Ferill 11. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 11  —  11. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um samstöðuaðgerðir vegna verðbólgu og vaxtahækkana.


Flm.: Kristrún Frostadóttir, Logi Einarsson, Helga Vala Helgadóttir, Oddný G. Harðardóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Jóhann Páll Jóhannsson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að grípa til eftirfarandi aðgerða til að verja tekjulægri hópa, ungt fólk og barnafjölskyldur fyrir áhrifum verðbólgunnar, draga úr greiðslubyrði vegna húsnæðiskostnaðar og sporna við þenslu í hagkerfinu:
     1.      Sett verði leigubremsa að danskri fyrirmynd. Hækkun húsaleigu takmarkist við hóflega verðbólgu næstu tvö árin en undanskildir verði leigusalar sem sýnt geta fram á að kostnaður vegna húsnæðisins hafi hækkað umfram þá fjárhæð.
     2.      Vaxtabótakerfinu verði beitt til að styðja við lágtekju- og millitekjuheimili sem glíma við mikla greiðslubyrði vegna húsnæðislána, annaðhvort með varanlegum breytingum á skerðingarmörkum vaxtabótakerfisins með möguleika á fyrirframgreiðslu eða með eins skiptis tekjutengdri vaxtaniðurgreiðslu. Jafnframt verði leitað leiða til að koma til móts við fólk með íþyngjandi greiðslubyrði vegna tekjutengdra námslána og húsnæðislána.
     3.      Barnabótakerfið verði styrkt og skerðingarmörk hækkuð til að mæta hækkunum á nauðsynjavörum fyrir fjölskyldur.
     4.      Ráðist verði í aðgerðir á tekjuhlið ríkisfjármálanna til að sporna við þenslu, auka jöfnuð í samfélaginu og bæta afkomu ríkissjóðs. Skattmatsreglum verði breytt til að sporna við því að launatekjur séu ranglega taldar fram sem fjármagnstekjur, innleiddir verði tímabundnir hvalrekaskattar með viðbótarfjármagnstekjuskatti og sérstöku álagi á veiðigjöld þeirra útgerða sem halda á mestum fiskveiðikvóta.
    Ríkisstjórnin leggi fyrir Alþingi nauðsynleg lagafrumvörp til að hrinda fyrrgreindum aðgerðum í framkvæmd eigi síðar en 1. nóvember 2022.

Greinargerð.

    Við blasir erfiður vetur í efnahagsmálum, en Seðlabankinn spáir því að verðbólga mælist tæplega 11% undir lok árs. Seðlabankinn stendur í vaxtahækkunarferli og beitir almennum tækjum, sér í lagi stýrivöxtum, til að dempa verðbólgu í hagkerfinu. Þenslan í samfélaginu birtist hins vegar á mismunandi stöðum og vaxtahækkanir taka ekki mið af mismunandi fjárhagsstöðu fólks og fyrirtækja. Alþingi hefur lýðræðislegt umboð til að ráðast í aðgerðir til að dreifa byrðunum af auknu hagstjórnarlegu aðhaldi með sanngjörnum hætti um samfélagið. Verkefni stjórnmálanna í núverandi verðbólguumhverfi er tvíþætt; annars vegar að halda aftur af verðbólgu og hins vegar að verja viðkvæma hópa fyrir verðbólgunni. Þingsályktunartillaga þessi felur í sér aðgerðir á báðum sviðum. Til að freista þess að ná víðtækri samstöðu um málið á Alþingi eru lagðar til tímabundnar skattbreytingar og mælt fyrir um að tekjurnar af þeim verði eyrnamerktar stuðningsaðgerðum fyrir heimilin. Engu að síður er ljóst að styrkja þarf tekjuhlið ríkisins til langs tíma og þar mun Samfylkingin sem fyrr tala fyrir því að jöfnunarhlutverk skattkerfisins verði eflt.

Efnahagsástandið kallar á stuðningsaðgerðir.
