Ferill 75. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 75  —  75. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um búsetuöryggi í dvalar- og hjúkrunarrýmum.


Flm.: Inga Sæland, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson.


    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að undirbúa og leggja fram lagafrumvarp sem kveði á um eftirfarandi:
     1.      Ríki og sveitarfélögum verði skylt að útvega öldruðum, sem hafa gengist undir færni- og heilsumat, dvalar- eða hjúkrunarrými eigi síðar en 60 dögum eftir að niðurstöður mats um að viðkomandi eigi rétt á slíku úrræði liggja fyrir.
     2.      Færni- og heilsumat skuli gefið út eigi síðar en 10 dögum eftir að umsókn um það berst.
     3.      Öldruðum einstaklingum, sem dvalist hafa lengur en 10 daga á sjúkrahúsi án sérstakrar meðferðar, verði útvegað dvalar- eða hjúkrunarrými.
     4.      Maki eða sambúðarmaki heimilismanns á stofnun fyrir aldraða skuli, án tillits til þess hvort hann hafi gengist undir færni- og heilsumat, eiga þess kost að dvelja á stofnun ásamt heimilismanni. Viðkomandi öðlist þá sjálfstæðan rétt sem heimilismaður á stofnun fyrir aldraða.
    Ráðherra leggi fram frumvarp þessa efnis á haustþingi 2023.

Greinargerð.

    Þingsályktunartillaga þessi var áður lögð fram á 149., 150., 151. og 152. löggjafarþingi (51. mál) en náði ekki fram að ganga og er nú lögð fram að nýju.
    Þrátt fyrir skýrar vísbendingar um þörf á fleiri hjúkrunarrýmum og fögur fyrirheit um uppbyggingu hefur lítið gerst undanfarin ár. Árið 2007 voru hjúkrunarrými tæplega 2.700 en dvalarrými ríflega 700. Árið 2019 voru almenn hjúkrunarrými á hjúkrunar- og dvalarheimilum landsins 2.648 en dvalarrými 179. Í lok árs 2021 voru 2.737 almenn hjúkrunarrými og 136 dvalarrými. Milli 2019 og 2021 fjölgaði hjúkrunarrýmum um 89 á meðan dvalarrýmum fækkaði um 43. Þessi fjölgun rýma hefur því miður ekki leitt til styttri biðtíma fyrir fólk með færni- og heilsumat. Því má álykta að átak ríkisstjórnarinnar í fjölgun hjúkrunarrýma hafi ekki tekið nægilega mið af fyrirséðri öldrun þjóðarinnar.
    Þeim sem biðu eftir hjúkrunarrýmum fjölgaði um 60% á landsvísu á milli janúar 2014 og janúar 2018. Á sama tíma fjölgaði þeim sem bíða þurftu lengur en 90 daga eftir hjúkrunarrými um 35%. Frá árinu 2014 til 2022 lengdist meðalbiðtími eftir hjúkrunarrými úr 91 degi í 136 daga. Af þeim 186 einstaklingum sem fengu úthlutað hjúkrunarrými á þriðja ársfjórðungi ársins 2014 biðu 57 einstaklingar lengur en 90 daga. Á þriðja ársfjórðungi ársins 2018 biðu 77 einstaklingar af 175 lengur en 90 daga eftir því að fá hjúkrunarrými. Árið 2014 létust 114 einstaklingar á biðlista, 141 árið 2015, 178 árið 2016 og 183 árið 2017. Árið 2020 létust 118 einstaklingar sem voru á biðlista eftir hjúkrunarrými.
    Samkvæmt samantekt landlæknis eru í dag að jafnaði rúmlega 400 manns á biðlista eftir hjúkrunarrými og rúmlega 40% þurfa að bíða lengur en 90 daga eftir rými. Miðgildi biðtíma var 84 dagar árið 2021 og meðalbiðtími 136 dagar. Síðasta áratuginn jókst fjöldi þeirra sem voru 67 ára og eldri um 35%. Á sama tíma jókst fjöldi fólks 80 ára og eldri um 13%. Gögnin gefa til kynna að öldrun þjóðarinnar muni halda áfram næstu áratugi og því er nánast víst að nauðsynlegt sé að fjölga hjúkrunarrýmum til muna á næstu árum.
    Sveitarfélögin sjá um húsnæði fyrir hjúkrunar- og dagvistunarúrræði aldraðra en ríkið úthlutar fjármagni með hverjum og einum þeirra. Með þessu eru sveitarfélögin háð úthlutunum hjúkrunar- og dvalarrýma frá ríkinu og þannig strandar málið á því að sveitarfélög fá oft ekki, þrátt fyrir ítrekaðar óskir, fjármagn til að fjölga dvalar- og hjúkrunarrýmum og reka með viðhlítandi hætti.
    Það eykur þrýsting á stjórnvöld ef hámark biðtíma eftir úrræði er lögfest. Ef ekki er fylgt lagaramma um hámark biðtíma getur það myndað skaðabótaskyldu vegna þess tjóns sem bið kann að valda þeim sem eiga rétt á úrræðinu. Því er lagt til að hámark biðtíma eftir dvalar- eða hjúkrunarrými verði 60 dagar.
    Það lengir verulega biðtíma eftir dvalar- eða hjúkrunarrými ef fólk þarf að bíða lengi eftir færni- og heilsumati. Tryggja þarf að bið eftir færni- og heilsumati verði sem styst svo að fólk geti hlotið viðeigandi úrræði sem fyrst. Það má gera með bættri mönnun og auknu fjármagni til verkefnisins. Því er lagt til að skylt verði að gefa út færni- og heilsumat eigi síðar en 10 dögum eftir að umsókn berst.
    Ef enginn vafi leikur á því að einstaklingur þurfi dvalar- eða hjúkrunarrými þá eiga ekki að vera hömlur í kerfinu. Því er lagt til að öldruðum einstaklingum sem dvalið hafa lengur en 10 daga á sjúkrahúsi án sérstakrar meðferðar verði útvegað dvalar- eða hjúkrunarrými þó að færni- og heilsumat hafi ekki verið gert. Sú tilhögun dregur úr fráflæðisvanda spítalanna og stuðlar að því að fólk komist í rétt úrræði strax.
    Eldri borgarar sem dveljast á stofnun fyrir aldraða eru oft þvingaðir til sambúðarslita þar sem þeir eiga ekki kost á að vera samvistum við maka eða sambúðarmaka sinn. Það er mannréttindamál að tryggja að íbúar á öldrunarstofnunum geti verið áfram samvistum við maka sinn. Markmið tillögunnar er að gera fólki mögulegt að búa áfram með maka sínum sem hefur af heilsufarsástæðum þurft að flytjast á heimili sem krefst færni- og heilsumats til búsetu. Því yrði ekki lengur áskilið að heilbrigður eða heilbrigðari maki haldi til annars staðar en hinn veikari. Þannig yrði komið í veg fyrir þvinguð sambúðarslit.