  696. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Evu Sjöfn Helgadóttur um notkun geðlyfja.


     1.      Hversu margir einstaklingar sem lögheimili eiga hér á landi nota geðlyf, bæði ávanabindandi og geðlyf sem ekki eru ávanabindandi? Óskað er upplýsingum um sl. 10 ár, skipt eftir lyfjaflokkum (þunglyndislyfjum, kvíðalyfjum, svefnlyfjum, og örvandi lyfjum), kyni, aldri og landshluta.
    Í fylgiskjölum má finna upplýsingar um fjölda einstaklinga sem hafa fengið afgreidd lyf í umbeðnum lyfjaflokkum árin 2012–2021. Í fskj. I er heildarfjöldi notenda og fjöldi greint eftir kyni, í fskj. II er fjöldi notenda greint eftir aldursflokkum og í fskj. III er heildarfjöldi greint eftir heilbrigðisumdæmum.
    Athuga ber að til svefnlyfja (ATC-flokkur N05C) telst melatónín sem er frábrugðið öðrum svefnlyfjum að því leyti að það er ekki ávanabindandi.
    Allar tölur eru gefnar upp í fjölda notenda á hverja 1.000 íbúa í undirliggjandi þýði. Dæmi:
          Árið 2012 fengu 85,2 af hverjum 1.000 körlum afgreidd lyf í ATC-flokki N06A en árið 2021 fengu 114,1 af hverjum 1.000 körlum þunglyndislyf.
          Árið 2021 fengu 78,7 af hverjum 1.000 börnum á aldrinum 0–17 ára afgreidd lyf í ATC-flokki N06BA en árið 2012 fengu 35,9 af hverjum 1.000 börnum örvandi lyf.
          Árið 2021 fengu 65,2 af hverjum 1.000 einstaklingum á Norðurlandi afgreidd róandi og kvíðastillandi lyf (N05BA) á móti 50,7 af hverjum 1.000 einstaklingum á Suðurnesjum.

     2.      Hversu lengi hafa viðkomandi einstaklingar notað slík lyf að meðaltali? Óskað er eftir sundurliðun eftir lyfjaflokkum, kyni, aldri og landshluta.

    Lyfjagagnagrunnur hjá Embætti landlæknis safnar ekki þessari breytu sérstaklega. Farin er því sú leið að reikna meðalfjölda skilgreindra dagskammta á hvern notanda á ári fyrir tiltekinn lyfjaflokk. Til skýringar þá er skilgreindur dagskammtur lyfs, DDD (e. Defined Daily Dose), ætlaður meðaltals daglegur viðhaldsskammtur við helstu ábendingu hjá fullorðnum. Þannig má ætla að 1 DDD samsvari 1 degi í notkun af tilteknu lyfi. Hér eftir fara dæmi um túlkun á þeim upplýsingum sem finna má í fskj. IV (DDD á notanda – kyn), fskj. V (DDD á notanda – aldursflokkur) og fskj. VI (DDD á notanda – umdæmi).
    Árið 2012 var meðalfjöldi DDD á hvern notanda af róandi og kvíðastillandi lyfjum 114,1 en árið 2021 var meðalfjöldi DDD á hvern notanda 99,8. Að því gefnu að hver einstaklingur hafi fengið viðhaldsskammt (þ.e. 1 DDD á dag) má túlka þessa tölu sem svo að meðallengd einstaklinga á róandi og kvíðastillandi lyfjum árið 2012 hafi verið 114 dagar og um 100 dagar árið 2021.
    Undantekningin frá þessu er skilgreindur dagskammtur af örvandi lyfjum (ADHD-lyfjum) en í þeim tilfellum er 1 DDD skilgreindur út frá börnum. Fullorðnir fá því iðulega meira en 1 DDD á degi hverjum af örvandi lyfjum í ATC-flokki N06BA til viðhaldsmeðferðar.

Fylgiskjal I.


Fjöldi einstaklinga af hverjum 1.000 íbúum sem fékk afgreidd lyf í ATC-flokkum N05B, N05C, N06A og N06BA, 2012–2021.


www.althingi.is/altext/pdf/152/fylgiskjol/s1444-f_I.pdf



Fylgiskjal II.


Fjöldi einstaklinga af hverjum 1.000 íbúum sem fékk afgreidd lyf í ATC-flokkum N05B, N05C, N06A og N06BA, 2012–2021, greint eftir aldursflokkum.


www.althingi.is/altext/pdf/152/fylgiskjol/s1444-f_II.pdf



Fylgiskjal III.


Fjöldi einstaklinga af hverjum 1.000 íbúum sem fékk afgreidd lyf í ATC-flokkum N05B, N05C, N06A og N06BA, 2012–2021, greint eftir heilbrigðisumdæmum.


www.althingi.is/altext/pdf/152/fylgiskjol/s1444-f_III.pdf



Fylgiskjal IV.


DDD/heildarfjöldi notenda – kyn.


www.althingi.is/altext/pdf/152/fylgiskjol/s1444-f_IV.pdf



Fylgiskjal V.


DDD/heildarfjöldi notenda – aldursflokkur.


www.althingi.is/altext/pdf/152/fylgiskjol/s1444-f_V.pdf



Fylgiskjal VI.


DDD/heildarfjöldi notenda – umdæmi.


www.althingi.is/altext/pdf/152/fylgiskjol/s1444-f_VI.pdf