Ferill 102. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 102  —  102. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007 (bifreiðastyrkir).

Flm.: Inga Sæland, Guðmundur Ingi Kristinsson, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson.


1. gr.

    10. gr. laganna orðast svo:
    Heimilt er að greiða elli- og örorkulífeyrisþega og örorkustyrkþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar. Þá er heimilt að veita uppbót til framfærenda hreyfihamlaðra barna sem njóta umönnunargreiðslna. Með líkamlegri hreyfihömlun er átt við sjúkdóm eða fötlun sem skerðir færni til að komast ferða sinna þannig að göngugeta án hjálpartækja er að jafnaði minni en 400 metrar á jafnsléttu.
    Uppbót er eingöngu heimilt að veita þegar eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:
     1.      Hinn hreyfihamlaði hefur sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður eða persónulegur aðstoðarmaður sem starfar samkvæmt samningi um notendastýrða persónulega aðstoð, sbr. lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.
     2.      Mat á hreyfihömlun liggur fyrir.
    Fjárhæðir uppbóta eru eftirfarandi:
     1.      500.000 kr. til þeirra sem uppfylla framangreind skilyrði.
     2.      1.000.000 kr. til þeirra sem uppfylla framangreind skilyrði og eru að kaupa bifreið í fyrsta sinn.
    Kaupverð bifreiðar skal ekki vera lægra en fjárhæð uppbótar að teknu tilliti til niðurfellds vörugjalds þegar það á við. Uppbót er heimilt að veita á fimm ára fresti vegna sama einstaklings. Heimilt er að greiða styrk áður en gengið er frá kaupum bifreiðar ef upplýsingar um kaupverð liggja fyrir
    Heimilt er að greiða elli- og örorkulífeyrisþega og örorkustyrkþega uppbót til að mæta kostnaði við rekstur bifreiðar ef bótaþega er nauðsyn að hafa bifreið vegna hreyfihömlunar. Mánaðarleg fjárhæð uppbótarinnar skal nema 22.000 kr.
    Uppbót til að mæta kostnaði við rekstur bifreiðar er eingöngu heimilt að veita þegar eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:
     1.      Hinn hreyfihamlaði hefur sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður eða persónulegur aðstoðarmaður sem starfar samkvæmt samningi um notendastýrða persónulega aðstoð, sbr. lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.
     2.      Mat á hreyfihömlun liggur fyrir.
    Áður en uppbót til að mæta kostnaði vegna reksturs bifreiðar er greidd skulu lagðar fram upplýsingar um eignarhald bifreiðar. Skilyrði er að hinn hreyfihamlaði eða maki hans sé skráður eigandi bifreiðarinnar eða hafi bifreiðina í rekstrarleigu til langs tíma.
    Að jafnaði er einungis heimilt að veita eina uppbót vegna kaupa á bifreið eða einn styrk skv. 10. gr. a og 10. gr. b til kaupa á bifreið. Í sérstökum tilfellum er þó heimilt að veita framfærendum hreyfihamlaðra barna uppbót eða styrk vegna hvers barns til kaupa á einni bifreið ef um er að ræða fleiri en eitt hreyfihamlað barn í sömu fjölskyldu og börnin búa á sama heimili. Framfærendur skulu í þeim tilfellum sýna fram á að fjölskyldan þurfi stærri bifreið vegna sérstaks búnaðar eða hjálpartækja sem börnin nota að staðaldri og að skilyrði séu uppfyllt að öðru leyti. Sækja skal um uppbót eða styrk vegna barnanna á sama tíma og getur heildargreiðsla styrkjanna ekki verið hærri en sem nemur kaupverði bifreiðar.

2. gr.

    Við lögin bætast tvær nýjar greinar, 10. gr. a og 10. gr. b, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:

    a. (10. gr. a.)

Styrkir til kaupa á bifreiðum.

    Heimilt er að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er skert eða líkamshluta vantar. Þá er heimilt að veita styrk til framfærenda hreyfihamlaðra barna sem njóta umönnunargreiðslna samkvæmt lögum um félagslega aðstoð en þá skal sýna fram á þörf á að koma hreyfihömluðu barni til reglubundinnar þjálfunar, meðferðar eða í skóla.
    Heimilt er að greiða styrk skv. 1. mgr. áður en gengið er frá kaupum bifreiðar ef upplýsingar um kaupverð liggja fyrir. Styrkur skal vera 2.000.000 kr. og skal veittur þegar eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:
     1.      Hinn hreyfihamlaði hefur sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður eða persónulegur aðstoðarmaður sem starfar samkvæmt samningi um notendastýrða persónulega aðstoð, sbr. lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.
     2.      Einstaklingur er verulega hreyfihamlaður samkvæmt læknismati og er t.d. bundinn hjólastól eða notar tvær hækjur eða göngugrind að staðaldri eða hefur verulega skerta göngugetu.
     3.      Hinn hreyfihamlaði er sjúkratryggður hér á landi, sbr. lög um sjúkratryggingar.
    Kaupverð bifreiðar skal ekki vera lægra en fjárhæð styrks að teknu tilliti til niðurfellds vörugjalds þegar það á við. Styrk er heimilt að veita á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.

    b. (10. gr. b.)

