Ferill 136. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 136  —  136. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um framhaldsfræðslu, nr. 27/2010 (stjórn Fræðslusjóðs).

Frá félags- og vinnumarkaðsráðherra.


1. gr.

    Í stað orðanna „málefni vinnumarkaðar“ í 2. málsl. 1. mgr. 11. gr. laganna kemur: mál er varða fræðslumál.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Í 1. mgr. 11. gr. laga um framhaldsfræðslu, nr. 27/2010, er kveðið á um að ráðherra skipi Fræðslusjóði níu manna stjórn til fjögurra ára í senn. Jafnframt er kveðið á um að formaður skuli skipaður án tilnefningar, Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins skuli tilnefna tvo fulltrúa hvort, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og Félag íslenskra framhaldsskóla skuli tilnefna einn fulltrúa hvort, það ráðuneyti er fer með starfsmannamál ríkisins og Samband íslenskra sveitarfélaga skuli tilnefna einn fulltrúa sameiginlega og að sá ráðherra er fer með málefni vinnumarkaðar skuli tilnefna einn fulltrúa. Þá er kveðið á um að varamenn skuli skipaðir á sama hátt.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Með forsetaúrskurði nr. 6/2022, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, fluttist málaflokkur framhaldsfræðslu og málefni Fræðslusjóðs til félags- og vinnumarkaðsráðuneytis frá þáverandi mennta- og menningarmálaráðuneyti. Lög um framhaldsfræðslu, nr. 27/2010, falla því undir málefnasvið félags- og vinnumarkaðsráðherra.
    Í ljósi framangreinds skipar félags- og vinnumarkaðsráðherra formann stjórnar Fræðslusjóðs, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga um framhaldsfræðslu, og þykir því mikilvægt að breyta umræddu ákvæði laganna þannig að sá ráðherra sem fer með mál er varða fræðslumál skipi einn fulltrúa í stjórn Fræðslusjóðs í stað þess ráðherra sem fer með málefni vinnumarkaðar líkt og kveðið er á um í gildandi ákvæði. Þykir þetta mikilvægt í því skyni að tryggja þeim ráðherra sem fer með mál er varða fræðslumál samkvæmt fyrrnefndum forsetaúrskurði aðkomu að stjórn Fræðslusjóðs.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að í stað þess að í 2. málsl. 1. mgr. 11. gr. laga um framhaldsfræðslu, nr. 27/2010, sé kveðið á um að sá ráðherra sem fer með málefni vinnumarkaðar skuli tilnefna einn fulltrúa í stjórn Fræðslusjóðs verði kveðið á um að sá ráðherra sem fer með mál er varða fræðslumál skuli tilnefna einn fulltrúa í stjórn sjóðsins.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarps þessa gefur ekki tilefni til sérstaks mats á samræmi við ákvæði stjórnarskrár eða alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Frumvarp þetta var samið í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu. Þar sem efni frumvarpsins lýtur einungis að því að tryggja þeim ráðherra sem fer með mál er varða fræðslumál samkvæmt forsetaúrskurði nr. 6/2022, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, aðkomu að stjórn Fræðslusjóðs þótti nægjanlegt að kynna öðrum ráðuneytum áform um gerð frumvarpsins og var frumvarpið því ekki kynnt sérstaklega í opnu umsagnarferli í samráðsgátt stjórnvalda.

6. Mat á áhrifum.
    Verði frumvarp þetta óbreytt að lögum verður þeim ráðherra sem fer með mál er varða fræðslumál tryggð aðkoma að stjórn Fræðslusjóðs.
    Ekki er gert ráð fyrir að þær breytingar sem mælt er fyrir um í frumvarpi þessu hafi fjárhagsáhrif á ríkissjóð.
    Þá er ekki gert ráð fyrir að efni frumvarps þessa hafi mismunandi áhrif á stöðu kynjanna. Á það ekki síst við þar sem í 2. mgr. 28. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020, er kveðið á um að þegar tilnefnt er í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skuli tilnefna bæði karl og konu. Samkvæmt ákvæðinu er tilnefningaraðila þó heimilt að víkja frá því þegar hlutlægar ástæður leiða til þess að það er ekki mögulegt. Skal tilnefningaraðili þá skýra ástæður þess að vikið er frá þeirri skyldu að tilnefna bæði karl og konu.