    Ríkisstjórnir víða um heim grípa nú til aðgerða til að verja heimili fyrir verðhækkunum á nauðsynjavörum og almennu verðbólguskoti. Í Evrópu er orkuverð stór hluti af verðbólgunni og orkukostnaður heimila rýkur upp á sama tíma og orkufyrirtæki skila methagnaði. Aðgerðir stjórnvalda í Evrópu, til að mynda í Þýskalandi, ganga út á að niðurgreiða orkukostnað heimila og ráðast á móti í sértæka og tímabundna skattheimtu á fyrirtæki sem hafa mikið fjárhagslegt svigrúm þessi misserin vegna hækkandi orkuverðs. Þannig er farin sú leið að létta undir með heimilum en um leið vega upp á móti þenslu með því að fjármagna aðgerðirnar beint. Þjóðverjar hafa líka gripið til þess ráðs að stækka þann hóp sem á rétt á húsnæðisbótum, enda hefur húsnæðiskostnaður aukist víða á tímum heimsfaraldurs og ljóst að yfirvofandi vaxtahækkanir verða mörgum heimilum þungbærar.
    Á Íslandi birtist verðbólgan heimilunum í landinu fyrst og fremst í tengslum við húsnæðiskostnað og verði á nauðsynjavörum. Ljóst er að svigrúm heimila til að takast á við breytt efnahagslegt landslag er mjög mismunandi. Í könnun sem framkvæmd var dagana 28. júlí – 4. ágúst sl. kom fram að 77% heimila með tekjur undir 400 þús. kr. eiga engan afgang um hver mánaðamót, og 43% heimila með tekjur á bilinu 400–800 þús. kr. Þá er staða ungs fólks og fólks með lágar tekjur og millitekjur sem er tiltölulega nýbúið að kaupa sér íbúð víða erfið, en miklar íbúðaverðshækkanir á undanförnum árum og greitt aðgengi að lánsfé á lágum vöxtum hefur aukið skuldsetningu þessara hópa. 31,8% fasteignaviðskipta á árinu 2020 voru hálfu fyrstu kaupenda og var hlutfallið svipað í fyrra. Þetta er hópur sem býr við mest íþyngjandi húsnæðiskostnaðinn af þeim sem eiga fasteign, enda upp til hópa enn með fremur lágar tekjur og á fyrstu árum lánagreiðslna. Sumir komust fyrst og fremst í gegnum greiðslumat á forsendum lágra vaxta á tímum COVID, en há lán vegna mikilla hækkana á íbúðaverði á þessu tímabili gera það að verkum að miklar breytingar á vaxtastigi í landinu stórauka greiðslubyrði margra. Um leið situr fjöldi fólks fastur á leigumarkaði, horfir á verðbólguna éta upp ráðstöfunartekjur sínar og fasteignaverð hækka upp úr öllu valdi.

Ákvarðanir stjórnvalda juku ójöfnuð í samfélaginu.
    Þegar heimsfaraldurinn gekk yfir var það einbeitt stefna stjórnvalda að halda hagkerfinu gangandi með því að örva eignamarkaði gegnum bankakerfið. Á fyrstu mánuðum heimsfaraldursins árið 2020 hreyfði ríkisstjórn Íslands sig hægar og gerði minna fyrst um sinn til að verja fólk og fyrirtæki fyrir efnahagsáhrifum faraldursins með beinum ríkisfjármálaaðgerðum heldur en ríkisstjórnir nágrannalandanna. Þetta kallaði á enn kraftmeiri aðgerðir Seðlabankans til að örva eftirspurn og auka peningamagn í umferð heldur en ellegar hefði þurft. Miklar og hraðar vaxtalækkanir samhliða auknu svigrúmi fjármálastofnana til útlána, m.a. vegna lækkunar á eiginfjárkröfum bankanna, fólu í sér að skrúfað var frá gríðarlegu magni lánsfjármagns sem rataði nær alfarið inn á eignamarkaði, fyrst og fremst íbúðamarkað, í stað þess að styðja við undirliggjandi framleiðslugetu í þjóðfélaginu. Minna fjármagn rann til uppbyggingar húsnæðis á tímum heimsfaraldursins. Þannig stórjókst eftirspurn meðan framboð hreyfðist lítið og gríðarlegt ójafnvægi skapaðist á íbúðamarkaði.
