Ferill 358. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1482  —  358. mál.




Svar


umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Jóhanni Páli Jóhannssyni um aðgerðir til að fækka bílum.


     1.      Hvaða aðgerðir hyggst ríkisstjórnin ráðast í til að draga úr bílaumferð og sporna gegn fjölgun bíla á kjörtímabilinu?
     2.      Hvernig hyggst ráðherra beita sér fyrir auknu frelsi fólks til að velja annan ferðamáta en einkabíl?
    Í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum má finna þrjár aðgerðir sem styðja við breyttar ferðavenjur. Snúa þær að uppbyggingu innviða og ívilnana fyrir virkan ferðamáta auk aðgerða um eflingu almenningssamgangna. Vegagerðin tekur þátt í fjármögnun hjólastíga við stofnbrautir vegagerðarinnar.
    Árið 2020 voru gerðar lagabreytingar sem fólu í sér að virðisaukaskattur var felldur niður af öllum reiðhjólum, rafmagnsreiðhjólum og rafmagnshlaupahjólum. Um er að ræða allt að 96.000 kr. niðurfellingu virðisaukaskatts af rafmagnsreiðhjólum og allt að 48.000 kr. niðurfellingu af reiðhjólum og rafmagnshlaupahjólum. Yfirlit yfir heildarniðurfellingu og fjölda hjóla undanfarin tvö ár er að finna í meðfylgjandi töflu.

Tafla 1.
Fjárhæð á niðurfellingu VSK (millj. kr.) 2020 2021
Reiðhjól og aðrar tegundir 385 286
Rafmagnsreiðhjól 271 312
Rafknúin létt bifhjól 12 3
Rafmagnsbifhjól 8 11
Samtals 676 611
Fjöldi (stk.) 2020 2021
Reiðhjól og aðrar tegundir 35.144 21.141
Rafmagnsreiðhjól 8.616 6.505
Rafknúin létt bifhjól 320 89
Rafmagnsbifhjól 83 29
Samtals 44.163 27.764

    Stjórnvöld hafa stutt fjölbreytt verkefni sem snúa að breyttum ferðavenjum með úthlutunum úr loftslagssjóði. Má þar nefna Korterið, sem er applausn sem auðveldar fólki að meta ferðatíma þegar gengið er eða ferðast á hjóli, og Strætóskólann, þar sem grunnskólabörnum er kennt að nýta sér almenningssamgöngur.

    Allt frá árinu 2014 hafa fyrirtæki og stofnanir haft heimild til að gera samgöngusamninga við starfsfólk. Slíkir samningar fela í sér að starfsfólk fær ákveðna skattfrjálsa greiðslu mánaðarlega gegn skuldbindingu um að viðkomandi nýti virkan ferðamáta til og frá vinnu.
    Ríkið er aðili að verkefninu Betri samgöngur sem snýr m.a. að bættum almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu.
    Stór hluti nauðsynlegra aðgerða sem snúa að breyttum ferðavenjum er á borði sveitarfélaga í tengslum við skipulagsmál, uppbyggingu göngu- og hjólreiðastíga og nærþjónustu. Sem dæmi um slíkt má nefna hvort sveitarfélögin bjóði íbúum fullnægjandi þjónustu í göngufæri við heimili, t.d. leikskólapláss.
    Einnig þurfa fyrirtæki og stofnanir að huga að aðstöðumálum fyrir hjólreiðar starfsmanna og viðskiptavina.
    Breyttar ferðavenjur snúast ekki einungis um bíllausan lífsstíl heldur ekki síður um möguleika á bílminni lífsstíl. Vissulega næst mestur árangur ef einhverjir losa sig alveg við bílinn en heildarárangur getur orðið miklu meiri ef flestir geta notað bílinn minna. Þar geta almenningssamgöngur og hjólreiðar spilað stórt hlutverk. Breyttar ferðavenjulausnir eru þó miklu stærra mál sem þarf að skoða í stærra samhengi. Þar má benda á mörg störf sem gefa tækifæri til heimavinnu, á aukna möguleika sem bjóðast nú til að fá heimsendingu á vörum, á minna skutl, meiri samakstur o.fl. Allir þessir möguleikar geta fækkað eknum bílakílómetrum með tilheyrandi umhverfis- og efnahagsávinningi.
    Á kjörtímabilinu verður áfram unnið að fjölbreyttum verkefnum til að fjölga valkostum fólks að því er snertir fjölbreyttan ferðamáta. Sem dæmi má nefna að mikil og hröð þróun er á þessu sviði vegna tæknibreytinga og nærtækt að nefna að brotið var blað í íslenskri flugsögu í ágúst 2022 þegar fyrsta farþegaflug í rafmagnsflugvél fór fram. Gera má ráð fyrir að rafflugvélum eigi eftir að fjölga hratt hér á landi, að þær muni nýtast til að fjölga samgöngukostum innan lands og að þær geti styrkt almenningssamgöngur.

