Ferill 134. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 134  —  134. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um uppbyggingu innviða til aukinnar kornræktar á Íslandi.


Flm.: Valgerður Árnadóttir, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Gísli Rafn Ólafsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Halldóra Mogensen, Logi Einarsson.


    Alþingi ályktar að fela matvælaráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra að gera aðgerðaáætlun um uppbyggingu innviða til aukinnar ræktunar á korni og vinnslu kornvöru til manneldis á Íslandi.
    Eftirfarandi aðgerðir verði útfærðar:
     a.      Komið verði á fót vinnslustöðvum fyrir kornvöru í hverjum landsfjórðungi.
     b.      Styrkir til kornræktar verði hækkaðir og sambærilegir þeim sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndum.
     c.      Stofnaður verði styrktarsjóður svo að ræktendur geti sótt styrki til að hefja ræktun á korni.
     d.      Gerð verði langtímaáætlun um fasta styrki til rannsóknar og þróunar á kynbótum á korni.
    Fjármála- og efnahagsráðherra leggi fram tillögur um nauðsynlega fjármögnun aðgerðanna. Við undirbúning málsins hafi matvælaráðherra samráð við helstu fagaðila í greininni og kynni fyrir Alþingi tilbúna aðgerðaáætlun eigi síðar en við lok árs 2023, þar sem tímasettar aðgerðir liggi fyrir.

Greinargerð.

    Víða um heim er alvarlegur uppskerubrestur vegna loftslagsbreytinga og stríðsátaka sem ekki sér fyrir endann á. Þessi uppskerubrestur, sem gæti reynst langvarandi, ógnar fæðuöryggi okkar. Brýnt er að bregðast við og efla innviði á Íslandi svo að unnt sé að rækta og vinna hérlendis nauðsynlega matvöru eins og kornvöru. Staðan er nú sú að senda þarf korn sem ræktað er hér á landi til vinnslu erlendis. Það er bæði kostnaðarsamt og gífurlega óumhverfisvænt.
    Í dag er innlend framleiðsla á korni til manneldis aðeins um 1% af heildarneyslu. Hér á landi eru mikil og góð tækifæri til að rækta korn og grænmeti en það sem skortir til að ná árangri á því sviði er markviss uppbygging nauðsynlegra innviða.
    Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að íslenska ríkið geri aðgerðaáætlun og tryggi nauðsynlegt fjármagn til uppbyggingar á innviðum sem stuðla að aukinni ræktun kornvöru á við hafra, repju, bygg og iðnaðarhamp.
    Áhugi ræktenda og bænda á slíkri framleiðslu er þegar til staðar, en það sem kemur helst í veg fyrir árangur á því sviði er skortur á nauðsynlegum innviðum. Með samþykkt þingsályktunartillögu þessarar fæli Alþingi matvælaráðherra að koma á fót þeim nauðsynlegu innviðum sem þarf í samráði við hagaðila í greininni.

Íslenskar kornvörur.
    Í skýrslu Landbúnaðarháskólans um fæðuöryggi á Íslandi kemur fram að öryggið er hvað minnst hérlendis þegar kemur að kornvörum, hvort sem er til manneldis eða fóðrunar búfjár. Fram hafa komið margar hugmyndir um hvað þurfi til að efla kornrækt á Íslandi og í því sambandi hefur verið nefnt að skapa þurfi efnahagslega möguleika á úrvinnsluiðnaði og kornsamlagi að norrænni fyrirmynd, jafnvel með beitingu skattalegra hvata. Þá hefur einnig verið talað um að koma þurfi upp afkomutryggingu fyrir þá sem stunda kornrækt og styðja kröftuglega við rannsóknar- og kynbótastarf. Markaðslegir þættir eru einnig talin ein helsta ástæða þess að ekki er meira korn ræktað hérlendis. Innlend viðskipti með korn eru afar takmörkuð. Stærstur hluti af íslenskri kornframleiðslu er notaður sem fóður innan bús og hér á landi er ekki til félag sem getur keypt og geymt korn í miklum mæli. Bændur hafa því ekki tryggingu fyrir að geta selt korn sitt og þar af leiðandi er framleiðsla kornbænda aðeins lítill hluti af innlendri eftirspurn.

Á Íslandi eru kjöraðstæður til að rækta hafra.
    Haframjólkurvörur hafa notið aukinna vinsælda undanfarin ár, bæði vegna lágs kolefnisspors og aukinnar tíðni á greindum tilfellum mjólkuróþols, en haframjólkurvörur eru bragðgóðar og næringarríkar og líkjast kúamjólkurvörum sem við eigum að venjast. Svíar og Finnar eru leiðandi í framleiðslu á haframjólkurvörum og nota til þess aðallega hafra sem eru ræktaðir í landinu. Ræktun á höfrum á Íslandi er takmörkuð en hægt væri, með nauðsynlegum innviðum, að leggja meiri áherslu á hana og framleiða okkar eigin haframjólkurvörur. Haframjólk er með næst lægsta kolefnissporið á eftir sojamjólk og er því umhverfis- og loftslagsvænn kostur, sem neytendur leggja síaukna áherslu á í vöruvali sínu. Samanburður við kolefnisspor kúamjólkur leiðir í ljós að það þarf tíu sinnum meira landsvæði og þrettán sinnum meira vatn til að framleiða kúamjólk en þarf við haframjólkurframleiðslu. Haframjólk er ekki einungis góð fyrir heilsu fólks heldur einnig fyrir umhverfið og því fjölþættur ávinningur af því að efla innviði til framleiðslunnar hér á landi.

