Ferill 45. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 45  —  45. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum (bælingarmeðferð).

Flm.: Hanna Katrín Friðriksson, Guðbrandur Einarsson, Sigmar Guðmundsson, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Andrés Ingi Jónsson, Björn Leví Gunnarsson, Diljá Mist Einarsdóttir, Gísli Rafn Ólafsson, Helga Vala Helgadóttir, Jódís Skúladóttir, Orri Páll Jóhannsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir.


1. gr.

    Í stað „og 2. tölul. 1. mgr. 227. gr. a“ í 3. mgr. 5. gr. laganna kemur: 2. tölul. 1. mgr. 227. gr. a og 2. mgr. 227. gr. b.

2. gr.

    Í stað „og 2. tölul. 1. mgr. 227. gr. a“ í 1. mgr. 82. gr. laganna kemur: 2. tölul. 1. mgr. 227. gr. a og 2. mgr. 227. gr. b.

3. gr.

    Við XXIV. kafla laganna bætist ný grein, 227. gr. b, svohljóðandi:
    Hver sem með nauðung, blekkingum eða hótunum fær einstakling til að undirgangast meðferð í þeim tilgangi að bæla eða breyta kynhneigð, kynvitund eða kyntjáningu hans skal sæta fangelsi allt að 3 árum.
    Hver sem lætur barn yngra en 18 ára undirgangast meðferð sem greinir í 1. mgr. skal sæta fangelsi allt að 5 árum. Sömu refsingu skal sá sæta sem færir barn yngra en 18 ára úr landi í sama tilgangi.
    Hver sem framkvæmir, hvetur með beinum eða óbeinum hætti til eða hefur þegið fé vegna meðferðar sem greinir í 1. mgr. skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarpið var lagt fram á 152. löggjafarþingi (234. mál) en var ekki afgreitt. Það er nú lagt fram að nýju óbreytt.
    Í frumvarpi þessu er lagt til að nýrri grein verði bætt við XXIV. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, með síðari breytingum, sem snýr að brotum gegn frjálsræði manna. Í ákvæðinu er gert refsivert að láta einstakling undirgangast svokallaða bælingarmeðferð með nauðung, blekkingum eða hótunum, að láta barn undirgangast slíka meðferð hér á landi eða erlendis sem og að framkvæma bælingarmeðferðir, hvetja til eða þiggja fé vegna þeirra. Því til viðbótar er lagt til að brot gegn 2. mgr. ákvæðisins verði færð undir 3. mgr. 5. gr. laganna, sem snýr að refsingum eftir íslenskum lögum fyrir brot sem framið erlendis, og 1. mgr. 82. gr., sem kveður á um að fyrningarfrestur brota gegn börnum teljist ekki fyrr en brotaþoli nær 18 ára aldri.
    Bælingarmeðferð (e. conversion therapy) kallast það þegar fólk er látið sæta meðferð til að bæla niður og breyta kynhneigð, kynvitund eða kyntjáningu þess. Slíkar meðferðir hafa víða verið framkvæmdar, bæði hérlendis sem erlendis, byggt á þeirri trú að unnt sé að „lækna“ náttúrulega kynhneigð eða kynvitund fólks. Í slíkum meðferðum er gjarnan samtali beitt til þess að tengja upplifun þolandans á kynhneigð, kynvitund eða kyntjáningu sinni við sársauka og skömm. Í grófari tilvikum hefur þolandinn einnig verið látinn undirgangast inngripsmeiri meðferðir á borð við rafstuðsmeðferð, dáleiðslu og jafnvel uppskurð á heila. Slíkar meðferðir eru ekki studdar af vísindum, þær eru siðferðilega rangar og geta haft verulega neikvæð óafturkræf áhrif á andlega og líkamlega heilsu fólks sem látið er undirgangast þær. Börn eru sérstaklega viðkvæm fyrir neikvæðum áhrifum bælingarmeðferða.
    Bælingarmeðferðir hafa víða verið bannaðar með lögum að viðlagðri refsingu. Í Kanada, Sviss, Brasilíu, Ekvador, á Möltu og Indlandi eru þær bannaðar með öllu. Í ýmsum ríkjum Bandaríkjanna, Albaníu, Úrúgvæ, Argentínu og víðar er heilbrigðisstarfsfólki bannað að framkvæma eða taka þátt í bælingarmeðferðum. Í Þýskalandi er bælingarmeðferð á börnum bönnuð og jafnframt á fullorðnum ef nauðung, blekkingum eða þrýstingi hefur verið beitt. Í Noregi, Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi, Bretlandi, Frakklandi, Nýja Sjálandi, Ísrael og á Írlandi er nú til skoðunar að fylgja þessu fordæmi og leggja bann við þessum skaðlegu meðferðum.
    Fordómar gegn hinsegin fólki eru oft duldir og þetta er ein grófasta birtingarmynd þeirra. Skaðinn af bælingarmeðferð nær langt út fyrir gagnsleysi þeirra og tímann og peninginn sem tapast við tilraunir til að breyta kynhneigð, kynvitund og kyntjáningu fólks. Lífsánægja hinseginfólks, og sérstaklega hinsegin ungmenna, er mun minni en annarra. Samkynhneigð ungmenni eru, svo dæmi sé tekið, 25 sinnum líklegri til að svipta sig lífi eða að gera tilraun til þess en jafnaldrar þeirra. Þessu til viðbótar eru ungmenni sem hafa verið látin undirgangast bælingarmeðferð meira en tvöfalt líklegri til þess að reyna sjálfsvíg. Rannsóknir hafa einnig sýnt fram á meira en tvöfalt hærri tíðni þunglyndis meðal þeirra hinsegin ungmenna sem hafa verið látin þola bælingarmeðferð en annarra hinsegin ungmenna. Á þessum grundvelli verður bælingarmeðferð á börnum að teljast misneyting og ofbeldi sem stefnir lífi þeirra og heilsu í hættu.
    Í frumvarpi þessu var litið til breytinga á hegningarlögum í Kanada, sem samþykktar voru 12. desember 2021, breytinga á hegningarlögum og öðrum ákvæðum laga í Þýskalandi, sem samþykktar voru 12. júní 2020, og frumvarps sem lagt var fram á nýsjálenska þinginu 30. júlí 2021. Litið var til orðalags umræddra laga og frumvarps, gildissviðs þeirra og refsirammans sem var ákveðinn eða lagður til.
    Flutningsmenn telja brýnt að frumvarp þetta verði samþykkt til þess að unnt verði að veita fólki, og sérstaklega börnum, viðeigandi vernd gegn þeim skaða sem bælingarmeðferðir hafa valdið og kunna að valda verði ekki tryggt að slíkt athæfi teljist ólöglegt.