Ferill 737. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1476  —  737. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Ásthildi Lóu Þórsdóttur um skilyrði fyrir gerð greiðsluáætlunar um skatta og opinber gjöld.


     1.      Telur ráðherra að sú framkvæmd Skattsins að setja launatekjur á Íslandi sem skilyrði fyrir því að einstaklingar sem skulda skatta og opinber gjöld geti fengið gerða greiðsluáætlun samkvæmt 12. gr. laga um innheimtu opinberra skatta og gjalda, nr. 150/2019, sem gerir þeim ókleift að uppfylla skilyrði 16. gr. sömu laga fyrir afskrift krafna vegna þing- og sveitarsjóðsgjalda sem eru eldri en tíu ára, eigi sér stoð í þeim lögum eða að hún samræmist tilgangi og markmiðum þeirra?
    Helsta markmiðið með setningu laga um innheimtu opinberra skatta og gjalda, nr. 150/2019, var að tryggja sem best réttaröryggi gjaldenda gagnvart ríkissjóði þegar kemur að innheimtunni og lögfesta gildandi framkvæmd ásamt því að tryggja gjaldendum aukið jafnræði.
    Fyrir gildistöku laga nr. 150/2019 voru engar lögfestar reglur um greiðsluáætlanir utan reglu um samningsgerð í reglugerð um launaafdrátt, nr. 124/2001. Með greiðsluáætlun er gjaldanda veittur greiðslufrestur með því að dreifa greiðslum og fresta þannig innheimtuaðgerðum á meðan gjaldandi stendur við greiðslur samkvæmt greiðsluáætlun. Hagsmunum ríkissjóðs er talið þjónað með viðtöku greiðsluáætlana þar sem gjaldandi viðurkennir skuldina með undirritun sinni og rýfur fyrningu hennar. Þar með eykst sá tími sem krafan nýtur lögverndar og unnt er að innheimta hana en almennur fyrningarfrestur skattkrafna er fjögur ár samkvæmt lögum um fyrningu kröfuréttinda, nr. 150/2007. Það rýfur jafnframt fyrningu krafna ef gjaldandi greiðir inn á skuld eða ef fjárnám er gert. Hins vegar gildir öðru máli um skuldajöfnun skv. 9. gr. laganna og launaafdrátt skv. 11. gr. laganna, þar sem hvorugt rýfur fyrningu.
    Gjaldandi getur nýtt úrræðið til að gera greiðsluáætlun á öllum stigum innheimtu, nema þegar mál hans er komið í fjárnámsferli. Ekki er skilyrði fyrir gerð greiðsluáætlunar á grundvelli 12. gr. laganna að viðkomandi þiggi laun til þess að greiðsluáætlun sé gerð og samþykkt en hins vegar er algengt að gjaldandi geri greiðsluáætlun til að lækka launaafdrátt sem gerður hefur verið á grundvelli 11. gr. laganna.
    Greiðsluáætlanir eru ekki samningar um lækkun eða niðurfellingu krafna á hendur gjaldendum heldur eru þær áætlanir um hvernig vanskilakrafa skuli greidd. Ríkisskattstjóri setur verklagsreglur um nánari skilyrði fyrir gerð greiðsluáætlana.
    Ef gjaldandi er búsettur á EES-svæðinu og er með laun frá Íslandi er gerð greiðsluáætlun við hann hér á landi. Sama á við ef viðkomandi nýtur bótagreiðslna hérlendis eða fær greiddan lífeyri héðan. Ef krafan er komin í innheimtu erlendis á grundvelli aðstoðarsamnings gilda þarlendar reglur um innheimtuna, um lækkun á launaafdrætti og hvort yfirleitt sé hægt að innheimta erlendar kröfur (frá Íslandi) með þeim hætti.
    Þá er að finna nýmæli í 16. gr. laganna sem varðar heimild ríkisskattstjóra til að afskrifa eldri kröfur vegna þing- og sveitarsjóðsgjalda einstaklinga að ákveðnum skilyrðum uppfylltum þegar ljóst þykir að gjaldandi geti ekki greitt höfuðstól ásamt áföllnum dráttarvöxtum. Samkvæmt orðanna hljóðan er um að ræða heimildarákvæði sem skýra ber þröngt þar sem meginreglan er að gildar kröfur eru ekki afskrifaðar. Þessi heimild kæmi þannig til greina í undantekningartilvikum að uppfylltum skilyrðum ákvæðisins, þar á meðal að kröfur séu eldri en tíu ára gamlar og greiðsluáætlun sé þegar í gildi.
    Í lögskýringargögnum kemur skýrt fram af hverju einungis er hægt að fá afskrifaðar kröfur á grundvelli 16. gr. laganna ef í gildi er greiðsluáætlun um lækkun launaafdráttar. Í mörgum tilvikum hefur launaafdráttur á grundvelli greiðsluáætlunar staðið yfir til margra ára og ljóst að gjaldandi muni ekki ná að greiða kröfurnar að fullu heldur muni þær halda áfram að safna vöxtum og skuldum er viðhaldið. Þá eru kröfurnar í raun taldar óinnheimtanlegar og gefa skakka mynd af mögulegum greiðslum í ríkissjóð.
    Ákvæði 16. gr. laganna er því sett með framangreint sjónarmið í huga en ekki vegna þeirra sem eru með annars konar framfærslu en laun fyrir vinnuframlag, svo sem bætur, enda ljóst að í þeim tilvikum á launaafdráttur ekki við og er ekki heimill. Verði vanskil í þing- og sveitarsjóðsgjöldum og launaafdráttur er ekki tækur eru önnur innheimtuúrræði reynd til að rjúfa fyrningu og fá kröfurnar greiddar en þeim er ekki viðhaldið í sama mæli og launagreiðendakröfum. Í þeim tilvikum sem gjaldandi fær greiddar bætur eða ellilífeyri er eftir sem áður mögulegt að fá samþykkta greiðsluáætlun á grundvelli 12. gr.
    Innheimtumaður ríkissjóðs krefur ekki erlend ríki um að innheimta kröfur með launaafdrætti á grundvelli 11. gr. laganna enda hefur innheimtumaður ríkissjóðs aðeins lögsögu á Íslandi til að gera kröfu um launaafdrátt vegna launagreiðslna sem fara fram á eða frá Íslandi. Um innheimtu erlendis á grundvelli aðstoðarsamninga um skattinnheimtu gilda reglur þess ríkis sem fær beiðni um innheimtu þegar skattkröfur eru komnar í vanskil. Launaafdrátturinn er þannig takmarkaður við landamærin í því landi sem launagreiðandinn er og telst það vera í fullu samræmi við frjálst flæði vinnuafls og fjármuna. Af því leiðir að ekki er hægt að gera greiðsluáætlun um lækkun á launaafdrætti erlendra tekna á Íslandi.

