Ferill 139. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 139  —  139. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um rannsóknasetur öryggis- og varnarmála.


Flm.: Njáll Trausti Friðbertsson, Óli Björn Kárason, Bryndís Haraldsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Haraldur Benediktsson, Guðrún Hafsteinsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela utanríkisráðherra að hafa forgöngu um gerð samnings við Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands um sjálfstætt rannsóknasetur um öryggis- og varnarmál.

Greinargerð.

    Lýðræðisríki læra og laga sig að breyttum veruleika. Þann styrk verður íslenska þjóðin að nýta sér í þágu eigin öryggis á grundvelli þekkingar sem reist er á fræðilegum grunni og fenginni reynslu. Önnur vopn hefur hún ekki. Er því lagt til að undir handarjaðri Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands starfi sjálfstætt rannsóknasetur um öryggis- og varnarmál (RÖV) á grundvelli samnings við utanríkisráðuneytið.
    Til að rannsóknasetrið sé starfhæft þarf að tryggja grunnfjárveitingu af hálfu ríkisins vegna tveggja starfsmanna við setrið. Á setrinu verði stundaðar rannsóknir sem nýtast á hagnýtan og fræðilegan hátt fyrir þá sem undirbúa og taka ákvarðanir um hernaðarlegt og borgaralegt öryggi. Setrið verði fræðilegur og hagnýtur samstarfsvettvangur þeirra sem standa að samhæfingarstöð um almannavarnir auk öryggisdeilda einkarekinna fyrirtækja. Starfsmenn ráðuneyta og stofnana geti nýtt setrið til að dýpka eða víkka þekkingu sína. Þá tengist setrið erlendum rannsóknarstofnunum sjálfstætt og í alþjóðlegu samstarfsneti Alþjóðamálastofnunar HÍ. Rannsóknarstjóri stjórni setrinu og verði starf hans auglýst. Setrið hafi aðstöðu í húsnæði Alþjóðamálastofnunar. Setrið beiti sér fyrir útgáfu efnis á íslensku og ensku, standi að opinberum fyrirlestrum og málþingum, eitt eða í samvinnu við aðra.
    Að tillögunni samþykktri verði veitt fé á fjárlögum ársins 2023 til að stíga megi fyrstu skref til að undirbúa samning utanríkisráðuneytisins og Alþjóðamálastofnunar HÍ um RÖV. Höfð verði hliðsjón af skipulagi og þróun sambærilegra rannsóknasetra annars staðar á Norðurlöndunum og í Eystrasaltslöndunum.
    Innrás Rússa í Úkraínu 24. febrúar gjörbreytti þróun öryggis- og varnarmála í Evrópu, á Norður-Atlantshafi og norðurslóðum. Innrásin setur svip sinn á nýja grunnstefnu NATO sem samþykkt var í Madríd 29. júní 2022 og á sameiginlega yfirlýsingu um norræna samvinnu í öryggis- og varnarmálum sem gefin var út 15. ágúst af forsætisráðherrum Norðurlandanna.
    Í norrænu yfirlýsingunni segir meðal annars að viðnámsþróttur norrænu samfélaganna skuli efldur á friðartímum, í hættuástandi og átökum með „sameiginlegu stöðumati, samvinnu í allsherjarvörnum, hagvörnum og viðnámsþrótti gagnvart skaðvænlegum aðgerðum á borð við netárásir og fjölþátta ógnir.“ Virk þátttaka Íslendinga í svo víðtæku samstarfi verður ekki tryggð án þess að hér séu stundaðar fræðilegar rannsóknir á þessum sviðum í samvinnu við norrænar stofnanir. Íslendingar eiga beinlínis á hættu að einangrast á þessu nýja norræna samstarfssviði sé ekki stutt við starfsemi á borð við þá sem eðlilegt er að unnin sé á vegum RÖV.
    Á níunda áratug 20. aldar starfaði öryggismálanefnd á vegum forsætisráðuneytisins með fulltrúum þingflokka. Vegna starfa hennar varð til sérfræðiþekking og miðlun hennar jók gagnkvæman skilning milli flokka í kalda stríðinu. Nefndin var lögð niður þegar því lauk.
Alþingi ályktaði 30. mars 2009 að fela ríkisstjórn Íslands að kanna grundvöll þess að setja á stofn sjálfstætt rannsóknasetur á sviði utanríkis- og öryggismála. Ríkisstjórnin fól nefnd allra þingflokka sem skipuð var í janúar 2012 á grundvelli þingsályktunar frá september 2011 um mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland að huga að framkvæmd tillögunnar.
    Í tillögum nefndarinnar um þjóðaröryggisstefnu frá 20. febrúar 2014 segir: „Telur nefndin ekki forsendur fyrir því að setja á fót slíkt setur við núverandi aðstæður, einkum af fjárhagsástæðum. Verður því fyrsta kastið að byggja á þeirri þekkingu og reynslu sem fyrir er. Þar er nærtækast að horfa til háskóla- og fræðasamfélagsins. Þegar aðstæður leyfa og fjármunir eru fyrir hendi telur nefndin rétt að skoða á ný stofnun slíks sérfræðiseturs.“
    Í 6. tölul. þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland sem Alþingi samþykkti 13. apríl 2016 segir að stefnan feli í sér: „Að tryggja að í landinu séu til staðar varnarmannvirki, búnaður, geta og sérfræðiþekking til að mæta þeim áskorunum sem Ísland stendur frammi fyrir í öryggis- og varnarmálum og til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar Íslands.“
    Þessi ályktun snýr að því að tryggja að í landinu sé fyrir sérfræðiþekkingin sem er einn af hornsteinum þjóðaröryggisstefnunnar.