Ferill 163. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
2. uppprentun.

Þingskjal 164  —  163. mál.
Flutningsmenn.




Tillaga til þingsályktunar


um heimild til rannsókna og notkunar á efninu sílósíbíni í geðlækningaskyni.


Flm.: Vilhjálmur Árnason, Jakob Frímann Magnússon, Ásmundur Friðriksson, Óli Björn Kárason, Berglind Ósk Guðmundsdóttir, Bergþór Ólason, Andrés Ingi Jónsson, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Gísli Rafn Ólafsson, Halldóra Mogensen, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Hanna Katrín Friðriksson, Sigmar Guðmundsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Helga Vala Helgadóttir, Jóhann Friðrik Friðriksson, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Guðmundur Ingi Kristinsson, Inga Sæland, Tómas A. Tómasson, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra, í samstarfi við aðra ráðherra er málið snertir, að undirbúa og leggja til nauðsynlegar breytingar, hvort sem er á lögum, reglugerðum eða með öðrum hætti, sem heimila rannsóknir og tilraunir með hugvíkkandi efnið sílósíbín í geðlækningaskyni og skapa skýra umgjörð fyrir sérhæfða meðferðaraðila um notkun efnisins í þeim tilgangi. Tillögur ráðherra liggi fyrir eigi síðar en á vorþingi 2023.

Greinargerð.

    Markmið tillögunnar er að Ísland verði leiðandi í rannsóknum á gagnsemi hugvíkkandi efna í geðlækningaskyni, en alþjóðlegar rannsóknir benda til þess að umrædd efni geti valdið straumhvörfum í meðhöndlun geðraskana. Markmið tillögunnar er jafnframt að rannsóknir og tilraunir með hugvíkkandi efni í geðlækningaskyni verði alfarið í höndum fagfólks í heilbrigðisþjónustu.
    Hugvíkkandi efni á borð við sílósíbín (psilocybin), sem er virka efnið í um 250 mismunandi sveppategundum, falla í dag undir skilgreiningu 1. mgr. 2. gr. laga um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, og er varsla slíkra efna þar af leiðandi óheimil. Síðustu ár hefur rannsóknum á hugvíkkandi efnum, sér í lagi sílósíbíni, fleygt fram samhliða aukinni notkun efnanna. Bandarísk rannsókn sem unnin var af hópi þarlendra fræðimanna, m.a. við Harvard-háskóla, og birt á vegum The National Library of Medicine árið 2021 bendir til þess að möguleikar sílósíbíns í geðlækningaskyni séu miklir. Fordómar gagnvart notkun efnisins séu þó töluverðir og brýnt að vinna á þeim bug svo að unnt sé að stunda frekari og útbreiddari rannsóknir á efninu. Í Bandaríkjunum hafa stjórnvöld skilgreint sílósíbín sem ólöglegt ávana- og fíkniefni frá árinu 1971, en notkun efnisins var útbreidd vestan hafs á sjöunda áratugnum.
    Rannsókn sem gerð var af fræðimönnum við læknadeild John Hopkins-háskóla bendir til þess að hægt sé að draga verulega úr alvarlegum einkennum þunglyndis með notkun sílósíbíns. Rannsókn fræðimanna við New York-háskóla (NYU) bendir og til þess að notkun efnisins við meðferð vegna áfallastreituröskunar og annarrar úrvinnslu áfalla geti verið gagnleg. Þá benda niðurstöður klínískrar rannsóknar, sem greint var frá í JAMA, tímariti bandarísku læknasamtakanna, fyrr á þessu ári til að sílósíbín skili árangri við að hjálpa ofdrykkjufólki að draga úr áfengisneyslu eða hætta alfarið. Rannsóknir á notkun sílósíbíns við líknandi meðferð eða lífslokameðferð hafa einnig verið fyrirferðarmiklar á síðustu árum. Alls tóku 10 lönd og um 230 einstaklingar þátt í öðrum fasa rannsóknar breska lyfjafyrirtækisins COMPASS Pathways á meðferð við þrálátu þunglyndi með sílósíbíni, þeirra á meðal Bretland, Danmörk og Þýskaland. Fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að sílósíbín sé hvort tveggja öruggt og skilvirkt í geðlækningaskyni, að því gefnu að meðferð sé stýrt og fylgt eftir af sérhæfðu heilbrigðisstarfsfólki. Áætlað er að þriðji fasi sömu rannsóknar hefjist veturinn 2022–2023 í a.m.k. 15 löndum og gert er ráð fyrir þátttöku allt að 700 einstaklinga.
    Í fréttaskýringaþætti Kveiks, sem sýndur var á Ríkisútvarpinu í febrúar 2022, var fjallað um þá möguleika sem felast í notkun sílósíbíns í geðlækningaskyni. Rætt var við dr. David Nutt, prófessor í taugageðlyfjafræði við Imperial-háskólann í Lundúnum, en Nutt hefur ásamt fleirum stundað leiðandi rannsóknir á notkun hugvíkkandi efna í geðlækningaskyni í tvo áratugi. Nutt telur notkun hugvíkkandi efna eiga eftir að bylta geðlækningum á næstu áratugum séu efnin notuð rétt. Þá bendir Nutt á að sílósíbín hafi verið notað árþúsundum saman og að fengin reynsla sýni að efnið sé öruggt til notkunar.
    Í umfjöllun Kveiks var einnig rætt við Víði Sigrúnarson, geðlækni á sjúkrahúsinu Vogi, sem bendir á að sílósíbín sé ekki ávanabindandi og því sé hætta á að einstaklingar ánetjist efninu takmörkuð. Víðir segir efnið þó ekki hættulaust, sér í lagi ef þess er neytt samhliða annars konar efnum. Einstaklingar leiti þó ekki á Vog vegna neyslu sílósíbíns eingöngu. Þá varar Víðir við neyslu sílósíbíns án samráðs við fagfólk, enda geti efnið til að mynda leitt til þess að einstaklingar með undirliggjandi eða ógreinda geðsjúkdóma fari í geðrof við eða í kjölfar neyslu sílósíbíns.
    Pétur Henry Petersen, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands og sérfræðingur í taugavísindum, varaði við því í útvarpsþættinum Harmageddon á útvarpsstöðinni X-inu haustið 2020 að einstaklingar neyttu sílósíbíns á eigin vegum líkt og er algengt. Pétur sagði þær rannsóknir sem gerðar hefðu verið á notkun efnisins mismunandi að gæðum og umfangi, en að flestar bentu þær til að efnið mætti nota í meðferðarskyni við ýmsum geðsjúkdómum, til að mynda þunglyndi, lystarstoli og fíknivanda. Pétur sagði mikilvægt að gerðar væru rannsóknir á efninu svo að áhrif þess yrðu betur skýrð.
    Flutningsmenn tillögunnar telja brýnt að rannsóknir á notkun sílósíbíns í geðlækningaskyni verði alfarið framkvæmdar á vegum fagfólks og að kannað verði til þrautar hvort efnið geti valdið þeim straumhvörfum í geðlækningum sem ýmsir fræðimenn hafa boðað. Ávinningurinn gæti orðið verulegur, ekki síst á Íslandi þar sem um 60.000 einstaklingar glíma við geðræn vandamál. Geðlyfjanotkun á Íslandi hefur rúmlega tvöfaldast á síðustu 15 árum. Árið 2005 var 627 skömmtum af geðlyfjum ávísað á hverja 100.000 íbúa, en árið 2020 voru skammtarnir orðnir 1.317. Talið er að hefðbundin þunglyndislyf gagnist ekki í um þriðjungi tilfella.