    Niðurstaðan er sú að við komum út úr heimsfaraldri með gríðarlega miklar eignaverðshækkanir. Aðgengi að lánsfé og lágur fjármagnskostnaður örvaði einnig verðbréfamarkaði, en fjármagnstekjur jukust um 52% milli áranna 2020–2021, sem er mesta aukning frá árinu 2007. Fyrir vikið hækkuðu ráðstöfunartekjur mun meira hjá tekjuhæstu tíu prósentum Íslendinga í fyrra en hjá öðrum tekjutíundum. Fyrir liggur að efnahagsaðgerðir í COVID, sér í lagi á peningamálasviðinu, juku ójöfnuð í samfélaginu. Nú þarf að leita leiða til að draga úr þenslu í hagkerfinu, m.a. með því að þrengja að lánveitingum í kjölfar ómarkvissrar dreifingar fjármagns um hagkerfið á tímum heimsfaraldurs. Það fjármagn sem leitaði á eignamarkaði jók ekki framleiðslugetu þjóðarinnar, lítið situr eftir, ólíkt því sem hefði verið ef fjármagnið hefði leitað í fjárfestingu. Eftir stendur bóla á íbúðamarkaði og miklar hækkanir á fjármagnstekjum. Almennar vaxtahækkanir eiga að dempa þess oförvun, draga úr bólumyndun og halda aftur af eignamörkuðum. En vandinn er sá að hraðar vaxtahækkanir bitna hlutfallslega verst á þeim sem eru eignaminnstir, og eiga minnsta höfuðstólinn í landinu, á meðan eignamiklir hópar hafa mun meira borð fyrir báru til að takast á við aukinn fjármagnskostnað.

Ríkisstjórn og Alþingi þurfa að vinna á móti ójöfnuði vegna hagstjórnaraðgerða.
    Tillaga þessi miðar að því að rétta af bjögun sem skapast hefur í kjölfar heimsfaraldurs sem hefur svo stigmagnast vegna stríðsins í Úkraínu. Helsti drifkraftur verðbólgunnar hér á landi er húsnæðisliðurinn, en þetta er afleiðing af langtímastefnuleysi stjórnvalda í húsnæðismálum. Ómarkvissar efnahagsaðgerðir hafa svo stóraukið húsnæðisvandann. Tveir af æðstu ráðamönnum þjóðarinnar í fjármálum, seðlabankastjóri og fjármála- og efnahagsráðherra, báru út þann boðskap á tímum heimsfaraldurs að Ísland væri að stíga inn í nýtt lágvaxtatímabil sem myndi vara lengi. Fjármála- og efnahagsráðherra rak sína kosningabaráttu haustið 2021 meðal annars á þeim skilaboðum að hagstjórnin undir hans handleiðslu hefði leitt af sér lágt vaxtastig en ekki að um tímabundna kreppuvexti væri að ræða. Þau skilaboð voru send út til fyrstu kaupenda, ungs fólks og lágtekjufólks, sem loksins sá sér fært að komast inn á húsnæðismarkaðinn, að lágvaxtaumhverfið væri komið til að vera. Einstaklingar komust í gegnum greiðslumat á þessum forsendum en sama fólk sér nú fram á stóraukna greiðslubyrði vegna snarbreyttra aðstæðna í efnahagslífinu. Hætta getur skapast á að ungar fjölskyldur og tekjulægra fólk lendi í greiðsluvandræðum vegna þessarar þróunar og sjái fram á forsendubrest í sínu heimilisbókhaldi. Enda þótt vextir hafi verið sögulega lágir þegar lánin voru tekin, voru lánsfjárhæðir sögulega háar vegna oförvunar á eignamörkuðum. Eftir situr sú staðreynd að vextir eru nú orðnir hærri en þeir voru fyrir heimsfaraldur, en í millitíðinni gerði tímabundna vaxtalækkunin og aukið fjármagn sem veitt var með ómarkvissum hætti til bankanna það að verkum að vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu er nú 49,7% hærri en hún var í upphafi COVID og svipaðar hækkanir hafa mælst um allt land.