Styrkir til kaupa á sérútbúnum og dýrum bifreiðum.

    Heimilt er að veita styrk til kaupa á bifreið sem nemur allt að 60–70% af kaupverði hennar, þ.e. grunnverði án aukabúnaðar, ef um er að ræða einstakling sem ekki kemst af án sérútbúinnar bifreiðar vegna fötlunar sinnar. Heimildin á þó einungis við þegar umsækjandi uppfyllir skilyrði 10. gr. a og hann ekur sjálfur eða annar heimilismaður eða persónulegur aðstoðarmaður.
    Styrk er heimilt að veita á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.
    Heimilt er að greiða styrk áður en gengið er frá kaupum bifreiðar ef upplýsingar um kaupverð liggja fyrir. Skilyrði er að mat liggi fyrir um þörf á bifreið með hliðsjón af notkun hjálpartækja.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var lagt fram á 151. og 152. löggjafarþingi (61. mál) en náði ekki fram að ganga. Frumvarpið er nú endurflutt efnislega óbreytt, en fjárhæðir hafa verið uppfærðar til samræmis við verðlagsþróun.
    Skömmu eftir að frumvarp þetta var lagt fram í fyrsta sinn gerði ráðherra loksins langþráðar breytingar á reglum um uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. Þær reglur eru að mörgu leyti til bóta en ganga ekki jafn langt og frumvarp þetta í ákveðnum tilvikum, t.d. varðandi fjárhæðir. Auk þess er mikilvægt að tryggja réttindin í lögum, enda hefur reynslan sýnt fram á að ráðherrar geta með litlum fyrirvara skert réttindi með því að breyta reglugerðum.
    Fatlað fólk á að njóta sömu mannréttinda og aðrir. Lög og reglur eiga að tryggja þau mannréttindi. Hreyfihamlað fólk á að njóta ferðafrelsis til jafns við aðra. Lög um félagslega aðstoð hafa að geyma ákvæði sem fjalla um styrki til bifreiðakaupa fyrir hreyfihamlaða. Þau ákvæði fela ráðherra nánari útfærslu á nánast öllum skilyrðum fyrir veitingu slíkra styrkja. Á grundvelli 10. gr. laga um félagslega aðstoð er í gildi reglugerð, nr. 905/2021, sem fjallar nánar um bifreiðastyrki og skilyrði fyrir veitingu þeirra.
    Á grundvelli reglugerðarinnar er hægt að sækja um uppbót til bifreiðakaupa vegna hreyfihömlunar, að fjárhæð 360.000 kr., eða styrk til kaupa á bifreið vegna verulegrar hreyfihömlunar, að fjárhæð 1.440.000 kr., eða styrk til kaupa á sérútbúnum bifreiðum sem getur numið allt að 6.000.000 kr. Í framkvæmd hefur það reynst mörgum erfitt að sækja um slíka styrki vegna þess hve ströng skilyrði eru fyrir veitingu þeirra.
    Sem dæmi um hve ströng skilyrðin eru má nefna það að á grundvelli eldri reglugerðar greiddi Tryggingastofnun ekki út styrki til þeirra sem nota göngugrind vegna þess að reglugerðin skilgreindi verulega hreyfihömlun sem svo að einstaklingur væri t.d. bundinn hjólastól og/eða notaði tvær hækjur að staðaldri. Hin nýja reglugerð hefur að geyma sömu skilgreiningu. Þessi framkvæmd hefur viðgengist þrátt fyrir ábendingar lækna og hreyfihamlaðra um að einstaklingur sem þarf að nota göngugrind að staðaldri sé í raun haldinn jafn verulegri hreyfihömlun og fólk sem notast við tvær hækjur. Annað dæmi um ósveigjanleika er regla í eldri reglugerð sem bannaði fólki að selja bifreið fyrr en fimm árum eftir styrkveitingu. Þetta olli fólki gjarnan vandræðum þegar þörf var á að endurnýja bifreið. Þegar fátækt fólk fær styrk til að kaupa bifreið þá stendur því ekki oft til boða að kaupa nýja bifreið. Það er alkunna að mikill munur er á endingargetu bifreiða. Þá er veðráttan slík og vegakerfið þannig á Íslandi að bifreiðar úreldast yfirleitt fyrr hér á landi en annars staðar. Það er því ekki óalgengt að styrkþegar standi frammi fyrir þeim valkosti að borga himinháar fjárhæðir til að viðhalda bifreið sem er vel komin til ára sinna eða þá að selja hana og reyna að finna áreiðanlegri bifreið. Það er eðlilegt að fólk í slíkri stöðu, sem ekki hefur háar tekjur, velji frekar að selja bifreið sína. Dæmi eru um að Tryggingastofnun hafi þá krafið fólk um endurgreiðslu þegar bifreið er seld innan fimm ára jafnvel þó að umrædd bifreið hafi verið seld vegna þess að hún hafi eyðilagst (sjá úrskurð úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 24/2018 1 ).
