Ferill 72. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 72  —  72. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007 (afnám skerðinga ellilífeyris vegna atvinnutekna).

Flm.: Inga Sæland, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson.


1. gr.

    4. málsl. 1. mgr. 23. gr. laganna orðast svo: Þá skulu atvinnutekjur ellilífeyrisþega ekki skerða ellilífeyri.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2023.

Greinargerð.

    Flokkur fólksins hefur ítrekað lagt til að skerðingar vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega verði afnumdar. Málið var áður flutt á 148., 149., 151. og 152. löggjafarþingi (64. mál) en hlaut ekki brautargengi og er nú endurflutt.
    Í 4. málsl. 1. mgr. 23. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um að ellilífeyrisþegar skuli hafa 2.400.000 kr. sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna. Þetta sérstaka frítekjumark kemur til viðbótar við hið almenna frítekjumark laganna sem nemur 300.000 kr. á ári. Ef ellilífeyrisþegar hafa launatekjur yfir 2.400.000 kr. á ári skerðist ellilífeyrir þeirra um 45% af því sem umfram er. Lengi vel stóð frítekjumarkið í 1.200.000 kr. en um síðustu áramót var því loks breytt.
    Skerðingar á atvinnutekjum ellilífeyrisþega hafa sætt mikilli gagnrýni undanfarin ár. Frítekjumarkið þótti of lágt og skerðingarhlutfallið of hátt. Eldra fólk benti ítrekað á að þetta hefði þær afleiðingar að vinna hefði lítil sem engin áhrif á ráðstöfunartekjur. Þegar launatekjur eru skattlagðar og leiða einnig til skerðinga á ellilífeyri þá situr nánast ekkert eftir.
    Dr. Haukur Arnþórsson vann greinargerð um fjárhagslega stöðu aldraðra fyrir Félag eldri borgara í Reykjavík og ritaði grein um þá rannsókn sína í Morgunblaðið 23. nóvember 2017. Þar kemur fram að afnám skerðingar á lífeyrisgreiðslur vegna atvinnutekna þurfi ekki að fela í sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð og það sé vel hugsanlegt að ríkissjóður gæti haft fjárhagslegan ávinning af aðgerðinni.
    Í kjölfar þinglokasamninga sumarið 2019 samþykkti Alþingi að láta framkvæma úttekt á því hver kostnaðurinn yrði ef frumvarp Flokks fólksins, um afnám skerðinga ellilífeyris vegna atvinnutekna, næði fram að ganga. Félagsmálaráðuneytið fékk Capacent til að framkvæma úttektina. Capacent skilaði úttektinni snemma árs 2020. Samkvæmt niðurstöðum Capacent myndi afnám skerðinga ellilífeyris vegna atvinnutekna leiða til aukins kostnaðar fyrir ríkissjóð um 2,1 milljarð kr.
    Það vekur upp spurningar þegar tvær úttektir um sama viðfangsefnið skila misvísandi niðurstöðum. Þingmenn Flokks fólksins hafa ítrekað kallað eftir því að fá aðgang að þeim forsendum sem liggja að baki niðurstöðum Capacent en ráðuneytið hefur ekki enn veitt aðgang að þeim.
    Um áramótin síðustu voru gerðar breytingar á lögum um almannatryggingar og frítekjumark ellilífeyris hækkað, úr 1.200.000 kr. í 2.400.000 kr. Þessum breytingum ber að fagna, en betur má ef duga skal. Fullt tilefni er til að stíga næsta skref og afnema þessar skerðingar með öllu.
    Óumdeilt er að áframhaldandi vinna eftir að ellilífeyrisaldri er náð eykur möguleika aldraðra til að bæta kjör sín, einkum þeirra sem lægstar hafa tekjurnar. Þá hafa rannsóknir sýnt fram á að vinna og virkni á efri árum stuðlar að betri heilsu, dregur úr einangrun og hefur almennt mikið félagslegt gildi fyrir eldri borgara. Núgildandi lagarammi dregur verulega úr atvinnuþátttöku eldri borgara. Fyrsta skrefið í rétta átt hefur verið stigið, með tvöföldun frítekjumarksins. Næsta skref þarf að stíga til fulls. Því er lagt til að skerðingar ellilífeyris vegna atvinnutekna verði afnumdar.