Ferill 35. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 35 — 35. mál.
Frumvarp til laga
um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940 (hækkun kynferðislegs lágmarksaldurs).
Flm.: Gísli Rafn Ólafsson, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Halldóra Mogensen, Valgerður Árnadóttir, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.
1. gr.
a. Í stað orðanna „1. mgr. 200. gr. og 1. mgr. 201. gr.“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: og 1. mgr. 202. gr.
b. 2. málsl. 2. mgr. fellur brott.
2. gr.
3. gr.
4. gr.
a. Í stað orðanna „15 ára“ í 1. og 4. mgr. kemur: 18 ára.
b. 3. mgr. orðast svo:
Það skal virða til refsiþyngingar skv. 1. og 2. mgr. ef barnið er barn eða annar niðji geranda, eða ef barnið er kjörbarn hans, stjúpbarn, fósturbarn, sambúðarbarn eða barn sem er tengt honum þannig fjölskylduböndum í beinan legg, eða barn sem honum hefur verið trúað fyrir til kennslu eða uppeldis. Það skal einnig virða til refsiþyngingar ef gerandi hefur með blekkingum, gjöfum eða á annan hátt tælt barnið til samræðis eða annarra kynferðismaka. Virða skal til refsiþyngingar því nánari tengsl sem eru á milli geranda og barns.
c. 5. mgr. fellur brott.
5. gr.
6. gr.
Greinargerð.
Með lögum nr. 61/2007 var kynferðislegur lágmarksaldur hækkaður úr 14 árum í 15 ár. Í greinargerð frumvarps til þeirra laga kemur fram að þar sem íslensk börn hefji að stunda kynlíf í kringum 15 ára aldur sé varhugavert að hækka aldurinn enn frekar, til að tryggja að einstaklingar sem eiga í kynferðislegu sambandi við aðra einstaklinga á svipuðum aldri þurfi ekki að sæta refsingu vegna þess, einkum með tilliti til þess ef foreldrum annars þeirra er illa við ráðahaginn. Það virðist hins vegar ekki hafa verið tekið tillit til þess í þessu samhengi að sleginn er ákveðinn varnagli í 2. málsl. 1. mgr. 202. gr., en þar má finna ákvæði sem er sambærilegt öðrum ákvæðum erlendis sem hafa verið nefnd „Rómeó-og-Júlíu“-ákvæði. Í ákvæðinu felst að samræði milli einstaklinga undir 15 ára aldri séu ekki refsiverð þegar gerandi og þolandi séu á svipuðum aldri. Miðað við þau rök sem notuð voru í greinargerð frumvarps til laga nr. 61/2007 mætti ætla að það hefði eftir sem áður getað orðið viðvarandi vandamál að foreldrar barna yngri en 15 ára kærðu kynferðislegt samneyti þeirra við eldri einstakling, þrátt fyrir að hann kynni að vera aðeins fáeinum árum eldri. Hins vegar hafa engir slíkir dómar fallið hérlendis, þrátt fyrir að rannsóknir hafi sýnt að hluti unglinga yngri en 15 ára, eða allt að 20%, byrji að stunda kynlíf fyrr. 1
Í núgildandi lögum virðist gert ráð fyrir því að börn 15 ára og eldri hafi til þroska og vitsmuni til að hafa sjálfsákvörðunarrétt til að stunda kynferðismök með fullorðnum einstaklingum, að því gefnu að þau tengsl séu ekki á milli þeirra líkt og getið er í 201. og 202. gr. Hins vegar er ekkert aldursviðmið, og því er löggjafinn hér að leggja blessun sína yfir samband með til dæmis annars vegar 15 ára barni og 59 ára gömlum einstaklingi, líkt og reynt hefur á fyrir íslenskum dómstólum. 2 Fyrir hendi er ákvæði 1. mgr. 201. gr. og 3. mgr. 202. gr., eða svokallað tælingarákvæði, sem veita eiga börnum á aldrinum 15–17 ára ákveðna vernd að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Varðandi 1. mgr. 201. gr. hefur reynst óljóst hvað fellur nákvæmlega undir trúnaðarsamband milli fullorðins einstaklings og barns, með þeim afleiðingum að meintur gerandi var sýknaður. 3 Varðandi 3. mgr. 202. gr. er börnum á aldrinum 15–17 ára veitt vernd upp að vissu marki gagnvart kynferðislegu samneyti við fullorðna einstaklinga, að því gefnu að gerandinn hafi beitt blekkingum, gjöfum, eða á annan hátt tælt barn til samræðis eða annarra kynferðismaka. Það hefur hins vegar reynst þrautin þyngri að sannreyna slíkt fyrir dómstólum. Dómstólar hafa til dæmis virt það til sýknu ef brotaþoli hafði samband við geranda að fyrra bragði. Í þeim tilvikum þar sem hefur verið sakfellt hefur þurft mikið til, svo sem gríðarlegan aðstöðu- eða þroskamun, langvarandi tímabil og þess háttar. Bendir það til þess að skilyrðin séu of þröng.
