Ferill 227. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 228  —  227. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög og lögum um ársreikninga (hluthafafundir o.fl.).

Frá menningar- og viðskiptaráðherra.I. KAFLI

Breyting á lögum um hlutafélög, nr. 2/1995.

1. gr.

    Við 80. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Í félögum þar sem hlutir hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum markaði er heimilt að kveða á um það í samþykktum að hluthafi skuli tilkynna félaginu þátttöku sína á hluthafafundi innan tiltekins frests fyrir fundinn. Sá frestur skal þó eigi vera lengri en ein vika. Fundarboð skal innihalda upplýsingar um skráningardag. Atkvæðisréttur hluthafa á fundinum fer eftir fjölda hluta á því tímamarki þegar skráningarfresti lýkur.

2. gr.

    Á eftir 2. málsl. 2. mgr. 86. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Í samþykktum þess konar félaga er heimilt að kveða á um að frestur til að gera kröfu sé rýmri, en fresturinn telst þó aldrei liðinn fyrr en viku eftir að gögn skv. 4. mgr. 88. gr. hafa verið birt.

3. gr.

    Við 1. mgr. 88. gr. a laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Til aðalfundar í félögum þar sem hlutir hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum markaði skal boða minnst þremur vikum fyrir fund og lengst sex vikum fyrir fund.

4. gr.

    Við 3. mgr. 108. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Að ári liðnu frá afskráningu er hlutafélagaskrá heimilt að gera þá kröfu að bú hlutafélags verði tekið til skipta í samræmi við 109. gr., enda hafi þá ekki borist beiðni um að félagið verði skráð á nýjan leik.

II. KAFLI

Breyting á lögum um einkahlutafélög, nr. 138/1994.

5. gr.

    Við 3. mgr. 83. gr. laganna bætist nýr málsliður svohljóðandi: Að ári liðnu frá afskráningu er hlutafélagaskrá heimilt að gera þá kröfu að bú einkahlutafélags verði tekið til skipta í samræmi við 84. gr., enda hafi þá ekki borist beiðni um að félagið verði skráð á nýjan leik.

III. KAFLI

Breyting á lögum um ársreikninga, nr. 3/2006.

6. gr.

    Í stað orðanna „VIII. kafla“ í 2. málsl. 66. gr. b laganna kemur: viðeigandi reikningsskilastaðla.

7. gr.

    4. málsl. 1. mgr. 109. gr. laganna orðast svo: Ársreikningum og samstæðureikningum skal skilað rafrænt til ársreikningaskrár í samræmi við reglur sem ársreikningaskrá setur.

8. gr.

    Við 1. mgr. 121. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ekki er unnt að skjóta ákvörðun ársreikningaskrár um að krefjast skipta á búi félags til æðra stjórnvalds.

9. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði 7. gr. kemur til framkvæmda fyrir reikningsár sem hefst 1. janúar 2022 eða síðar.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og síðar menningar- og viðskiptaráðuneytinu. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um hlutafélög, nr. 2/1995, lögum um einkahlutafélög, nr. 138/1994, og lögum um ársreikninga, nr. 3/2006. Í frumvarpinu er í fyrsta lagi að finna tillögur að breytingu á lögum um hlutafélög þar sem félögum þar sem hlutir hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum markaði er heimilað að ákveða í samþykktum sínum tiltekin atriði er varða hluthafafundi, þ.m.t. aðalfundi. Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög þess efnis að hafi félag þegar verið afskráð samkvæmt heimild í lögunum sé hlutafélagaskrá heimilt að krefjast skipta á félaginu að liðnu ári frá afskráningu enda hafi þá ekki borist beiðni um að félagið verði skráð á nýjan leik. Í þriðja lagi eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um ársreikninga en m.a. er lagt til að ársreikningum skuli skila á rafrænu formi en gert er ráð fyrir að breytingin komi til framkvæmda fyrir reikningsár sem hefst 1. janúar 2022 eða síðar.
    Frumvarpið var lagt fram á 152. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga og er nú lagt fram að nýju óbreytt.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
2.1. Breytingar á lögum um hlutafélög – Hluthafafundir.
2.1.1. Þátttaka hluthafa í hluthafafundi.
    Í 1. og 2. mgr. 80. gr. laga um hlutafélög er kveðið á um að hluthafafundur fari með æðsta vald í málefnum hlutafélags samkvæmt því sem lög og samþykktir félags ákveða og að á hluthafafundum fari hluthafar með ákvörðunarvald sitt í málefnum félagsins. Í 3. mgr. 80. gr. laganna segir að öllum hluthöfum sé heimilt að sækja hluthafafund og taka þar til máls. Ráðuneytinu hafa borist ábendingar þess efnis að það geti verið vandkvæðum bundið að undirbúa fund og koma upplýsingum á framfæri við hluthafa nægilega tímanlega fyrir hluthafafund þegar fundurinn er haldinn rafrænt annaðhvort að hluta til eða eingöngu. Á þetta einkum við í tilfellum félaga þar sem hlutir hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum markaði og þegar um er að ræða hluthafa sem búsettir eru erlendis og taka þátt í fundinum í gegnum rafræna miðla.
    Í frumvarpi því er varð að lögum nr. 32/1978, um hlutafélög, var í 3. mgr. 60. gr. lagt til að félagi yrði veitt heimild til að ákveða í samþykktum að hluthafi yrði að tilkynna þátttöku sína í hluthafafundi innan ákveðins tíma fyrir fund, sem ekki skyldi vera lengri en þrír sólarhringar, ef hann vildi tryggja sér rétt til fundarsetu. Í athugasemdum með frumvarpinu sagði að ákvæðinu væri ætlað að veita stjórn möguleika á hæfilegum tíma fyrir hluthafafund til undirbúnings hans. Framangreindu ákvæði var breytt við þinglega meðferð frumvarpsins og ákvæðinu breytt í núverandi horf. Í nefndaráliti fjárhags- og viðskiptanefndar efri deildar Alþingis (99. löggjafarþing, mál 49, þingskjal 476) sagði um breytinguna að ákvæðið þætti óheppilegt og fæli í sér of mikla skerðingu á rétti hluthafa. Hvað sem líður þessum ummælum standa ákveðin rök til þess að hlutafélög geri hluthöfum skylt að tilkynna þátttöku sína á hluthafafundi, þ.m.t. aðalfundi, enda munu þess vera ýmis dæmi úr framkvæmdinni þótt þessi möguleiki sé ekki orðaður berum orðum í lögunum.
    Í dönskum hlutafélagalögum Lov om aktie- og anpartsselskaber (selskabsloven) LOV nr. 470/2009 er í 1. mgr. 84. gr. að finna ákvæði þess efnis að í hlutafélögum (d. aktieselskaber ) þar sem hlutir hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum markaði skuli hluthafi skrá þátttöku sína í aðalfundi viku fyrir fundinn og að atkvæðavægi á fundinum miðist við skráningardagsetninguna. Þó er heimilt að ákveða í samþykktum framangreindra félaga að skráning skuli fara fram ekki síðar en þremur dögum fyrir fundinn. Í 2. mgr. 84. gr. er að finna nánari reglur um það við hvaða tímamark skuli miða til að ákvarða hlutafjáreign hvers hluthafa. Í 3. mgr. sömu greinar er að finna ákvæði sem heimilar öðrum hlutafélögum (d. aktieselskaber, som ikke har aktier optaget til handel på et reguleret marked, og i anpartsselskaber) að ákveða í samþykktum sínum að ákvæði 1. og 2. mgr. ákvæðisins skuli gilda eftir því sem við á.
    Í sænsku hlutafélagalöggjöfinni Aktiebolagslag (2005:551) er í 2. gr. 7. kafla kveðið á um að ákveða megi í samþykktum félags að hluthafi verði að tilkynna þátttöku sína á aðalfund félagsins eigi síðar en þann dag sem tilgreindur er í fundarboði sem síðasti skráningardagur til þátttöku á fundinum en þann dag megi ekki bera upp á sunnudag, aðra almenna frídaga, laugardag, sumarsólstöður, aðfangadag eða gamlársdag og skuli vera fimm dögum fyrir aðalfundinn.
    Í norsku hlutafélagalöggjöfinni Lov om allmennaksjeselskaper (allmennaksjeloven) LOV-1997-06-13-45 er kveðið á um að ákveða megi í samþykktum hlutafélags að hluthafi skuli tilkynna félaginu þátttöku á aðalfundi félags innan tiltekins tíma en sá tími skal ekki vera lengri en fimm dagar fyrir fundinn og skal tímamarkið tilgreint í fundarboði.
    Í framangreindum ákvæðum danskra, sænskra og norskra laga um hlutafélög er hlutafélögum fengin heimild til að mæla svo fyrir í samþykktum sínum að hluthafi tilkynni um þátttöku sína á aðalfundi með 5–7 daga fyrirvara. Í þessu frumvarpi er lagt til að binda heimildina við félög sem fengið hafa hluti sína tekna til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði og að heimildin nái ekki aðeins til aðalfunda, eins og í þeirri norrænu löggjöf sem hér hefur verið vitnað til, heldur til hluthafafunda almennt. Samkvæmt þessu er lagt til að félög þar sem hlutir hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum markaði geti ákveðið í samþykktum sínum að hluthafi skuli tilkynna félaginu þátttöku sína á hluthafafundi innan ákveðins tíma fyrir fundinn, þó aldrei lengri en einni viku fyrir fundinn. Þykir rétt að taka þetta berum orðum fram í lögunum og heimila þessum félögum að ákveða sjálfum innan tiltekinna marka hvort hagsmunir hluthafa séu betur tryggðir með skráningu þeirra á hluthafafund.

