Ferill 64. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 64  —  64. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um sjálfstæðar fiskeldisrannsóknir á vegum Háskólaseturs Vestfjarða.


Flm.: Eyjólfur Ármannsson, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Guðmundur Ingi Kristinsson, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson.

    Alþingi ályktar að fela háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að koma á fót stöðu fiskeldisfræðings við Háskólasetur Vestfjarða. Samningur ríkisins við Háskólasetur Vestfjarða verði endurskoðaður og fjármagn tryggt fyrir stöðu fiskeldisfræðings og sjálfstæðar rannsóknir í fiskeldisfræðum á vegum setursins.

Greinargerð.

    Tillaga þessi var áður lögð fram á 152. löggjafarþingi (390. mál) og er nú lögð fram að nýju óbreytt.
    Fiskeldi er í dag ein helsta atvinnugrein Vestfjarða. Á undanförnum áratug hefur atvinnugreinin vaxið hratt og nú starfa yfir 150 manns við fiskeldi á Vestfjörðum. Auk þess hefur skapast fjöldi afleiddra starfa, m.a. tengd flutningi, vinnslu og pökkun. 1 Þessi atvinnuuppbygging hefur átt mikinn þátt í þeirri endurreisn sem Vestfirðir eru að ganga í gegnum. Fiskveiðar hafa ávallt verið ein helsta atvinnugreinin á svæðinu en þegar aflaheimildir fluttust í stórum stíl til annarra landshluta fækkaði störfum með tilheyrandi áhrifum á byggðaþróun. Íbúum fækkaði statt og stöðugt á Vestfjörðum frá upphafi 9. áratugarins þangað til viðsnúningur varð árið 2017. Þennan viðsnúning má rekja til ýmissa þátta, m.a. uppgangs í ferðaþjónustu, en óumdeilt er að fiskeldið spilar þarna lykilhlutverk. Fiskeldi er ört vaxandi atvinnugrein á Vestfjörðum. Í fyrra voru þar framleidd yfir 27 þúsund tonn af eldisfiski, sem er nærri tíu sinnum meira en framleitt var árið 2015. Útflutningsverðmæti eldisafurða nam rúmum 36 milljörðum kr. árið 2021 og hlutdeild Vestfjarða í þeirri verðmætasköpun er yfir 50%. 2 Eldislax er orðinn verðmætari en þorskur á Vestfjörðum og útlit er fyrir mikinn vöxt í atvinnugreininni á næstu árum. Samkvæmt áhættumati Hafrannsóknastofnunar er hámarkslífmassi fiskeldis í sjó 64.500 tonn á Vestfjörðum og því er mikið svigrúm fyrir frekari uppbyggingu.
    Vestfirðingar þekkja vel hvaða áhrif það hefur þegar fyrirtæki flytja starfsstöðvar milli landshluta. Fiskeldi er þekkingariðnaður og miklu skiptir að sú þekking sem verður til á svæðinu varðveitist og skili sér áfram til komandi kynslóða. Þannig má fyrirbyggja skyndileg áföll í greininni og skapa traustan grundvöll fyrir ört vaxandi atvinnugrein.
    Mikilvægt er að samnýta þá innviði sem þegar eru til staðar á Vestfjörðum til að efla þekkingu á fiskeldi. Þegar eru þar ýmsar stofnanir sem starfa í þekkingargeiranum. Sem dæmi má nefna Vestfjarðastofu, Náttúrustofu Vestfjarða, Fræðslumiðstöð Vestfjarða og Háskólasetur Vestfjarða. Þá er Hafrannsóknastofnun með starfsstöð á Ísafirði, og sér um vöktun á áhrifum eldis á vistkerfi fjarða.