Íslenskt bygg til manneldis.
    Íslenskir bændur sem rækta bygg nota það aðallega í fóður en þó eru frumkvöðlar sem hafa komið sér upp vélum til þurrkunar og rækta bygg til manneldis. Þar má t.d. nefna Vallanes og Þorvaldseyri. Afurðir frá þeim eru helst notaðar til matreiðslu og bjórgerðar og ljóst er að gífurleg tækifæri felast í því fyrir íslenska matvöruframleiðendur og brugghús að nota íslenskt bygg.

Repja.
    Á Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum hefur um árabil verið ræktuð repja og er sú repja notuð til að framleiða repjuolíu til manneldis svo og bíódísil. Þannig geta bændur þar breytt repjunni í bíódísil og notað hann bæði á vinnuvélarnar og vélarnar sem þurrka kornið. Þar er komin sjálfbær og vistvæn hringrás í framleiðslu. Nú þegar er kominn upp skortur á repjuolíu á heimsmarkaði og tækifæri fyrir okkur að rækta og framleiða okkar eigin repjuolíu sem mikið er notuð við matreiðslu og mögulegt er að nota til að knýja farartæki og vélar.

Innviðir og markaðsskilyrði.
    Meðal flestra þjóða eru starfandi kornsamlög sem hafa tök á að geyma miklar birgðir af korni. Slík samlög auka fæðuöryggi til muna. Félög þessi kaupa korn frá bændum samkvæmt verðskrá, þurrka það og selja til kaupenda, t.d. til möltunar, fóður- eða matargerðar. Félögin eru ýmist í einkaeigu eða eru rekin sem samvinnufélög. Lager félaganna getur orðið stór og skapað tækifæri fyrir fjárfesta til að festa fé tímabundið í kornvöru á svokölluðum hrávörumörkuðum. Ekkert kornsamlag er starfrækt á Íslandi og því er um markaðsbrest að ræða, enda er eftirspurn eftir vörunni mikil en framboðið lítið sem ekkert. Þetta mætti bera saman við aðstæður þar sem íslensk mjólkur- og kjötframleiðsla hefði ekki sláturfélög og mjólkursamlög til að kaupa og vinna vörur bænda.
    Þeir Helgi Eyleifur Þorvaldsson, Hrannar Smári Hilmarsson og Egill Gautason kölluðu eftir því í grein sem birtist í Bændablaðinu í apríl sl. að ríkið framkvæmi fýsileikagreiningu á eflingu kornmarkaðar með stofnun íslensks kornsamlags. „Í slíkri greiningu þyrfti að kanna áhuga bænda til verkefnisins, mögulega staðsetningu, kostnað við uppbyggingu, möguleg rekstrar- og viðskiptaform, eignarhald, sölumöguleika og fleira, ásamt hefðbundnum áhættumatsgreiningum. Mikilvægt væri að leita ráðgjafar frá erlendum aðilum sem þekkja til slíkrar starfsemi. Fordæmi eru fyrir þessari leið en ríkið hefur áður komið að skipulagningu og lagasetningu um afurðasölu bænda til hagsbóta fyrir almenning og bændur. Að okkar mati er þetta mál mikilvægt fyrir þjóðaröryggi og skref til aðlögunar íslensks landbúnaðar að loftslagsbreytingum. Undirritaðir hafa sent minnisblað til matvælaráðherra um mál þetta.“ ( Bændablaðið, 7. tölublað 2022.)

Aukin kornrækt liður í Parísarsamkomulaginu.
    Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur hvatt ríki heims til að minnka neyslu dýraafurða verulega vegna heilsufars- og umhverfisþátta. Rannsóknir hafa sýnt að búfénaður í landbúnaði, sem samanstendur af nautgriparækt, svínarækt, sauðfjárrækt og kjúklingarækt, stuðlar að 18% af allri losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum eða meira en samanlagðri losun allra vélknúinna ökutækja á jörðinni, sem nemur um 13% af heildarlosun. Ef hliðarafurðir landbúnaðarins eru teknar með í reikninginn fer hlutfall heildarlosunar upp í 51% (byggt á gögnum frá Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna). Talið er að losun landbúnaðarins á gróðurhúsalofttegundum muni vaxa að óbreyttu um 80% til ársins 2050. Þetta er óhugnanlegt þegar haft er í huga hversu miklum tíma og fjármunum er varið í fjárfestingu og þróun á nýrri umhverfisvænni tækni í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.
    Lítil tækifæri eru í dag fyrir starfandi bændur til að rækta annað en dýraafurðir og lítill áhugi er meðal ungs fólks að taka við slíkum rekstri. Við teljum hvata til nýsköpunar og plönturæktunar kjörið tækifæri til að efla áhuga bænda og ungs fólks á landbúnaði og nýsköpun honum tengdri. Í kjölfar Parísarsáttmálans sem undirritaður var í desember 2015, þegar ríki heims skuldbundu sig til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og setja fram aðgerðir og mæla árangur þeirra, hafa mörg ríki tekið skref til vistvænni neysluhátta. Þar erum við eftirbátur annarra Evrópuríkja og brýnt að við bregðumst við.
    Fæðuöryggi er skilgreint sem réttur allra til að hafa ávallt raunverulegan og efnahagslegan aðgang að nægum, öruggum og næringarríkum matvælum til að uppfylla næringarþarfir sínar með frjálsu fæðuvali, til að geta lifað virku og heilsusamlegu lífi. Nú þegar er framleitt á Íslandi nægt magn og umfram það af dýraafurðum eins og kjöti, fiski og mjólkurafurðum og löngu orðið tímabært að leggja áherslu á kornvöru og grænmeti. Við búum á afskekktri eyju og erum þannig berskjölduð fyrir náttúruhamförum, styrjöldum og kreppum sem gætu hamlað innflutningi og ætti efling kornræktar á Íslandi því að vera í forgangi.