     3.      Í ljósi þess að ríkisstjórnin hefur ekki tekið ákvörðun um að hætta nýskráningu fólksbíla sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti fyrr en árið 2030, hvaða úrræði telur ráðherra að séu fær til að koma jarðefnaeldsneytisbílum úr umferð á tímabilinu 2030–2040 svo að ná megi markmiði ríkisstjórnarinnar um að Ísland verði orðið óháð jarðefnaeldsneyti árið 2040?
    Margt bendir til þess að hratt dragi úr nýskráningu fólksbíla sem ganga eingöngu fyrir jarðefnaeldsneyti. Samkvæmt gögnum um nýskráningu umhverfisvænna fólksbíla (þ.e. rafmagns- og tengiltvinnbíla) á vef Samgöngustofu má sjá að hlutdeild þeirra hefur farið vaxandi undanfarin ár. Um nokkurt skeið hefur hlutdeild umhverfisvænna fólksbíla verið yfir 50%, en á árinu 2021 fór hlutfallið í 58%. Þegar litið er til fyrstu tveggja mánaða þessa árs má sjá að hlutfallið hefur enn aukist og er rúm 70%. Þar af er hlutdeild rafmagnsbíla um 40% og tengiltvinnbíla um 30%. Telja verður að skattalegir hvatar stjórnvalda hafi skipt sköpum við þessa þróun í orkuskiptum fólksbílaflotans. Flest bendir því til þess að með heppilegri blöndu ívilnana og skatta megi fasa nýskráningu bensín- og dísilbíla frekar hratt út. Hagstæð þróun, bætt tækni og stefna erlendra bílaframleiðenda styður einnig vel við þá þróun.
    Stór hluti nýskráðra bíla á Íslandi er í eigu bílaleigna. Rata þeir bílar inn á eftirmarkað eftir nokkurra ára notkun. Því er lögð áhersla á að fjölga hreinorkubílum í ferðaþjónustu og styrkja innviði. Með þessu er stutt við það markmið að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti og sömuleiðis stutt við orkuskipti í ferðaþjónustu, svo sem með því að styðja við uppbyggingu hleðslunets um land allt og með grænni tengingu við Keflavíkurflugvöll. Orkusjóður hefur í mörg ár stutt við uppbyggingu hleðslunets og lagt áherslu á að styðja við staði þar sem skortur hefur verið á hraðhleðslustöðvum. Jafnframt hefur áhersla verið lögð á að styðja við gististaði og fjölsótta ferðamannastaði til að styðja við orkuskipti í ferðaþjónustu og stuðla að nýskráningu rafbíla í eigu ökutækjaleigna. Þá hefur ráðuneytið vakið athygli á því að frelsi ríkir um sölu raforku fyrir hleðslustöðvar. Þannig geta gististaðir, eða aðrir sem bjóða upp á aðstöðu ásamt hleðslu, innheimt gjald fyrir raforku sem fer á rafknúnar bifreiðar.
    Stöðugt er verið að skoða leiðir til að nota gjaldtöku eða beita ívilnunum til að stuðla að frekari fjölgun hreinorkubíla. Í því sambandi má nefna að starfshópur á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytis vinnur nú að skýrslu um skatta og skattaívilnanir á sviði umhverfismála. Skýrslunnar er að vænta á næstunni.
    Fylgst er grannt með allri þróun og nýrri tækni til að styðja við það markmið að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti. Mikil gerjun á sér stað í þessum málaflokki vegna aðstæðna í heiminum nú og vegna loftslagsmarkmiða ríkja sem stefna að því að verða sjálfbær um orku.