Ferill 85. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 85  —  85. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um skipun starfshóps um umönnun og geymslu líka.


Flm.: Jódís Skúladóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að skipa starfshóp um úttekt á aðstöðu til umönnunar og geymslu líka, aðgengi að líkhúsum eða viðeigandi húsnæði, regluverki þar að lútandi og mögulegum úrbótum á núverandi lagaumhverfi. Starfshópurinn kortleggi stöðu þessara mála á landsvísu og skili Alþingi skýrslu fyrir 1. maí 2023.

Greinargerð.

    Mál þetta er nú flutt öðru sinni en það var lagt fram á 152. löggjafarþingi (317. mál) af þeim Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, Líneik Önnu Sævarsdóttur og Jódísi Skúladóttur sem var þá sem nú fyrsti flutningsmaður málsins. Málið er endurflutt óbreytt að efnisatriðum.
    Tryggt aðgengi að umönnun látinna og geymslu líka er hluti af sjálfsagðri þjónustu sem aðstandendur látinna reiða sig á. Sá ferill sem tekur við eftir að læknir hefur staðfest dauðaskilmerki, á sjúkrastofnunum eða utan þeirra, er ekki einsýnn og aðstæður mismunandi eftir aðgengi að þjónustu. Starfsemi þessi verður að vera tryggð í ljósi þess augljósa, við munum öll deyja. Í lögum er ekki skýrt hver skuli tryggja geymslu líka. Í því ljósi er mikilvægt að skýra nánar núverandi lagaumhverfi.