     Komandi kjarasamningar í núverandi efnahagsumhverfi setja enn meiri pressu á að stjórnvöld grípi til aðgerða til að dreifa högginu af viðsnúningi í hagstjórn. Varað hefur verið við því að miklar launahækkanir auki enn á verðþrýstinginn, en staðreyndin er sú að víða horfa heimili upp á aukna kostnaðarbyrði, hvort sem er vegna lána eða leiguverðs, sem étur upp nær allan launaaukann sem samið var um á síðustu árum. Ríkisstjórnin verður að taka með markvissum hætti á þeirri spennu sem upp er komin til að hindra frekari vítahring verðhækkana. Ábyrgð stjórnvalda er augljós, enda hefur ákveðinn forsendubrestur átt sér stað vegna falskra væntinga sem forystufólk ríkisstjórnarinnar hefur alið á. Farin var sú leið að hvetja fólk fyrst og fremst til aukinnar lántöku í stað þess að ráðast að rótum húsnæðisvandans með því að leggja meira fjármagn inn í uppbyggingu húsnæðis á viðráðanlegum kjörum og halda þannig aftur af verðhækkunum.

Aðgerðirnar sem lagðar eru til í þingsályktunartillögunni eru eftirfarandi:
1. Leigubremsa að danskri fyrirmynd.
    Í fyrsta lagi er lagt til að ríkisstjórninni verði falið að útbúa og leggja fyrir Alþingi lagafrumvarp um leigubremsu að danskri fyrirmynd. Hækkun húsaleigu takmarkist við hóflega verðbólgu næstu tvö árin en undanskildir verði leigusalar sem sýnt geta fram á að kostnaður vegna húsnæðisins hafi hækkað umfram þá fjárhæð vegna nauðsynlegs viðhalds. Lagt er til að úrræðið verði afturvirkt um þrjá mánuði. Alþýðusamband Íslands hefur m.a. talað fyrir úrræði af þessu tagi. Litið verði til viðmiða í Danmörku sem dæmi þegar bremsan er útfærð.
    Leigubremsan sem stjórnarmeirihlutinn í Danmörku hefur komið sér saman um að innleiða gildir jafnt um núverandi og tilvonandi leigusamninga og miðast við 4% á ári. Hafi leiga hækkað á síðustu þremur mánuðum mun viðkomandi leigusali þurfa að draga hana til baka. Undanþága verður þó veitt þeim leigusölum sem sýnt geta fram á að kostnaður vegna húsnæðis hafi hækkað umfram fjögur prósent.
    Í umfjöllun Alþýðusambandsins um málið kemur fram að áður en samningaviðræður hófust á danska þjóðþinginu hafi þingmenn Radikale Venstre og Venstre-flokksins lýst áhyggjum af því að leigubremsa gæti falið í sér eignaupptöku þar sem hún varðaði tekjur sem leigusalar hefðu reiknað með. Í því tilviki hefði ríkissjóður þurft að bæta viðkomandi skaðann. Danska dómsmálaráðuneytið komst þó að þeirri niðurstöðu að leigubremsan fæli ekki í sér ólögmæta eignaupptöku svo fremi sem tekið væri tillit til kostnaðar, svo sem vegna viðhalds, og veittar viðeigandi undanþágur.
    Hér er lagt til að farið verði að fyrirmynd danska þjóðþingsins og tekin upp leigubremsa næstu 18–24 mánuði til að halda aftur af tilefnislausum leiguverðshækkunum. Líklega væri ekki þörf á slíkum inngripum á eftirspurnarhliðinni ef hið opinbera hefði stutt markvisst við uppbyggingu óhagnaðardrifins húsnæðis á undanförnum árum og þannig skapað leigumarkaðnum styrkari kjölfestu. Staðan er þó enn sú að aðeins um 4–5% af íbúðum á Íslandi falla undir félagslegt húsnæði eða almenna íbúðakerfið, en hlutfallið var um 11% þegar verkamannabústaðakerfið var upp á sitt besta. Á Norðurlöndum er hlutfallið nær 20%. Á meðan enn stendur á stjórnvöldum að stuðla að hagkvæmu húsnæði og koma skikki á leigumarkaðinn er nauðsynlegt að verja fólk á leigumarkaði með þeim hætti sem hér er lagt til.
    Aðgerðir danskra stjórnvalda eru athyglisverðar í ljósi þess að þar er nú þegar mun hærra hlutfall íbúða sem falla undir félagslegt húsnæði og leiguverði því í raun stýrt. Umrædd leigubremsa er því til viðbótar við hið stóra félagslega húsnæðiskerfi sem Danir hafa byggt upp á síðustu áratugum.