Í barnalögum, nr. 76/2003, og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem lögfestur var með lögum nr. 19/2013 eru börn skilgreind sem einstaklingar undir 18 ára aldri og að rétt þyki að veita þeim ríkari vernd en fullorðnum með tilliti til þroska þeirra, vitsmuna og aðstöðu. Síðan lögin voru síðast endurskoðuð eru liðin 15 ár. Á þeim tíma hefur orðið mikil vitundarvakning í samfélaginu þegar kemur að kynferðisbrotum og kynferðislegri misnotkun. Ýmis mál hafa verið í deiglunni undanfarið sem var jafnvel ekki vitneskja um að ættu sér stað árið 2007. Til dæmis þau tilfelli þegar fullorðinn einstaklingur byggir upp trúnaðar- og tilfinningasamband við barn svo hann eigi auðveldara með að hafa aðgang að því til að misnota það kynferðislega (e. grooming). Hugtakið er víðtækara en tælingarákvæði íslensku laganna í 3. mgr. 202. gr. og mun víðtækara en það trúnaðarsamband sem kveðið er á um í 1. mgr. 201. gr. Það er eftir sem áður einnig alvarlegt, og töluvert algengara en flest gera sér grein fyrir. Oft er sambandið með þeim hætti að fullorðni einstaklingurinn byggir upp þetta trúnaðartraust og samband við barn meðan það er yngra en 18 ára, en sambandið er síðar opinberað þegar barnið verður lögráða. Í ljósi þess hve auðginnt börn geta verið, þar sem þau búa ekki yfir reynsluheimi fullorðinna, er full ástæða til að taka þessi mál fastari tökum. Í dag er nánast algert lagalegt tómarúm þegar kemur að þessum tilvikum. Með því að hækka kynferðislegan lágmarksaldur í 18 ár má grípa þessi tilvik og tryggja börnum á aldrinum 15–17 ára þá vernd sem löggjafanum ber að gera. Í frumvarpi þessu er ekki lagt til að fella brott hið svokallaða „Rómeó-og-Júlíu“ ákvæði í 2. málsl. 1. mgr. 202. gr., sem tryggir að einstaklingar undir 18 ára sem eiga í samþykku kynferðissambandi á jafnræðisgrundvelli verði ekki sóttir til saka.
Hækkun kynferðislegs lágmarksaldurs hefur það í för með sér að þau tilvik sem um ræðir í 201. og 202. gr. myndu þar með falla þar undir. Með frumvarpi þessu er markmiðið ekki að draga úr alvarleika þeirra brota og er því lagt til að þau tilvik verði virt til refsiþyngingar, því þyngri eftir því sem samband geranda og brotaþola er nánara.
Ákvæði 204. gr. skilur eftir opnar dyr sem getur reynst erfitt að girða fyrir þegar kemur að þungri sönnunarbyrði þess að sýna fram á að ákærði hafi vitað aldur brotaþola. Í ljósi viðkvæmrar stöðu barna er því talin ástæða til að fella brott ákvæði 204. gr. þar sem barnið ætti ávallt að njóta vafans og ábyrgðin sett á herðar þess fullorðna. 4
Það er von flutningsmanna þessa frumvarps að með því að einfalda kynferðisbrotakaflann með þessum hætti verði hægt að girða fyrir þær glufur sem núgildandi löggjöf býður upp á fyrir gerendur, með hagsmuni og vernd barna að leiðarljósi.
Um einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. og 2. gr.
Um 3. gr.
Um 4. gr.
Ákvæði 200. og 201. gr. varðandi tengsl geranda og þolanda eru færð í nýja 3. mgr. 202. gr. sem refsiþyngingarástæða, en markmið þessa frumvarps er ekki að meðferð slíkra mála breytist. Áður var markaður mismunandi refsirammi eftir því hve náin tengsl geranda og þolanda voru. Með frumvarpi þessu er markmiðið að það verði virt til refsiþyngingar því nánari tengsl sem eru á milli geranda og þolanda. Dómstólum er veitt töluvert svigrúm til þess að ákvarða refsingu, eða frá einu ári til allt að 16 árum eða sami refsirammi og er nú í 1. mgr. 202. gr.
Til samræmis við önnur ákvæði þessa frumvarps er einnig lagt til að hækka aldursviðmið 4. mgr. 202. gr. í yngra en 18 ár. Markmið þessa frumvarps er að öll börn, óháð aldri, njóti réttarverndar.
Lagt er til að 5. mgr. 202. gr. falli brott þar sem refsiþyngingarástæður hafa verið færðar í 3. mgr. 202. gr.
Um 5. gr.
Um 6. gr.
1 Barnaverndarstofa, Könnun á kynferðislegri misnotkun gegn börnum, bls. 1.
2 Hrd. 539/2007.
3 Til dæmis Hrd, 737/2012.
4 Sjá t.d. dóm Héraðsdóm Reykjaness nr. S-271/2019 og dóm Héraðsdóms Suðurlands nr. S-473/2006.