2.1.2. Mál til meðferðar á hluthafafundi, þ.m.t. aðalfundi.
    Í 2. mgr. 86. gr. laga um hlutafélög er sett fram sú meginregla að hluthafar í félögum þar sem hlutir hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum markaði skuli skila inn kröfu um að fá mál tekið fyrir á hluthafafundi, eða drög að ályktun til félagsstjórnar, eigi síðar en viku fyrir boðun aðalfundar. Kröfu má gera síðar en þó í síðasta lagi tíu dögum fyrir aðalfundinn. Með þessu móti er tryggt að hluthafar hafi ráðrúm til að bregðast við tillögum stjórnar til hluthafafundar sem að jafnaði eru birtar að lágmarki þremur vikum fyrir fundinn. Skv. 4. mgr. 88. gr. laganna skal endanleg dagskrá og tillögur fyrir fundinn birt viku fyrir hluthafafund. Framangreindur viku fyrirvari til að birta endanlega dagskrá og tillögur getur reynst skammur í tilviki félaga þar sem hlutir hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum verkbréfamarkaði þegar hluthafar taka þátt í hluthafafundi rafrænt og skila inn atkvæði sínu í gegnum vörsluaðila. Erlendir vörsluaðilar loka fyrir viðskipti með hluti sem atkvæðisréttur hefur verið nýttur fyrir þar til hluthafafundi er lokið. Það getur verið til hagsbóta fyrir hluthafa sem taka rafrænan þátt í hluthafafundi og skila inn atkvæði sínu í gegnum vörsluaðila að endanleg dagskrá fundar og tillögur séu birtar með lengri fyrirvara en sjö dögum fyrir fundinn.
    Til að bregðast við framangreindri stöðu er lagt til að félagi þar sem hlutir hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum markaði sé heimilt að ákveða í samþykktum sínum lengri frest til að gera kröfu um að fá mál tekið fyrir á aðalfundi. Fresturinn skal þó ekki renna út fyrr en sjö dögum eftir að gögn skv. 4. mgr. 88. gr. laga um hlutafélög hafa verið birt.
    Þessi tillaga er í samræmi við ákvæði 4. mgr. 6. gr. tilskipunar (EB) 2007/36/EB sem innleitt var með lögum nr. 126/2009 en þar er fjallað um frest fyrir hluthafa til að gera kröfu um að fá mál tekið fyrir á hluthafafundi, sem þarf að vera nægilega rúmur til þess að hluthöfum gefist ráðrúm til að veita umboð eða greiða atkvæði utan fundar.

2.1.3. Frestir til að boða til aðalfundar.
    Í 1. mgr. 88. gr. laga um hlutafélög segir: „Boða skal til hluthafafundar lengst fjórum vikum fyrir fund og, sé ekki mælt fyrir um lengri frest í félagssamþykktum, skemmst viku fyrir fund (tveimur vikum fyrir aðalfund).“ Með lögum nr. 126/2009 voru ákvæði tilskipunar (EB) 2007/36/EB innleidd og kom ákvæði 88. gr. a nýtt inn í lögin með innleiðingunni. Í 1. mgr. 88. gr. a segir: „Í félögum þar sem hlutir hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum markaði skal boða til hluthafafundar minnst þremur vikum fyrir fund.“ Í greinargerð með lögum nr. 126/2009 segir um ákvæði 1. mgr. 88. gr. a að ákvæðum 1. og 2. mgr. sé ætlað að gefa hluthöfum, einkum erlendum hluthöfum, færi á að gæta betur hagsmuna sinna og skapa þeim betri möguleika til að taka þátt í hluthafafundi og greiða þar atkvæði.
    Ákvæði um hámarksboðunarfrest kom nýtt inn með lögum nr. 32/1978, um hlutafélög, en um það segir í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 32/1978: „Ákvæði um hámarksfrest er talið nauðsynlegt, þar sem boðun með of löngum fyrirvara getur haft óhagræði í för með sér, einkum fyrir nýja hluthafa. Með reglum þessum er leitast við að tryggja hag hluthafanna jafnframt því að veita félagsstjórn möguleika á hæfilegu svigrúmi.“
    Í nágrannaríkjunum er hámarksfrestur lengri en hér á landi. Í Danmörku er hámarksboðunarfrestur félaga þar sem hlutir hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum markaði fimm vikur en lágmarksboðunarfrestur þrjár vikur. Í Svíþjóð er hámarksboðunarfrestur í hlutafélögum sex vikur en lágmarksboðunarfrestur fjórar vikur. Í Noregi er enginn hámarksboðunarfrestur en lágmarksboðunarfrestur félaga þar sem hlutir hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum markaði er þrjár vikur, nema samþykktir kveði á um annað.
    Til að gefa hluthöfum færi á að gæta hagsmuna sinna betur og skapa þeim möguleika til að sækja aðalfund og greiða þar atkvæði, sem og að færa framkvæmdina hérlendis meira til samræmis við það sem gerist í nágrannalöndunum, er lagt til að hámarksfrestur til að boða til aðalfundar í félögum þar sem hlutir hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum markaði verði lengdur úr fjórum vikum í allt að sex vikur.