    Þá er það skilyrði samkvæmt reglugerðinni að ganga verður frá kaupum áður en styrkur er veittur. Þetta skilyrði er óþarfi og verulega íþyngjandi, enda sækja styrkþegar eðlilega um styrk til þess að fá næga peninga til að ganga frá kaupum.
    Því miður eru það ekki aðeins skilyrði reglugerðarinnar sem eru ósveigjanleg. Fjárhæðirnar eru það einnig. Reglugerðin var sett árið 2009 og kvað þá um styrki að fjárhæð 300.000 kr. vegna hreyfihömlunar, 1.200.000 kr. vegna verulegrar hreyfihömlunar og styrki til kaupa á sérútbúnum bifreiðum allt að 5.000.000 kr. Þær upphæðir hafa aðeins tekið breytingum einu sinni og hafa ekki fylgt verðlagi. Því hefur styrkur hreyfihamlaðra hægt og rólega skerst með hækkandi verðlagi.
    Lögin fela ráðherra gjarnan nánari útfærslu á framkvæmd. Reynslan hefur í þessu tilviki sýnt að ákveðnir vankantar eru á reglugerð ráðherra. Þótt nýja reglugerðin sé um margt jákvæð er þörf á að stíga skrefið til fulls og lögfesta sanngjarnari framkvæmd. Frumvarp þetta leggur til breytingar á 10. gr. laga um félagslega aðstoð með það að markmiði að tryggja sanngirni og fyrirsjáanleika við úthlutun bifreiðastyrkja.
    Lagt er til að fjallað verði um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra til kaupa eða reksturs bifreiða í lögum um félagslega aðstoð. Sú umfjöllun byggist að mestu leyti á reglugerðarákvæðum sem nú eru í gildi með ákveðnum breytingum til batnaðar.
    Lögð er til víðtækari skilgreining á verulegri hreyfihömlun sem gerir ekki greinarmun á því hvort fólk notast við hækjur eða göngugrind að staðaldri. Einnig er lagt til að hámark styrks til kaupa á sérútbúinni bifreið verði hækkað úr 60% kaupverðs í 70%. Það hefur sýnt sig að sérútbúnar bifreiðar eru talsvert dýrari en hefðbundnar bifreiðar og 60% viðmið nægir ekki til að koma í veg fyrir fjárhagslega mismunun að þessu leyti. Þá er ekki kveðið á um hámark styrkja vegna kaupa á sérútbúnum bifreiðum enda hefur reynslan sýnt að verð á slíkum bifreiðum getur breyst töluvert á skömmum tíma.
    Til að tryggja sambærilegan rétt og í upphaflegri reglugerð er lagt til að fjárhæð styrkja skuli hækka til samræmis við þróun verðlags. Síðan eldri reglugerðin tók gildi í janúar 2009 hefur verðlag hækkað um 65% (vísitala neysluverðs stóð í 334,8 stigum í janúar 2009 og stendur nú í 553,5 stigum). Því er lagt til að upphaflegar fjárhæðir verði hækkaðar um svipað hlutfall. Uppbót vegna hreyfihömlunar, sem var 300.000 kr. árið 2009, verður 500.000 kr. Styrkur vegna verulegrar hreyfihömlunar, sem var 1.200.000 kr. árið 2009, verður 2.000.000 kr. Eins og að framan greinir er ekki kveðið á um hámark styrks vegna kaupa á sérútbúinni bifreið heldur verður miðað við hlutfall af kostnaðarverði bifreiðar. Þá er lagt til að uppbætur vegna reksturs bifreiðar verði 22.000 kr. á mánuði. Vegna þess að frumvarpið leggur til að fjárhæðir styrkja og uppbóta verði festar í lög hækka þær til frambúðar til samræmis við hækkun fjárhæða almannatrygginga, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga um félagslega aðstoð og 69. gr. laga um almannatryggingar.
1     www.stjornarradid.is/gogn/urskurdir-og-alit-/stakur-urskurdur/?newsid=c1c76c28-7932-11e8-9429-005056bc4d74