Ferill 51. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 51  —  51. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988 (vistvæn skip).

Flm.: Jakob Frímann Magnússon, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Inga Sæland, Tómas A. Tómasson.


1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Á tímabilinu 1. janúar 2023 til og með 31. desember 2025 skal við innflutning og skattskylda sölu nýrra skipa og báta, sem falla undir vörulið 8901, 8902, 8903, 8904, 8905 eða 8906 í tollskrá og eingöngu eru knúin rafmagni sem orkugjafa, fella niður virðisaukaskatt af söluverði eða telja það til undanþeginnar veltu. Ákvæði þetta skal jafnframt gilda um niðurfellingu virðisaukaskatts við innflutning og fyrstu sölu notaðra skipa og báta sem eingöngu nýta rafmagn sem orkugjafa enda sé viðkomandi skip eða bátur þriggja ára eða yngri á innflutningsdegi og söludegi miðað við fyrstu skráningu.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þessa efnis var áður lagt fram á 152. löggjafarþingi (44. mál) og er nú lagt fram að nýju.
    Undanfarin ár hefur tíðkast að veita undanþágur frá ýmsum opinberum gjöldum vegna kaupa á farartækjum sem knúin eru vistvænum orkugjöfum. Í lögum um virðisaukaskatt er að finna ákvæði til bráðabirgða sem heimilar undanþágu frá greiðslu virðisaukaskatts vegna kaupa á rafknúnum bifreiðum, vetnisknúnum bifreiðum og tengiltvinnbifreiðum. Um síðastliðin áramót samþykkti Alþingi einnig að fella niður virðisaukaskatt vegna rafknúinna loftfara.
    Markmið þessa frumvarps er að tryggja að sams konar ívilnanir séu til staðar vegna rafknúinna báta, sem þegar eru farnir að ryðja sér til rúms. Faxaflóahafnir hafa þegar fellt niður bryggju- og lestargjald vegna slíkra báta. Stuðla á að orkuskiptum á hvers konar farartækjum, ekki bara á ökutækjum. Bátar og skip eru nú þegar undanþegin virðisaukaskattsskyldu í ýmsum tilvikum, en þær undantekningar eru ekki fortakslausar og þar fyrir utan falla skemmtibátar og skip sem eru innan við 6 metra á lengd. Því er lagt til að lögfesta heimildir sem veiti sambærilegar ívilnanir vegna báta og skipa við þær sem þegar er að finna í ákvæði XL til bráðabirgða í virðisaukaskattslögum sem tekur til hópbifreiða. Það er von flutningsmanna að með slíkum ívilnunum megi stuðla enn frekar að orkuskiptum á Íslandi og draga úr losun á koltvísýringi.