Ferill 99. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 99  —  99. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um ókeypis getnaðarvarnir fyrir einstaklinga yngri en 25 ára.


Flm.: Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Jóhann Friðrik Friðriksson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Þórarinn Ingi Pétursson, Gísli Rafn Ólafsson, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson.


    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að gera getnaðarvarnir aðgengilegar einstaklingum undir 25 ára þeim að kostnaðarlausu.

Greinargerð.

    Tillaga þessi var áður lögð fram á 152. löggjafarþingi (509. mál).
    Kynheilbrigði er hluti af lýðheilsu þjóðarinnar. Notkun getnaðarvarna skiptir miklu máli í því samhengi því að þær gefa einstaklingum tækifæri á því að hafa meiri stjórn á sínu eigin lífi.
    Bágar fjárhagslegar aðstæður geta komið í veg fyrir að ungt fólk noti getnaðarvarnir, sérstaklega dýrari gerðir þeirra sem teljast bera meiri árangur til lengri tíma. Ungt fólk á að eiga kost á því að nota getnaðarvarnir án þess að hafa áhyggjur af kostnaði. Til eru sögur af einstaklingum sem kjósa að sleppa getnaðarvörnum til að spara pening. Fjárhagur ungs fólks er oft mismunandi eftir mánuðum. Suma mánuði kemur fyrir að peningaskortur neyði ungt fólk til að hagræða. Þá verða getnaðarvarnir oft fyrir valinu, sem bitnar á kynheilbrigði. Pillan, lykkjan, traustir smokkar eða hvaða önnur getnaðarvörn sem verður fyrir valinu á að vera aðgengileg ungu fólki. Flutningsmenn telja að með samþykkt þingsályktunartillögu þessarar verði ungt fólk gripið með tilheyrandi jákvæðum áhrifum á almennt kynheilbrigði og lýðheilsu þjóðarinnar.
    Getnaðarvarnir eru ókeypis í fjölda ríkja, en það er mismunandi hvaða verjur eru aðgengilegar að kostnaðarlausu og hverjum þær eru aðgengilegar með tilliti til aldurs, kyns o.fl. Innan Evrópu eru getnaðarvarnir aðgengilegar ungmennum þeim að kostnaðarlausu, þar á meðal í Þýskalandi, Belgíu, Hollandi, Noregi, Bretlandi og Frakklandi. Í þessu samhengi má líta til Frakklands, sem nýlega hefur gert getnaðarvarnir ókeypis fyrir konur undir 25 ára aldri. Meðal röksemda ríkisstjórnar Frakklands fyrir þeirri aðgerð eru áhyggjur um að konur hætti að nota getnaðarvarnir af fjárhagslegum aðstæðum.
    Kynsjúkdómar eru margir og mismunandi en eiga það allir sameiginlegt að berast milli fólks við kynmök og vera skaðlegir heilsu fólks. Til eru yfir 30 kynsjúkdómar en þeir algengustu á Íslandi eru kynfæravörtur, kynfæraáblástur og klamydía. Aðrir kynsjúkdómar, sem eru ekki eins útbreiddir, eru t.d. HIV, lifrarbólga B, lekandi, sárasótt, tríkómónassýking, flatlús og kláðamaur. Algengustu kynsjúkdómarnir smitast með bakteríum eða lúsum. Þá er hægt að meðhöndla að fullu með lyfjum og/eða annarri meðferð. Hins vegar eru einnig til kynsjúkdómar sem smitast með veirum. Þeir geta reynst hættulegir ef þeir eru ekki meðhöndlaðir tímanlega og á réttan hátt. Þeir reynast almennt ólæknandi. Þá kemur einungis til greina að draga úr einkennum og hindra framgang þeirra tímabundið. Kynsjúkdómar dreifast auðveldlega milli einstaklinga við samfarir og það getur tekið langan tíma fyrir einkenni þeirra að koma í ljós. Stundum koma þau aldrei í ljós á áberandi hátt og því þurfa einstaklingar að huga að kynheilbrigði í hvívetna, nota verjur og fara reglulega í skoðun ef tilefni er til þess. Greinilegur munur er á fjölda klamydíusmita fyrir og eftir 25 ára aldur samkvæmt tölum á vefsíðu sóttvarnalæknis þar sem fjöldi tilvika er rakinn síðustu 20 ár, og því telja flutningsmenn ástæðu til þess að miða við þann aldur. Einnig er vert að minnast á skýrslu alþjóðlegu rannsóknarinnar Heilsa og líðan skólabarna (e. Health Behaviour in School-Aged Children), sem gerð hefur verið hér á landi frá árinu 2006. Þar kemur fram í síðustu könnun að á meðal 15 ára ungmenna í Evrópu og Norður-Ameríku segist einn af hverjum fjórum strákum og ein af hverjum sex stelpum hafa stundað kynlíf. Þar kemur þó einnig fram að notkun getnaðarvarna hafi farið minnkandi síðastliðið ár, sem er áhyggjuefni.
    Kynsjúkdómur getur haft neikvæð áhrif á lífsgæði einstaklings til lífstíðar. Sumir þeirra fylgja viðkomandi um alla ævi. Þeir geta leitt til ófrjósemi og ýmissa veikinda. Sem dæmi er talið að klamydía sé ein algengasta ástæða ófrjósemi meðal ungs fólks. Það er mikilvægt lýðheilsumál að spornað sé við útbreiðslu kynsjúkdóma eftir fremsta megni.
    Hætta á kynsjúkdómasmiti fylgir kynlífi. Einnig fylgja því ávallt líkur á barneignum. Til að koma í veg fyrir þungun eru til ýmsar gerðir getnaðarvarna. Smokkurinn, pillan, lykkjan, hettan, stafurinn, sprautan, hringurinn o.fl. eru getnaðarvarnir sem hannaðar eru til að koma í veg fyrir þungun þegar viðkomandi vill minnka líkur á henni. Ýmsar ástæður geta verið fyrir því að einstaklingur notar getnaðarvarnir, en þær varða almennt barneignir. Einstaklingur hefur ýmist ekki áhuga á barneignum, a.m.k. á ákveðnu tímabili, telur sig ekki tilbúinn til barneigna eða telur sig ekki hafa burði til að veita barni þau lífsgæði sem hann vill geta veitt. Almennt tengist það ungum aldri, en notkun getnaðarvarna er algengust meðal ungs fólks.
    Ráðherra verður falið að útfæra efni þingsályktunartillögunnar nánar m.a. með tilliti til takmarkana og þeirra staða sem getnaðarvarnirnar yrðu aðgengilegar einstaklingum yngri en 25 ára þeim að kostnaðarlausu. Með takmörkunum er aðallega átt við afhendingu smokka, þ.e. að einstaklingur getur ekki komið og óskað eftir þúsundum smokka á einu bretti.
    Flutningsmenn tillögu þessarar telja að ungt fólk eigi að geta stuðlað að kynheilbrigði og spornað við óskipulögðum barneignum án þess að þurfa að hafa fjárhagslegar áhyggjur.