2.2. Breytingar á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög.
    Heimilt er að afskrá hlutafélög eftir reglum 108. gr. laga um hlutafélög. Sambærilega heimild er að finna í 83. gr. laga um einkahlutafélög. Í greinargerð með lögum um hlutafélög, nr. 2/1995, sagði um ákvæðið að nokkur tilvik kæmu upp öðru hverju þar sem stjórnarformaður eða aðrir stjórnarmenn hættu störfum án þess að varamönnum væri til að dreifa eða kjörnir væru nýir menn í stað þeirra sem hætta. Gæti jafnvel komið til þess að enginn væri skráður stjórnarmaður. Þetta gæti valdið opinberum innheimtuaðilum og öðrum margháttuðum erfiðleikum, en hins vegar þætti ekki ástæða til þess með tilliti til opinberra hagsmuna að hlutafélagaskrá stæði straum af skiptakostnaði vegna aðgerða sem miðuðu að því að óvirk hlutafélög væru á endanum afskráð. Þætti réttara að gefa kost á möguleika á afskráningu með einfaldari en þó öruggum hætti, en afskráningin yrði ein tegund félagsslita. Þrátt fyrir framangreind ummæli í greinargerð er staðreyndin sú að afskráð félög eru enn til þótt þau hafi verið afskráð samkvæmt framansögðu. Litið er á þau sem óskráð hlutafélög og einkahlutafélög sem hvorki geta öðlast réttindi né tekið á sig skyldur og geta þau almennt ekki verið aðilar í dómsmálum. Litið er svo á að frá og með þeim tíma sem félag er löglega afskráð hafi hvorki stjórn né aðrir umboð til að gera nýja löggerninga í nafni hins afskráða félags þótt ekki sé hægt að útiloka að í einhverjum tilvikum kunni að vera eignir til staðar í félögunum eða önnur réttindi.
    Þykir rétt að ljúka formlega því ferli sem hefst með afskráningu samkvæmt framansögðu og gera hlutafélagaskrá kleift að krefjast skipta á slíkum félögum að liðnu ári frá afskráningu, að því skilyrði uppfylltu að ekki hafi borist beiðni um skráningu félagsins á nýjan leik eða ef lánardrottnar eða hluthafar hafi ekki óskað eftir skiptum á félaginu. Þykir rétt að hlutafélagaskrá geti krafist skipta afskráðra félaga sem ekki hafa verið skráð á nýjan leik innan árs frá afskráningu. Eru ríkir samfélagslegir hagsmunir af því að ekki séu til staðar afskráð félög án stjórnenda eða starfsemi að loknum þeim tíma sem hluthafar eða stjórnendur hafa til að óska eftir skiptum á félagi og þegar ekki hefur verið farið fram á skráningu þeirra á nýjan leik.
    Eins og fram kemur í fyrrgreindum ákvæðum laga um einkahlutafélög, nr. 138/1994, og um hlutafélög, nr. 2/1995, geta hluthafar eða lánardrottnar innan árs frá afskráningu félags gert þá kröfu að bú þess verði tekið til skipta. Jafnframt er hlutafélagaskrá heimilt að breyta skráningu þannig að afskráð félag sé skráð á nýjan leik enda berist beiðni þar að lútandi innan árs frá afskráningu og sérstakar aðstæður réttlæti endurskráninguna. Því er hins vegar ekki svarað í fyrrgreindum lögum hvernig fari um þau félög þar sem hvorki hefur komið fram beiðni um skipti né ósk um skráningu félags á nýjan leik. Eru þannig dæmi um afskráð félög sem enn hefur ekki verið slitið og í reynd óljóst hver þýðing afskráningar er í slíkum tilvikum. Segja má að það stafi fyrst og fremst af því að talið hefur verið að afskráning sé ein tegund félagsslita, en samt sem áður er félagið enn formlega til og hefur í reynd ekki verið formlega slitið. Í slíkum tilvikum er litið á félögin sem óskráð hlutafélög og einkahlutafélög sem hvorki geta öðlast réttindi né tekið á sig skyldur. Er litið svo á að frá og með þeim tíma sem félag er löglega afskráð hafi hvorki stjórn né aðrir umboð til að gera nýja löggerninga í nafni hins afskráða félags.
    Þó kann að hátta svo til að þótt skilyrði afskráningar samkvæmt framansögðu hafi verið fyrir hendi kunni að vera til staðar eignir í félagi, þótt það sé ekki skilyrði fyrir kröfu um skipti samkvæmt efni frumvarpsins. Rétt er að taka fram í þessu samhengi að með efni frumvarpsins er í engu haggað rétti þeirra lánardrottna sem kunna að eiga ógreidda kröfu á hendur félagi til að krefjast skipta eftir lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, eða heimild ársreikningaskrár til þess að krefjast skipta eftir ákvæðum laga nr. 3/2006. Hér er í reynd verið að bæta við nýrri heimild til að krefjast skipta á félagi til viðbótar við þær heimildir sem þegar er að finna í íslenskri löggjöf.
    Er frumvarpinu ætlað að gera hlutafélagaskrá kleift að krefjast skipta þegar enginn hefur gefið sig fram innan þess ársfrests sem hér um ræðir, hvorki hluthafar né lánardrottnar, til að krefjast skipta eða skráningar félags á nýjan leik. Mikilvægt er að þetta úrræði sé til staðar til þess að hægt sé að ljúka tilvist félags, sem hefur verið afskráð samkvæmt reglum laganna, með formlegum hætti. Fyrir því eru ríkir og margvíslegir samfélagslegir hagsmunir að því ferli sem hefst með afskráningu félags, sem nánar er lýst í lögum um einkahlutafélög, nr. 138/1994, og lögum um hlutafélög, nr. 2/1995, verði lokið á þann veg að ekki séu til staðar um langan tíma óskráð félög sem hafa verið afskráð samkvæmt reglum laganna án þess að hafa verið formlega slitið.

