Ferill 147. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 148  —  147. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um fjármögnun á tækjakosti til bráðagreiningar á heilsugæslunni á Egilsstöðum.


Flm.: Berglind Harpa Svavarsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Berglind Ósk Guðmundsdóttir, Haraldur Benediktsson, Guðrún Hafsteinsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að tryggja fjármuni til kaupa á nauðsynlegum tækjakosti fyrir heilsugæsluna á Egilsstöðum svo að þar sé hægt að bráðagreina til fulls heilsufar einstaklinga. Ráðherra geri Alþingi grein fyrir framgangi málsins á yfirstandandi löggjafarþingi.

Greinargerð.

    Tillaga þessa efnis var áður flutt á 152. löggjafarþingi (399. mál).
    Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að heilbrigðisráðherra verði falið að tryggja fjármagn til kaupa á nauðsynlegum greiningartækjum fyrir heilsugæsluna á Egilsstöðum til fullbráðagreiningar. Sjúklingum eru tryggð tiltekin réttindi í lögum um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997, m.a. um að allir sjúklingar eigi rétt á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma er völ á að veita. Á Egilsstöðum er alþjóðaflugvöllur/sjúkraflugvöllur en lengsta flugleið sjúkraflugs er frá Egilsstöðum til Reykjavíkur, um 400 km. Fjórðungssjúkrahúsið á Austurlandi er í Neskaupstað, 68 km frá Egilsstöðum. Vegna bið- og ferðatíma sem fylgir sjúkraflugi til Reykjavíkur er mikilvægt að hægt sé að fullbráðagreina heilsufar á sem skemmstum tíma en skortur er á nauðsynlegum bráðagreiningartækjum á Egilsstöðum. Þar sárvantar sneiðmyndatæki og fleiri smærri tæki til að vita stöðu heilsufars á sem skemmstum tíma. Mikilvægt er að sérfræðingar í bráðaþjónustu ráðleggi á hvaða tækjabúnaði sé einnig nauðsynlegt að festa kaup til þess að hægt sé að bregðast fljótt við með fullbráðagreiningu.
    Í dag þarf að keyra frá Egilsstöðum 68 km leið á Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað í fullbráðagreiningu og svo aftur til Egilsstaða í sjúkraflug. Fjórðungssjúkrahús eru vel tækjum búin, en sökum staðsetningar Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað er einnig lífsnauðsynlegt að tæki til fullbráðagreiningar séu við sjúkraflugvöllinn á Egilsstöðum, sökum staðsetningar hans miðlægt á Austurlandi. Langt ferðalag einstaklinga í bráðafasa til greiningar getur lagt líf og heilsu þeirra í hættu. Oft fara þeir beint í sjúkraflug með óvissu um heilsufarsástand sem hefði þurft að bregðast strax við með lyfjum í kjölfar greiningar með tækjum sem vantar, til að tryggja líf þeirra og heilsu.
    Við innvortis blæðingar er mikilvægt að komast að sérhæfðri heilbrigðisþjónustu á sem skemmstum tíma. Sneiðmyndatæki greinir innvortis blæðingar sem geta orðið, t.d. vegna áverka, og við einkenni heilablæðingar er lykilatriði að greina blóðtappa til að lyfjagjöf megi fara fram til að leysa blóðtappann. Að koma blóðflæði aftur af stað þarf að gerast á sem skemmstum tíma frá upphafi einkenna svo að sjúklingur haldi lífi og lífsgæðum.
    Kaup á greiningartækjum er lífsspursmál fyrir íbúa á Austurlandi. Tækin spara tíma í greiningarferli og eru grundvöllur snemmtækra viðbragða sem auka líkurnar á að einstaklingar haldi lífi sínu og heilsu. Tækjakaupin munu líklega einnig leiða til sparnaðar, fækka sjúkraflugferðum vegna vissu um heilsufar og að ekki þurfi að kalla til sjúkraflugs í sumum tilvikum fullbráðagreininga.
    Á haustþingi SSA á Borgarfirði eystri 12. október 2019 lögðu öll sveitarfélög á Austurlandi fram sameiginlega bókun: „Lögð verði sérstök áhersla á eflingu frumgreininga í bráðatilvikum með kaupum á nauðsynlegum greiningartækjum á heilsugæslum staðsettum í nánd við sjúkraflugvelli.“
    Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er einnig að finna vilja til að efla verulega heilbrigðisþjónustu við landsbyggðina með fjarheilbrigðisþjónustu og öflugum tækjakosti og það rímar vel við áherslur þessarar þingsályktunartillögu.