    Kosturinn við úrræðið er að það tekur á báðum markmiðum þingsályktunartillögunnar: það verndar þann hóp sem býr við einna mest íþyngjandi húsnæðiskostnaðinn í landinu fyrir verðbólgunni að hluta, á sama tíma og það heldur aftur af mældri verðbólgu. Leiguverð er um 5% hluti af vísitölu neysluverðs, og myndi leigubremsa því halda aftur af hækkun þess liðar í verðbólgunni.

2. Millifærslukerfin styrkt til að mæta stöðu ungs fólks, fólks á lágum tekjum og barnafjölskyldna.
    Í öðru lagi er lagt til að vaxtabótakerfinu verði beitt með markvissum hætti til að styðja við lágtekju- og millitekjuheimili sem glíma við mikla greiðslubyrði vegna húsnæðislána. Hér eru ýmsar leiðir færar. Sú einfaldasta væri að hækka eignaskerðingarmörkin með hliðsjón af fasteignaverðshækkunum undanfarinna ára en þessi mörk hafa staðið óhreyfð síðan 2018.
    Í dag skerðast vaxtabætur við 5 millj. kr. í eigið fé (8 millj. kr. hjá hjónum) þar til rétturinn fellur niður við 8 millj. kr. (12,8 millj. kr. hjá hjónum). Þannig falla bæturnar niður við 24% eignarhlut í meðalíbúð í Reykjavík hjá pari, 90 m2 að stærð, en hjá einstaklingi við 16% eignarhlut. Í maí síðastliðnum vann fjármála- og efnahagsráðuneytið minnisblað að ósk fulltrúa Samfylkingarinnar í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis þar sem lagt var mat á áhrif þess að hækka eignarskerðingarmörk vaxtabótakerfisins um 25%. Samkvæmt mati ráðuneytisins, sem byggist á álagningarskrá Skattsins vegna tekjuársins 2020, myndu útgjöld vegna vaxtabóta hækka um 450 millj. kr. og yrðu mestu áhrifin hjá einhleypu fólki og einstæðum foreldrum sem hafa lágan tekjustofn og verða því ekki fyrir miklum skerðingum vegna tekna en hafa eignastofn sem er nálægt efri mörkum eignaskerðingarinnar. Ef farin yrði sú leið að hækka eignaskerðingarmörkin með þessum hætti yrði að huga sérstaklega að möguleikum heimila sem eru í mestri neyð til fyrirframgreiðslu af einhverju tagi.
    Hækkun markanna getur verið tímabundin og tekið mið af 18–24 mánaða tímabili líkt og í tilviki leigubremsunnar. Önnur leið sem mætti horfa til er að ráðast í sérstaka vaxtaniðurgreiðslu með svipuðum hætti og gert var við álagningu opinberra gjalda árin 2011 og 2012. Niðurgreiðslan nam 0,6% af skuldum vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota, var tekju- og eignatengd en gat hæst orðið 200.000 kr. hjá einhleypingi og 300.000 kr. hjá hjónum, sambúðarfólki og einstæðu foreldri hvort ár.

Húsnæðisstuðningur hefur færst frá þeim hópum sem nú standa frammi fyrir erfiðleikum.