     2.      Telur ráðherra umrædda framkvæmd samræmast meginreglum EES-samningsins um frjálsa för vinnuafls og samræmingu á sameiginlega markaðnum?
    Ráðherra telur framkvæmd laganna um innheimtu opinberra skatta og gjalda, nr. 150/2019, standast skoðun hvað varðar EES-samninginn. Í gildi eru samstarfssamningar um innheimtu í skattamálum sem standast jafnframt ákvæði EES-samningsins um frjálsa för launafólks og sjálfstætt starfandi einstaklinga, sbr. ákvæði 28. gr. EES-samningsins. Þannig er fólki frjálst að flytja til annars EES-ríkis og hefur það ekki áhrif á gildi greiðsluáætlunar eða gerð hennar á grundvelli 12. gr. laga um innheimtu opinberra skatta og gjalda, nr. 150/2019. Sömu skilyrði gilda eftir sem áður, sem og um afskriftir á grundvelli 16. gr. laganna séu laun greidd frá Íslandi.

     3.      Telur ráðherra koma til greina að breyta lögum og reglum eða hlutast til um breytta framkvæmd skattyfirvalda svo að Íslendingar sem búsettir eru erlendis geti leitað afskrifta krafna vegna þing- og sveitarsjóðsgjalda sem eru eldri en tíu ára?
    Að svo stöddu er engin þörf talin vera á því að leggja til breytingar á lögum eða reglum á grundvelli laga um innheimtu opinberra skatta og gjalda, nr. 150/2019. Íslendingum sem búsettir eru erlendis er eins og áður segir ekki mismunað umfram Íslendinga sem búsettir eru hérlendis um að leita afskrifta krafna vegna þing- og sveitarsjóðsgjalda sem eru eldri en tíu ára á grundvelli 16. gr. laganna séu laun greidd frá Íslandi.