2.3. Breytingar á lögum um ársreikninga.
    Með lögum nr. 102/2020 voru gerðar breytingar á lögum um ársreikninga og er nú í 1. málsl. 66. gr. b laganna kveðið á um að þegar um er að ræða félög sem hafa verðbréf sín skráð á skipulegum markaði í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, einingar tengdar almannahagsmunum og stór félög sem falla undir d-lið 11. tölul. 2. gr. laganna, sem og móðurfélög stórra samstæðna skuli hver og einn stjórnarmaður undirrita yfirlýsingu þar sem fram kemur nafn hans og verksvið innan stjórnar félagsins. Í frumvarpinu er lagt til að tilvísun í 2. málsl. 66. gr. b verði breytt þannig að vísað sé til viðeigandi reikningsskilastaðla í stað VIII. kafla laganna um alþjóðlega reikningsskilastaðla. Þegar um er að ræða félög á markaði skal yfirlýsingin endurspegla að ársreikningur sé saminn í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla en þegar um er að ræða önnur félög sem falla undir ákvæði 66. gr. b og ekki semja ársreikning sinn samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðum þá skal yfirlýsingin endurspegla að ársreikningur sé saminn í samræmi við lög um ársreikninga.
    Á ári hverju er ákveðinn fjöldi félaga sem skilar ársreikningum til opinberrar birtingar á pappírsformi. Skil ársreikninga á pappírsformi kalla á nokkra vinnu hjá starfsmönnum embættis ríkisskattstjóra við viðtöku reikninganna, yfirferð og skönnun á gögnunum en árlega er um 500 ársreikningum skilað á pappír. Í frumvarpinu er lagt til að ársreikningum skuli skilað á rafrænu form til ársreikningaskrár, þá annaðhvort á pdf-formi eða þegar um örfélög er að ræða verði einnig hægt að skila rafrænt einfaldari útgáfu af ársreikningi sem byggist á skattframtali félagsins og skilað er í gegnum vefsvæði Skattsins sem tekur rafrænt við ársreikningunum (Hnappurinn). Breytingin er í anda stefnu stjórnvalda um að samskipti stjórnvalda við fyrirtækin í landinu og borgarana verði rafrænni en slíkt eykur skilvirkni og hagkvæmni.
    Í 1. mgr. 121. gr. laga um ársreikninga er kveðið á um að ársreikningaskrá skuli krefjast skipta á búi félags sem ekki hefur skilað ársreikningi eða samstæðureikningi, ef við á, innan sex mánaða frá því frestur skv. 109. gr. laganna til skila er liðinn eða frá því ársreikningaskrá hefur komist að þeirri niðurstöðu að skýringar eða upplýsingar með ársreikningi eða samstæðureikningi sem lagður hefur verið fram til opinberrar birtingar hafi ekki verið fullnægjandi. Með lögum nr. 73/2016, um breytingu á lögum um ársreikninga, nr. 3/2006, með síðari breytingum (einföldun og innleiðing ársreikningatilskipunar 2013/34/ESB) var heimild til að krefjast skipta á búi hlutafélags eða einkahlutafélags sem ekki skilar ársreikningi færð frá ráðherra málaflokksins til ársreikningaskrár og það tímamark sem miðað var við stytt úr þremur árum í átta mánuði. Með lögum nr. 68/2020, um breytingu á lögum um ársreikninga, nr. 3/2006 (skil ársreikninga), var fresturinn svo styttur í sex mánuði. Auk þess var ársreikningaskrá fengin heimild til að krefjast skipta á búi félags að uppfylltum skilyrðum ef skýringar eða upplýsingar með ársreikningi eða samstæðureikningi sem skilað er til ársreikningaskrár hafi ekki verið fullnægjandi. Krafa skal borin upp við héraðsdóm og kveður héraðsdómari upp úrskurð um það hvort orðið verði við kröfu um að bú félags verði tekið til skipta. Sé krafan tekin til greina skal farið með búið eftir fyrirmælum laga um skipti á dánarbúum o.fl. um meðferð dánarbús þar sem erfingjar taka ekki á sig ábyrgð á skuldbindingum þess látna að öðru leyti en því að hluthafar njóta ekki þeirrar stöðu sem erfingjar njóta við slík skipti fyrr en leitt er í ljós eftir lok kröfulýsingarfrests að eignir búsins muni hrökkva fyrir skuldum.
    Framangreint lagaákvæði felur í sér úrræði svo hægt sé að bregðast við í þeim tilvikum þegar ársreikningi eða samstæðureikningi er ekki skilað eða ekki veittar fullnægjandi skýringar eða upplýsingar með ársreikningi eða samstæðureikningi þrátt fyrir álagningu stjórnvaldssektar. Í gegnum árin hefur verið nokkuð um að félög sinni ekki skyldum sínum um skil ársreikninga eða samstæðureikninga til opinberrar birtingar þrátt fyrir álagningu stjórnvaldssekta. Þar sem krafa um skipti sendist héraðsdómi og héraðsdómari úrskurðar um hvort orðið verður við kröfunni þykir ekki nauðsynlegt að ákvörðun ársreikningaskrár sæti einnig stjórnsýslukæru til æðra stjórnvalds. Í því sambandi er vert að hafa í huga að þegar ársreikningi hefur ekki verið skilað er enginn vafi til staðar sem kallar á endurskoðun innan stjórnsýslunnar. Hafi ársreikningi verið skilað en ársreikningaskrá hefur komist að þeirri niðurstöðu að skýringar eða upplýsingar með ársreikningi eða samstæðureikningi sem lagður hefur verið fram til opinberrar birtingar hafi ekki verið fullnægjandi og lögð hefur verið á félagið sekt skv. 3. mgr. 120. laga um ársreikninga sætir sú sektarákvörðun stjórnsýslukæru til yfirskattanefndar, sbr. 5. mgr. 120. gr. laganna.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Frumvarpinu er skipt í þrjá kafla en í því er að finna tillögur að breytingu á lögum um hlutafélög, nr. 2/1995, lögum um einkahlutafélög, nr. 138/1994, og lögum um ársreikninga, nr. 3/2006.