    Miklar breytingar hafa orðið á vaxtabótakerfinu á undanförnum áratug. Líkt og Alþýðusamband Íslands hefur ítrekað fjallað um hefur húsnæðisstuðningur í gegnum árin flust frá vaxtabótakerfinu og yfir í úrræði á borð við skattaívilnun vegna ráðstöfunar séreignarsparnaðar inn á fasteignalán. Árið 2013 náðu vaxtabætur yfir 13% vaxtagjalda heimila að meðaltali, voru 9,1 milljarður, en voru árið 2020 aðeins um 3% af vaxtagjöldum og höfðu útgjöldin þá minnkað um 75%. Séreignarsparnaðarúrræði kom að hluta á móti skerðingu vaxtabótanna, en heilt yfir lækkaði beinn stuðningur til heimila með íbúðalán um 25% á tímabilinu 2013– 2020.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




    Í grunninn ættu stjórnvöld ekki að kappkosta að greiða niður vaxtakostnað heimila því slíkur stuðningur getur ýtt undir aukna skuldsetningu og felur í raun í sér niðurgreiðslu á gjöldum fjármálakerfisins. Til langs tíma ætti markmiðið að vera að færa húsnæðisstuðning í auknum mæli frá úrræðum sem hvetja til skuldsetningar og niðurgreiða fjármagnskostnað og yfir í stuðning við uppbyggingu hagkvæms húsnæðis. Á meðan lítið gerist hins vegar í þeim málefnum og ungt fólk og tekjulágir einstaklingar hafa fá úrræði önnur en að borga háa leigu eða skuldsetja sig mikið fyrir dýrri fasteign, verður að koma til móts við veruleika fólks eins og hann blasir við í dag.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Vaxtabótakerfið var í grunninn hannað með þeim hætti að tekjulágt fólk nýtur meiri vaxtabóta í hlutfalli við vaxtagjöld. Skattfrjáls ráðstöfun séreignarsparnaður tekur hins vegar ekki mið af tekjum þó að hámark sé á útgreiðslunni. Alþýðusamband Íslands hefur bent á að viðsnúningur í húsnæðisstuðningi undanfarin ár hefur orðið til þess að öll árin frá því að séreignarsparnaðarleiðin var tekin upp hafa tekjuhæstu 10% þeirra sem eru með íbúðalán notið um helmings stuðnings skattfrelsisins. Að sama skapi naut tekjuhæsta tíundin að jafnaði um 1–3% vaxtabóta þegar kerfið var með almennilega virkni. Vaxtabæturnar runnu á sínum tíma fyrst og fremst til tekjulægri og yngri hópa, þeir hópar sem eru í hvað viðkvæmustu stöðunni þessa dagana vegna aukinnar greiðslubyrði í tengslum við kostnaðarkreppuna.
    Útreikningar Alþýðusambandsins sýna að fyrir tímabilið 2014–2020 í heild sinni námu vaxtabætur alls 29 milljörðum, þar af fóru 23 milljarðar til tekjulægstu 70% einstaklinga. Fyrir sama tímabil nam skattaívilnun vegna skattfrjálsrar ráðstöfunar séreignar 33 milljörðum, þar af fóru 28 milljarðar til þeirra tekjuhæstu 30% einstaklinga. Hæstu vaxtabæturnar voru greiddar einstaklingum í þriðju til sjöundu tekjutíund og á aldrinum 25–39 ára. En séreignarúrræðið í tengslum við íbúðakaup hefur nýst best hjá einstaklingum í sjöundu til tíundu tekjutíund og fólki á aldrinum 35–59 ára.
    Stefna ríkisstjórnarinnar undanfarinn áratug hefur grafið markvisst undan vaxtabótakerfinu og árið 2020 var staðan sú að einungis um 11% þeirra sem voru með íbúðalán fengu vaxtabætur. Fjórðungur heimila með íbúðalán nýttu sér þá skattfrjálsa ráðstöfun séreignar.
Þessi staða þýðir að nú þegar áfallið skellur á ungum fjölskyldum og tekjulágum vegna aukins húsnæðiskostnaðar er öryggisnetið mjög takmarkað. Hér er því lagt til að færð verði til tekju- og eignaskerðingarmörk í vaxtabótakerfinu til að tryggja að stærri hópur ungs fólks og tekjulágra, fyrstu kaupenda með há lán, fái stuðning vegna kostnaðarkreppunnar.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Ungar fjölskyldur að lenda í þreföldu höggi.
    Samhliða eflingu vaxtabótakerfisins er lagt til að leitað verði leiða til að koma til móts við fólk með íþyngjandi greiðslubyrði vegna tekjutengdra námslána og húsnæðislána. Ljóst er að ráðstöfunartekjur fólks eftir að húsnæðiskostnaður hefur verið dreginn frá getur verið mjög mismunandi. Tveir einstaklingar geta verið með sömu tekjurnar og því þurft að greiða sömu prósentu í tekjutengingu námslána, en annar er á leigumarkaði eða jafnvel með hátt lán vegna kaupa á íbúð á undanförnum mánuðum þegar íbúðaverð var í hæstu hæðum, meðan annar er með lægri húsnæðiskostnað eftir að hafa keypt á hagstæðari tíma.
