Ferill 83. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 83  —  83. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um afnám vasapeningafyrirkomulags.


Flm.: Inga Sæland, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson,
Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon,
Tómas A. Tómasson.


    Alþingi ályktar að fela félags- og vinnumarkaðsráðherra að leggja fram lagafrumvarp til breytinga á lögum um málefni aldraðra, fyrir árslok 2023, sem tryggi afnám svokallaðs vasapeningafyrirkomulags og að lífeyrisþegi sem flytur á dvalar- eða hjúkrunarheimili haldi óskertum lífeyris- og bótagreiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins. Markmið frumvarpsins verði að aldraðir fái notið lögbundins fjárræðis og sjálfræðis.

Greinargerð.

    Þingsályktunartillagan var lögð fram á 149., 150., 151. og 152. löggjafarþingi (47. mál) og er nú lögð fram að nýju óbreytt.
    Landssamband eldri borgara hefur í mörg ár beitt sér fyrir því að breytingar verði gerðar á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, þannig að eldri borgarar haldi sjálfræði sínu og fjárhagslegu sjálfstæði óháð heimilisfesti. Í V. kafla laganna er fjallað um kostnað við öldrunarþjónustu. Þar er einnig fjallað um þátttöku heimilismanna dvalarheimila í greiðslu þess kostnaðar.
    Þegar einstaklingur flytur inn á dvalar- eða hjúkrunarheimili fellur réttur viðkomandi til ellilífeyris niður. Ef tekjur viðkomandi ná ekki 132.368 kr. á mánuði getur hann átt rétt á ráðstöfunarfé, eða vasapeningum, sem á árinu 2022 er að hámarki 86.039 kr. Kostnaðarþátttakan er umtalsverð og margir verða af nær öllum sínum tekjum þegar ellilífeyrir fellur niður. Afleiðingin er sú að fólk þarf í flestum tilvikum að láta vasapeningana, 86.039 kr. á mánuði, duga fyrir öllum útgjöldum. Þá skerðast vasapeningarnir um 65% vegna annarra tekna.
    Með tillögu þessari er lagt til að ríkisstjórninni verði falið að leggja fram lagafrumvarp sem tryggi sjálfræði og fjárræði aldraðra einstaklinga þegar þeir fara inn á hjúkrunarheimili og að greiðsluþátttöku íbúa á dvalar- og hjúkrunarheimilum verði breytt þannig að íbúar haldi lífeyrisgreiðslum sínum og greiði milliliðalaust fyrir húsaleigu, mat og annan kostnað sem fylgir heimilishaldi. Almennar reglur um þá heilbrigðisþjónustu sem veitt er á heimilunum verði þó óbreyttar. Gert verði ráð fyrir að íbúar geti átt rétt á húsnæðisbótum og kostnaðarþátttaka einstaklinga á dvalar- eða hjúkrunarheimilum verði tekjutengd og falli niður hjá þeim sem hafi lágar tekjur.
    Árið 1989 fékk Halldór Sigurður Guðmundsson, forstöðumaður Dalbæjar á Dalvík, leyfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins til að breyta hluta Dalbæjar, heimilis aldraðra á Dalvík, í verndaðar þjónustuíbúðir. Halldór skrifaði skýrslu til heilbrigðisráðuneytisins og stjórnar Dalbæjar í október 1990, nokkrum mánuðum eftir að tilraunaverkefninu lauk. Tilrauninni var ætlað að gefa öldruðum kost á að halda fjárhagslegu sjálfstæði. Fjórir karlar og fjórar konur tóku þátt í tilrauninni og niðurstöðurnar voru að þátttakendur í tilrauninni sýndu aukna virkni, félagslífið jókst og ferðir út í bæ urðu fleiri. Þessi tilraun leiðir líkur að því að hið hefðbundna dvalarheimilisform sé neikvætt og hafi alið af sér ótímabæra hrörnun einstaklinga.
    Starfshópur um afnám vasapeningafyrirkomulagsins var skipaður í maí 2016 af þáverandi félags- og húsnæðismálaráðherra, Eygló Harðardóttur, en hann hefur ekki enn skilað niðurstöðum sínum. Í svari félags- og jafnréttismálaráðherra árið 2018 um afrakstur starfshópsins kom fram að vinna hópsins væri enn á undirbúningsstigi.
    Afnám vasapeningafyrirkomulagsins hefur verið á döfinni í mörg ár án þess að þær hugmyndir hafi skilað sér í neinu handföstu. Árið 1990 var sambærilegu fyrirkomulagi í Danmörku breytt. Lífeyris- og bótaþegar sem bjuggu á stofnunum héldu sínum tekjum en borguðu fyrir sig. Það hafði ekki endilega í för með sér að þeir hefðu meira fé handa á milli, en það þýddi að þeir voru fjárhagslega sjálfstæðir.
    Með þessari þingsályktunartillögu er því beint til félags- og vinnumarkaðsráðherra að endurskoða strax vasapeningafyrirkomulagið þannig að aldraðir haldi sjálfræði inni á stofnunum í eins ríkum mæli og kostur er svo að sem minnstar breytingar verði á högum fólks og háttum þegar það þarf á breyttu búsetuúrræði að halda.