Ferill 751. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1464  —  751. mál.




Svar


matvælaráðherra við fyrirspurn frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni um gróðurlendi.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hversu mikið hefur gróðurlendi á Íslandi aukist eða minnkað að flatarmáli á síðastliðnum áratug?

    Þegar gróðurfélögum er skipað saman eftir innbyrðis skyldleika verða til stærri flokkunareiningar sem kallast gróðurlendi og eru þau um 20 talsins. Gróðurlendi eru flokkuð eftir ríkjandi og einkennandi tegundum eða tegundahópum en ekki nema að litlu leyti eftir landslagi og myndunarhætti þess. Þannig teljast öll gróðurfélög með ríkjandi mosa í þurrlendi til mosaþembu eða hélumosagróðurs. Gróðurfélög með ríkjandi grös teljast til graslendis jafnvel þó að um sé að ræða grös í valllendi, snjódæld eða á sjávarfitjum. Gróðurlendi innan votlendis eru flokkuð eftir stigvaxandi raka í deiglendi, mýrlendi, flóa og vatnagróður.
    Beinar mælingar á flatarmáli gróðurlendis á Íslandi hafa ekki farið fram en óbeinar mælingar, þar sem beitt er fjarkönnunaraðferðum, t.d. með því að skoða breytingar á grænkustuðli (Normalized Difference Vegetation Index, NDVI), eru til. Í grein eftir Raynolds o.fl. frá 2015 er í fyrsta sinn reynt að skoða heildarbreytingar yfir lengri tíma. Þar er komist að þeirri niðurstöðu að almennt hafi aukning orðið á grænkustuðli frá 1982–2010 og að Ísland skeri sig þar úr þegar borin eru saman svæði á svipuðum breiddargráðum. Jafnframt skera mismunandi landshlutar sig úr, þannig virðist grænkun vera mest á Vesturlandi. Höfundar rekja þessar breytingar til nokkurra samverkandi þátta, svo sem minni sauðfjárbeitar á afréttum og láglendi og hlýrra loftslags sem eykur vöxt gróðurs en leiðir einnig til hopunar jökla og þar af leiðandi landnáms gróðurs á nýjum svæðum. Einnig á landgræðsla og skógrækt hlut að máli. Þau svæði sem sýndu minni grósku en áður voru þar sem miklar breytingar urðu af mannavöldum, t.d. Hálslón Kárahnjúkavirkjunar en einnig af náttúrulegum ástæðum, svo sem vegna tveggja eldgosa, í Eyjafjallajökli 2010 og Grímsvötnum 2011.
    Haraldur Ólafsson og Iman Rousta birtu síðan grein árið 2021 þar sem er skoðuð áhrif veðurfars á grænkustuðul. Þeir komast að þeirri niðurstöðu að gróður sé í hámarki á tímabilinu frá miðjum júlí til loka ágúst og telja þá að um 65% landflatarmálsins með blaðgrænu (sé gróið að minnsta kosti að einhverju marki).
    Það er erfitt að setja töluleg mörk á flatarmál gróins lands umfram þetta því niðurstaðan fer eftir því hvar mörk eru dregin hvað varðar gróðurþekju. Almennt á Íslandi er t.d. miðað við að land sé gróið ef háplöntuþekja fer yfir 20%. Tæplega 1/ 3 af yfirborði Íslands er með minna en 20% gróðurþekju. Því til viðbótar er talsvert eða mikið rof á ríflega 1/ 3 landsins. En Haraldur og Iman nota aðrar viðmiðanir og fá þess vegna tiltölulega mikla þekju. Niðurstöður byggðar á fjarkönnunargögnum, sbr. þessar tvær, ráðast einnig að einhverju leyti af því hversu góð gögnin eru, og þar sem eldri gögn eru talsvert ónákvæmari en þau yngri, getur verið erfitt að bera þau saman.
    Almennt er talið að gróðurþekja á Íslandi sé á bilinu 40–60%, og þá fremur miðað við neðri mörk en þau efri. Jafnframt benda rannsóknir til þess að gróðurþekja sé að aukast, en nákvæmlega hversu mikið hún hefur aukist er ekki hægt að segja til um.
    Eina gróðurlendið sem hefur verið metið endurtekið frá því um 1972 eru íslensku birkiskógarnir, sem fóru að auka útbreiðslu sína upp úr 1990.
    Skógræktin heldur utan um upplýsingar um skóga á Íslandi og hefur flatarmál skóga og birkikjarrs á Íslandi aukist um 12,8 kha (kílóhektarar = 1000 ha) milli áranna 2010 og 2020.
     a.      Ræktaður skógur hefur aukist um 7,1 kha; var 37,9 kha árið 2010 en 45,0 árið 2020.
     b.      Náttúrulegur birkiskógur hefur aukist um 3,5 kha; var 95,3 kha árið 2010 en 98,8 árið 2020.
     c.      Náttúrulegt birkikjarr hefur aukist um 2,0 kha; var 54,3 kha árið 2010 en 56,3 árið 2020.