    Ungt fólk með börn á framfæri og námslán er sumt hvert að lenda í þreföldum skelli í kostnaðarkreppunni sem nú gengur yfir, í fyrsta lagi vegna vaxtahækkunar eða hækkunar leiguverðs, í öðru lagi af því að tekjutenging námslána hefur nýlega dottið inn eða er til staðar á sama tíma ásamt því að óverðtryggðir vextir á lánunum annaðhvort hækka eða verðtryggingin íþyngir höfuðstólnum, og í þriðja lagi vegna þess að nauðsynjavörur hafa hækkað verulega í verði.
    Hægt er að taka mið af húsnæðiskostnaði ungs fólks og fjölskyldna í núverandi dýrtíð þegar greiðslur af námslánum eru reiknaðar út. Mælt er með að ríkisstjórnin skoði leiðir til að mæta þessari stöðu, þó ekki nema tímabundið líkt og tilviki hinna úrræðanna sem hér eru nefnd, eða í 18–24 mánuði.
    Um tekjutenginguna er kveðið í 21. gr. laga um Menntasjóð námsmanna, nr. 60/2020, en þar segir í 6. mgr.: „Mánaðarleg tekjutengd afborgun er 0,3125% af tekjustofni lánþega. Fyrstu átta mánuði endurgreiðsluársins er miðað við tekjustofn lánþega tveimur árum á undan endurgreiðsluári, en síðustu fjóra mánuði endurgreiðsluársins er miðað við tekjustofn lánþega árið á undan endurgreiðsluári. Tekjutengd afborgun skal greidd mánaðarlega fyrsta dag hvers mánaðar. Frá tekjutengdri afborgun samkvæmt þessari málsgrein dregst föst afborgun skv. 5. mgr.“
    Dæmi um úrræði sem myndi mæta stöðu ungs fólks með námslán væri að setja bráðabirgðaákvæði sem tengdi tekjutenginguna við greiðslugetu vegna húsnæðiskostnaðar. Í þessu samhengi má rifja upp að í frumvarpi Illuga Gunnarssonar til laga um námslán og námsstyrki sem lagt var fram á 145. löggjafarþingi var lagt til að heimilt yrði að fresta allt að helmingi hverrar endurgreiðslu námslána í allt að 60 mánuði vegna fyrstu kaupa lántaka á íbúðarhúsnæði. Með sama hætti mætti horfa til þess að undanskilja einstaklinga frá tekjutengingu eða fresta hluta endurgreiðslu meðan húsnæðiskostnaður er sérstaklega íþyngjandi.

3. Stuðningur við barnafjölskyldur.
    Í þriðja lagi er lagt til að barnabótakerfið verði styrkt til að koma til mæta hækkunum á nauðsynjavörum fyrir fjölskyldur og skerðingarmörk hækkuð. Til langs tíma skiptir miklu að komið verði á fót sterkara barnabótakerfi á Íslandi að norrænni fyrirmynd. Rannsóknir hafa margsýnt að sterk almenn barnabótakerfi með viðbótarstuðningi við einstæða foreldra eru best til þess fallin að draga úr barnafátækt til langs tíma. Skarpar tekjutengingar og skerðingar sem bíta snemma geta aftur á móti skapað fátæktargildru fyrir fólk í lægri tekjuhópum. Frá árinu 1990 hefur stuðningur með hverju barni minnkað um meira en helming í hlutfalli við landsframleiðslu á Íslandi. Þessari þróun verður að snúa við á næstu árum með hækkun barnabóta og hækkun skerðingarmarkanna.

4. Vega þarf á móti þenslu með aðgerðum á tekjuhliðinni.
    Í fjórða lagi er lagt til að ráðist verði í aðgerðir á tekjuhlið ríkisfjármálanna til að sporna við þenslu, auka jöfnuð í samfélaginu og bæta afkomu ríkissjóðs. Skattmatsreglum verði breytt til að sporna við því að launatekjur séu ranglega taldar fram sem fjármagnstekjur, innleiddur verði hvalrekaskattur sem felst í tímabundnum viðbótarfjármagnstekjuskatti og lagt verði tímabundið sérstakt álag á veiðigjöld þeirra útgerða sem halda á mestum fiskveiðikvóta.
