Ferill 155. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 156  —  155. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um niðurfellingu námslána.


Flm.: Björn Leví Gunnarsson, Andrés Ingi Jónsson, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Gísli Rafn Ólafsson, Halldóra Mogensen, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að leggja til breytingu á lögum um Menntasjóð námsmanna, nr. 60/2020, til þess að heimila niðurfellingu námslána, að hluta eða að öllu leyti, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum sem geta verið almenn, eins og að umbreyta hluta af eldri lánum í námsstyrk, vegna efnahagsástands, eða sértæk eins og vegna alvarlegra og varanlegra veikinda lántaka.
    Ráðherra leggi frumvarp þessa efnis fyrir Alþingi á vorþingi 2023.

Greinargerð.

    Námslán og námsstyrkur er fjárfesting hins opinbera í menntun landsmanna. Sú fjárfesting er ekki ólík styrkjum til nýsköpunar. Það er ekki óalgengt að nýsköpunarverkefni heppnist ekki sem skyldi, en það kemur ekki í veg fyrir áframhaldandi styrki til nýsköpunar, því á heildina litið er sú fjárfesting arðbær. Sama gildir um námsstyrki.
    Með nýjum lögum um Menntasjóð námsmanna bættist við heimild til þess að umbreyta hluta af námsláni í námsstyrk að uppfylltum ákveðnum skilyrðum að námi loknu. Tillaga þessi snýr að því að allir lántakar, óháð því hvenær þeir tóku námslán, fái möguleika á sambærilegri niðurfellingu námsláns vegna almennra eða sértækra ástæðna. Stundum gerast óvæntir atburðir sem leiða til erfiðleika við að standa skil á greiðslu námslána eða breyta forsendum þess að hægt sé að hagnýta námið. Það væri eðlilegt að í slíkum kringumstæðum væri til lagaheimild til þess að fella niður lán að hluta eða að öllu leyti.