Ferill 757. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1471  —  757. mál.




Svar


mennta- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Jóhanni Páli Jóhannssyni um aðfarargerðir.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Telur ráðherra aðfarargerðir sem framkvæmdar eru til að koma á umgengni, lögheimili og/eða forsjá á heilbrigðisstofnunum forsvaranlegar? Mun ráðherra beita sér fyrir því að þær eigi sér ekki stað í framtíðinni?

    Úrskurðir þar sem kveðið er á um að koma á umgengni, forsjá eða lögheimili með aðför eru kveðnir upp af dómstólum á grundvelli 45. og 50. gr. barnalaga, nr. 76/2003, og framkvæmdir af sýslumanni á grundvelli sömu laga.
    Mennta- og barnamálaráðuneyti mun ekki beita sér í einstaklingsmálum vegna úrskurða sem eru kveðnir upp af dómstólum og framkvæmdir af sýslumanni í samræmi við ákvæði barnalaga. Dómsmálaráðuneyti fer með mál sem varða barnalög skv. b-lið 20. tölul. 2. gr. forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 6/2022, og hefur mennta- og barnamálaráðuneyti hvorki gögn né aðrar forsendur til að leggja mat á hvort meðferð einstaklingsmála á grundvelli laganna er forsvaranleg.
    Af hálfu mennta- og barnamálaráðuneytis hefur verið unnið markvisst að því að auka samhæfingu í málaflokknum sem varða börn með farsæld barna og réttindi þeirra að leiðarljósi, sbr. lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021, og þingsályktun um Barnvænt Ísland – framkvæmd barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þar á meðal er samþætting verkefna sýslumanna og annarra sem veita þjónustu í þágu barna. Áfram verður unnið að því að stuðla að samþættri þjónustu við börn, þar á meðal þegar er ágreiningur um umgengni, lögheimili og/eða forsjá barnsins.