    Veikleikarnir í undirliggjandi afkomu ríkissjóðs hafa verið ljósir frá því löngu áður en heimsfaraldur kórónuveiru skall á eins og fjármálaráð hefur margsinnis bent á. Mikilvægt er að snúa þessari þróun við og styrkja tekjuhlið ríkisins svo sjálfbærni opinberra fjármála sé tryggð til langs tíma. Þar ætti að horfa sérstaklega til skattlagningar fjármagns og eigna auk sanngjarnra auðlindagjalda og styrkingar á tekjustofnum sveitarfélaga. Þetta er vandamál sem hefur undið upp á sig á undanförnum árum vegna aðgerða stjórnvalda sem hafa grafið undan tekjustoðum ríkissjóðs. Taka þarf á vandanum með breytingum á skattkerfinu til langs tíma, en hér er litið sérstaklega til tímabundinna aðgerða gegn þenslu sem taka á því ójafnvægi sem skapaðist á tíma COVID og í kjölfar stríðsins í Úkraínu.
    Í þingsályktunartillögu þessari er lagt til að ráðist verði tafarlaust í afmarkaðar skattbreytingar til að auka tekjur ríkissjóðs og standa undir þeim stuðningsaðgerðum sem boðaðar eru í tillögunni. Í fyrsta lagi er lagt til að skattmatsreglur verði endurskoðaðar með það fyrir augum að girða fyrir að atvinnutekjur séu taldar ranglega fram sem fjármagnstekjur. Hagdeild ASÍ hefur áætlað að með því að takmarka möguleika til slíks tekjutilflutnings megi auka tekjur ríkissjóð um þrjá til átta milljarða á ári og að sú skattbyrði myndi einvörðungu leggjast á tekjuhæstu 10% skattgreiðenda. Þetta er varanleg aðgerð sem er auðveld í útfærslu en líta má til Norðurlandanna í því samhengi. Ekki er um skattbreytingu að ræða heldur verið að komast hjá skattundanskotum.
    Þá er lagt til að lagður verði á hvalrekaskattur af tvennum toga. Annars vegar að viðbótarfjármagnstekjuskattur verði settur á til að bregðast við ójafnri dreifingu aukinna ráðstöfunartekna eftir að vextir voru lækkaðir og kynt var undir bólumyndun á eignamörkuðum í heimsfaraldrinum. Í ljósi þess hvernig frítekjumörk vegna fjármagnstekna hafa þróast á undanförnum árum mun slík hækkun einvörðungu lenda á allra tekjuhæstu hópunum. Hins vegar er lagt til að veiðigjöld þeirra útgerða sem halda á mestum fiskveiðikvóta verði hækkuð með tímabundnu stærðarálagi. Fjármagnseigendur hafa hagnast á undanförnum árum vegna aðgerða stjórnvalda og útflutningsgreinar auk þess hagnast vegna breyttra viðskiptakjara í tengslum við stríðið í Úkraínu. Þannig hefur verð á ferskum fiski í Evrópu til að mynda hækkað mikið og stutt við verðmæti sjávarafurða sem og tekjur og hagnaður Landsvirkjunar vegna hækkunar á álverði. Á sama tíma hefur hluti heimilanna í landinu liðið fyrir erlenda verðbólgu vegna stríðsins.
    Samtals gætu þessar skattbreytingar aukið tekjur ríkissjóðs um 10 til 12 milljarða á næsta ári, standa undir þeim stuðningi við heimilin sem boðaður er og gott betur. Þannig eru heildaráhrif þingsályktunartillögunnar afkomubætandi fyrir ríkissjóð og til þess fallin að draga úr þenslu og auka aðhaldsstig ríkisfjármálanna.
    Nú reynir á samstöðu í samfélaginu og að ólíkum áhrifum þessarar kreppu sé dreift með sanngjörnum hætti. Samstöðuaðgerðir eru lykillinn að því að íslensku samfélagi farnist vel á næstu mánuðum.