    Þær tillögur sem lagðar eru til í fyrsta kafla og varða breytingar á lögum um hlutafélög eru tvíþættar. Annars vegar er um að ræða tillögur til breytinga á þremur ákvæðum laganna en öll varða þau heimildir félaga þar sem hlutir hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum markaði til að kveða á um ákveðna þætti er varða hluthafafundi í samþykktum sínum. Í fyrsta lagi er lagt til að framangreind félög geti kveðið á um það í samþykktum sínum að hluthafi skuli tilkynna þátttöku í hluthafafundi innan tiltekins tíma. Í öðru lagi er lagt til að félögin geti ákveðið í samþykktum sínum lengri frest en 10 daga fyrir hluthafa til að gera kröfu um að fá ákveðið mál tekið til meðferðar á aðalfundi. Í þriðja lagi er lagt til að hámarksboðunarfrestur aðalfundar í skráðum félögum geti verið allt að sex vikur. Hins vegar er í frumvarpinu lagt til að í þeim tilvikum þar sem félag er afskráð samkvæmt heimild í 108. gr. laganna þá sé hlutafélagaskrá heimilt að krefjast skipta á félaginu að liðnu ári frá afskráningu enda hafi þá ekki borist beiðni um að félagið verði skráð á nýjan leik. Fer um skiptin skv. 109. gr. laganna.
    Í öðrum kafla er lögð til breyting á lögum um einkahlutafélög en um er að ræða sams konar breytingu og lögð er til á lögum um hlutafélög og varðar heimild hlutafélagaskrár til að krefjast skipta á félagi sem afskráð hefur verið skv. 83. gr. laga um einkahlutafélög enda hafi þá ekki borist beiðni um að félagið verði skráð á nýjan leik. Fer um skiptinguna skv. 84. gr. laganna.
    Í þriðja kafla eru lagðar til breytingar á lögum um ársreikninga. Breytingarnar eru þríþættar. Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar á tilvísun í 2. málsl. 66. gr. b í lögunum en ákvæðið varðar yfirlýsingu stjórnarmanna tiltekinna félaga. Í öðru lagi er lagt til að skil ársreikninga verði eftirleiðis rafræn í samræmi við reglur sem ríkisskattstjóri setur, en gert er ráð fyrir að breytingin komi til framkvæmda fyrir reikningsár sem hefst 1. janúar 2022 eða síðar. Í þriðja lagi er lagt til að ekki verði unnt að skjóta til æðra stjórnvalds ákvörðunum ársreikningaskrár um að krefjast skipta á búi félags sem ekki hefur skilað ársreikningi að liðnum sex mánuðum frá því frestur til skilanna rann út eða frá því að ársreikningaskrá hefur komist að þeirri niðurstöðu að skýringar eða upplýsingar með ársreikningi eða samstæðureikningi sem lagður hefur verið fram til opinberrar birtingar hafi ekki verið fullnægjandi.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Ákvæði frumvarpsins gáfu ekki sérstakt tilefni til að ætla að tillögurnar stangist á við stjórnarskrá.
    Ákvæði frumvarpsins eru í samræmi við þær alþjóðlegu skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist með EES-samningnum. Með ákvæðum 1.–3. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga um hlutafélög sem varða boðun og framkvæmd aðalfunda félaga þar sem hlutir hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum markaði. Framangreind ákvæði frumvarpsins eru í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/36/EB frá 11. júlí 2007 um nýtingu tiltekinna réttinda hluthafa í skráðum félögum en í tilskipuninni er m.a. að finna ákvæði um lágmarksfrest til boðunar aðalfunda félaga á markaði sem innleidd var með lögum um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög, nr. 126/2009 (réttindi hluthafa). Með ákvæðum 6. og 7. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á lögum um ársreikninga og eru þær breytingar sem lagðar eru til í samræmi við ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2013/34/ESB frá 26. júní 2013 um árleg reikningsskil, samstæðureikningsskil og tilheyrandi skýrslur tiltekinna tegunda fyrirtækja, um breytingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/43/EB og niðurfellingu tilskipana ráðsins 78/660/EBE og 83/349/EBE sem innleidd hafa verið í lög um ársreikninga.