    Mikilvægt er að byggja upp fræðilega þekkingu á fiskeldi á Íslandi og fræðasamfélagið á Vestfjörðum, efla rannsóknir á fiskeldi og tryggja að sú þekking og reynsla sem myndast á svæðinu verði varðveitt og henni miðlað áfram. Einnig er mikilvægt að rannsaka umhverfisáhrif fiskeldis og stuðla að því að fiskeldi fari fram með vistvænum hætti. Því er lagt til að koma á fót stöðu fiskeldisfræðings, sem starfi við sjálfstæðar rannsóknir og kennslu. Hans hlutverk væri einnig að taka þátt í og stuðla að faglegri umræðu um fiskeldi á Íslandi. Til að girða fyrir hagsmunaárekstra er mikilvægt að slík staða verði ekki á vegum fiskeldisfyrirtækja, heldur óháð og innan fræðasamfélagsins. Þá er Háskólasetur Vestfjarða besti kosturinn, enda eru yfir 50% af fiskeldisafurðum framleiddar á Vestfjörðum eins og áður segir. Háskólasetrið er sjálfseignarstofnun sem starfar á grundvelli staðfestrar skipulagsskrár, en starfsemin er fjármögnuð með framlögum ríkissjóðs á grundvelli samnings við háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðuneytið. Sjálfstæðar rannsóknir á fiskeldi falla vel að starfsemi háskólasetursins, enda er það menntastofnun á háskólastigi, með tilheyrandi aðbúnað sem þarf til að stunda rannsóknir af þessu tagi. Þá myndi sjálfstæð rannsóknarstaða efla mjög starfsemi setursins og yrði eðlileg viðbót við þá starfsemi sem þar fer fram. Háskólasetrið hefur ávallt lagt mikla áherslu á að skapa og miðla þekkingu á sjávarauðlindinni og þar er kennt meistaranám í haf- og strandsvæðastjórnun og meistaranám í sjávartengdri nýsköpun, sem nú er í endurskipulagningu. Þá er efling háskólasetursins í samræmi við markmið byggðaáætlunar um að leggja áherslu á að auka rannsóknarvirkni, vísindastarfsemi og nýsköpun á landsbyggðinni. 3 Staða fiskeldisfræðings fellur því mjög vel að núverandi starfsemi háskólasetursins og framtíðarmarkmiðum.
    Við undirbúning þessa máls var leitað álits háskólasetursins. Stjórn setursins fagnaði tillögunni og taldi að staða fiskeldisfræðings passaði vel við stefnu þess um að efla rannsóknir, kennslu og þróun á Vestfjörðum. Mikill samgangur væri milli setursins og annarra rannsóknarstofnana á svæðinu, sem sumar eru undir sama þaki. Stjórnin benti jafnframt á að mikilvægt væri að huga vel að því hvernig hæfnismati og framgangsferli yrði háttað ef ætlunin er sú að staðan verði akademísk og benti á að hugsanlega væri hægt að koma á samstarfi við Háskólann á Akureyri í þeim efnum. Viðbót sem þessi gæti markað þáttaskil í starfsemi háskólasetursins.
    Það er nauðsynlegt að fylgja eftir þeirri uppbyggingu sem hefur átt sér stað í fiskeldi á Vestfjörðum undanfarin ár. Sjálfstæðar rannsóknir eru lykilþáttur í þeirri eftirfylgni. Því er lagt til að háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra beiti sér fyrir því að samningur við Háskólasetur Vestfjarða verði endurskoðaður og fjármagn tryggt fyrir stöðu fiskeldisfræðings sem sinni sjálfstæðum rannsóknum á fiskeldi á Vestfjörðum.


1     Greining á áhrifum fiskeldis á Vestfjörðum. KPMG, Fjórðungssamband Vestfjarða og Vestfjarðastofa. Febrúar 2021: www.vestfirdir.is/static/files/Fiskeldi/210301-greining-a-ahrifum-fiskeldis-a-vest fjordum.pdf
2     radarinn.is/Fiskeldi/Eldi
3     Sjá III. kafla þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022–2036.