Ferill 79. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 79 — 79. mál.
Frumvarp til laga
um breytingu á barnalögum, nr. 76/2003 (réttur til umönnunar).
Flm.: Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Logi Einarsson, Oddný G. Harðardóttir, Valgerður Árnadóttir, Gísli Rafn Ólafsson, Steinunn Þóra Árnadóttir, Halldóra Mogensen.
1. gr.
2. gr.
Greinargerð.
Með frumvarpi þessu er lagt til að kveðið verði sérstaklega á um það í barnalögum að í forsjárskyldu felist að veikt eða slasað barn eigi rétt á umönnun foreldra sinna. Samhliða þessu er flutt þingsályktunartillaga um að félags- og vinnumarkaðsráðherra verði falið að koma á fót starfshópi til að kanna hvernig foreldrum barna verði gert kleift að rækja þessa skyldu með samkomulagi milli aðila vinnumarkaðarins eða með setningu reglna á þeim vettvangi. Á undanförnum árum hefur umræða um rétt og réttindi barna farið vaxandi. Þetta má m.a. rekja til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem gjarnan er nefndur barnasáttmálinn. Samningur þessi var undirritaður af Íslands hálfu 26. janúar 1990 og var fullgiltur 28. október 1992. Hann öðlaðist síðan gildi hér á landi 27. nóvember 1992. Rúmum áratug síðar öðlaðist samningurinn lagagildi með lögum nr. 19/2013. Réttur barns til samvista við foreldra og til umönnunar telst til mikilvægustu réttinda sáttmálans og felur í sér einn af hornsteinum hans. Í því sambandi má benda á að samningurinn leggur m.a. þær skyldur á aðildarríkin að tryggja réttindi veikra og slasaðra barna en frumvarp þetta ásamt fyrrgreindri þingsályktunartillögu miðar að því að tryggja betur að þeirri þjóðréttarlegu skuldbindingu verði fullnægt.
Forsjá barns er eitt af meginatriðum barnaréttar en á henni byggjast lagatengsl barns við foreldra sína eða aðra þá sem fara með forsjána. Forsjá barns snýst fyrst og fremst um ábyrgð, skyldur og réttarstöðu foreldra. Sá réttur felur annars vegar í sér rétt foreldra til að taka ákvarðanir um uppeldi barns og hins vegar rétt barns til að njóta forsjár foreldra sinna. Sá sem fer með forsjá barns, hvort sem um er að ræða foreldri eða annan sem fer með forsjána, hefur því víðtækar skyldur gagnvart barninu. Hlutverk foreldra er í mörgum tilfellum fest í lög og má hér einkum benda á 28. gr. barnalaga.
Hlutverk foreldra og forráðamanna er víðfeðmt og verður aldrei upptalið til hlítar í lögum. Flutningsmenn telja þó að leggja verði sérstaka áherslu á rétt barns til að njóta umönnunar foreldra eða forráðamanna þegar það er veikt eða slasað. Þótt þessi réttur sé þegar fyrir hendi kemur hann þó hvergi beint fram í lögum og er lagt til að úr því verði bætt.
Tilefni þess að árétta þennan rétt veikra og slasaðra barna í lögum er að rétturinn til að vera með og sinna veiku eða slösuðu barni hefur fyrst og fremst verið réttindi foreldris eða þess sem fer með forsjána frekar en að vera réttur barnsins sjálfs. Í því sambandi má benda á að kjarasamningar á íslenskum vinnumarkaði hafa í langflestum tilvikum haft að geyma ákvæði um rétt foreldra til að sinna veikum börnum og þannig er rétturinn tengdur starfi og ráðningarsambandi forsjáraðila og vinnuveitanda. Með því að mæla fyrir um þennan sjálfstæða rétt barnsins er gert ráð fyrir að búið verði svo um hnútana á vinnumarkaði að rétturinn verði virtur þannig að hverju og einu barni verði tryggður þessi réttur. Þannig kann að vera að foreldri sem á fleiri en eitt barn verði að deila réttindum sínum milli barna sinna. Einbirni sem veikist eða slasast og á tvo foreldra á vinnumarkaði er því í betri stöðu og gæti átt rétt á 20–30 dögum með foreldrum sínum. Veikt eða slasað barn úr systkinahópi sem deila þarf dögum gæti því aðeins notið fáeinna daga ef aðstæður haga því þannig að systkini viðkomandi hafi einnig orðið veik. Munurinn á réttindum barna getur því verið umtalsverður og á sama hátt geta möguleikar foreldris á að sinna börnum sínum verið mjög mismunandi. Réttindin eru því ekki aðeins réttur foreldra á launuðu leyfi úr vinnu til að annast veikt barn heldur fremur réttur barnsins til að njóta þeirrar umönnunar sem það þarfnast.
Svo sem áður greinir er samhliða frumvarpi þessu lögð fram tillaga til þingsályktunar um skipun starfshóps sem kanni hvort skilgreina eigi á vinnumarkaði rétt foreldra eða þeirra sem fara með forsjána til að annast veikt eða slasað barn með tilliti til fjölda barna og mögulegar útfærslur á því fyrirkomulagi með tilliti til launamissis foreldris, leyfis þeirra frá störfum/ vinnutaps og réttinda á vinnumarkaði. Er þessi leið farin þar sem skyldur og réttindi á vinnumarkaði eru aðallega skilgreind í kjarasamningum og því talið rétt að aðilar semji um þau sín á milli. Þar sem um er að ræða tvenns konar réttindi, annars vegar rétt veiks eða slasaðs barns til umönnunar foreldris og hins vegar rétt starfsmanns til að annast veikt eða slasað barn þykir rétt að fara þessa leið. Áréttað skal mikilvægi þess að sem best samræmi sé á milli þessara réttinda.