5. Samráð.
    Frumvarpið var kynnt embætti ríkisskattstjóra. Frumvarpið var einnig kynnt í opnu samráði í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is 23. febrúar – 11. mars 2022 (mál nr. S-43/2022) og barst ein umsögn um frumvarpið frá Samtökum fjármálafyrirtækja (SFF). Í umsögn SFF er annars vegar lagt til að ákvæði 1. gr. frumvarpsins verði breytt þannig að í stað þess að eingöngu skráðum félögum verði heimilt að kveða á um það í samþykktum sínum að hluthafi skuli tilkynna félaginu sínu þátttöku á hluthafafundi innan tiltekins frests þá taki heimildin til allra hlutafélaga. Telja samtökin engin sérstök rök fyrir því að takmarka heimildina við skráð félög. Heimildin tengist því að félög haldi hluthafafundi rafrænt og því sé þörfin til að geta kveðið á um skráningarfrest óháð því hvort um er að ræða skráð félag eða ekki. Þá kemur fram að telji stjórnvöld rétt að takmarka þessa heimild að einhverju leyti þá sé hægt að binda hana við hlutafélög þegar þau halda rafræna hluthafafundi.
    Þar sem heimild 1. gr. frumvarpsins takmarkar réttindi hluthafa telur ráðuneytið rétt að ákvæðið taki eingöngu til skráðra félaga þar sem einkum er mikilvægt fyrir slík félög að hafa svigrúm til að undirbúa skráningu hluthafa, ekki síst þeirra sem búsettir eru erlendis, taka þátt í fundinum rafrænt og þurfa að skrá sig gegnum erlenda vörsluaðila fyrir fundinn. Hins vegar bendir SFF á í umsögn sinni að betur fari á því að ákvæði frumvarpsins um rafræn skil ársreikninga gildi fyrir ársreikninga reikningsárs sem hefst 1. janúar 2022 í stað 1. janúar 2021 eða síðar. Ráðuneytið fellst á það með SFF að betur fari á því að umrætt ákvæði taki gildi fyrir ársreikninga reikningsárs sem hefst 1. janúar 2022 og hefur frumvarpinu verið breytt í samræmi við það.
    Frumvarpið var áður lagt fram á 152. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga og er nú lagt fram að nýju óbreytt.

6. Mat á áhrifum.
    Eins og fyrr segir eru þær breytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu þríþættar. Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar á lögum um hlutafélög sem taka til hlutafélaga þar sem hlutir hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum markaði. Ekki er gert ráð fyrir að breytingarnar hafi í för með sér kostnað fyrir ríkissjóð. Gert er ráð fyrir að breytingin sé til hagsbóta fyrir þau félög sem hún tekur til en ekki er um marga aðila að ræða.
    Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög þess efnis að eftir að ár er liðið frá því hlutafélag eða einkahlutafélag er afskráð samkvæmt heimild í lögum um hlutafélög eða lögum um einkahlutafélög sé hlutafélagaskrá heimilt að gera kröfu um að bú félagsins verði tekið til skipta. Gert er ráð fyrir að ríkissjóður þurfi að leggja fram skiptatryggingu þegar gerð er krafa um að bú félags verði tekið til skipta en þar sem gert er ráð fyrir að afskráning fari eingöngu fram í undantekningartilvikum er um óverulegan kostnað að ræða. Ekki er gert ráð fyrir að áhrifin verði að öðru leyti veruleg en ríkisskattstjóri hefur eingöngu beitt heimild til afskráningar í undantekningartilvikum og er gert ráð fyrir að svo verði áfram.
    Í þriðja lagi eru lagðar til breytingar á lögum um ársreikninga þar sem annars vegar er lagt til að skil ársreikninga skuli vera á rafrænu formi í samræmi við reglur sem ríkisskattstjóri setur. Hins vegar er lagt til að lagfærð verði tilvísun í 66. gr. b laganna. Á ári hverju skila um 500 félög ársreikningum til opinberrar birtingar á pappírsformi. Breytingin sem lögð er til í frumvarpinu hefur áhrif á þessu félög sem þurfa þá að skila ársreikningi á pdf-formi eða með hnappnum ef um örfélag er að ræða. Skil ársreikninga á pappírsformi kalla á nokkra vinnu hjá starfsmönnum ársreikningaskrár við viðtöku reikninganna, yfirferð og skönnun á gögnunum. Breytingin er í anda stefnu stjórnvalda um að samskipti stjórnvalda við fyrirtækin í landinu og borgaranna verði rafrænni en slíkt eykur skilvirkni og hagkvæmni. Breytingin veitir ársreikningaskrá meira svigrúm til að sinna eftirliti með ársreikningum og samstæðureikningum sem skilað er til ársreikningaskrár.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að það hafi í för með sér veruleg fjárhagsáhrif á ríkissjóð né mun það hafa áhrif á áætlaðar fjárheimildir.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Lagt er til að félögum þar sem hlutir hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum markaði sé heimilt að ákveða í samþykktum sínum að hluthafi skuli tilkynna félaginu þátttöku sína í hluthafafundi innan ákveðins tíma fyrir fundinn sem skal þó ekki vera lengri en vika. Það þýðir að skráningarfrestur getur lengst verið ein vika fyrir hluthafafundinn. Atkvæðisréttur hluthafa á fundinum fer þá eftir fjölda hluta á því tímamarki þegar skráningarfresti lýkur. Skráningarfrestur skal tilgreindur í fundarboði til hluthafafundarins.
    Heimildin tekur eingöngu til félaga á markaði en mikilvægt er fyrir slík félög að hafa svigrúm til að undirbúa skráningu hluthafa, ekki síst þeirra sem búsettir eru erlendis, taka þátt í fundinum rafrænt og þurfa að skrá sig gegnum erlenda vörsluaðila fyrir fundinn. Breytingartillagan er í samræmi við það sem tíðkast í nágrannalöndum okkar, en eins og fram kemur í kafla 2.1 þá gildir sambærileg regla í Danmörku, Svíþjóð og Noregi. Í framangreindum ríkjum gildir reglan þó aðeins þegar um aðalfund er að ræða. Í Svíþjóð og Noregi er miðað við að skráningarfresturinn sé fimm dagar fyrir aðalfund en í Danmörku er fresturinn miðaður við viku fyrir aðalfund. Með 1. gr. er lagt til að heimildin nái til hluthafafunda almennt, þ.m.t. aðalfunda, en rök þykja ekki standa til þess að takmarka heimildina við aðalfundi eingöngu. Þá er það tímamark sem lagt er til að gildi ein vika en það þykir hæfilegur frestur til undirbúnings fundinum.

Um 2. gr.

    Samkvæmt 1. mgr. 86. gr. laga um hlutafélög gildir sú meginregla að hver hluthafi á rétt á því að fá ákveðið mál tekið til meðferðar á hluthafafundi, enda geri hann um það skriflega eða rafræna kröfu til félagsstjórnar með það miklum fyrirvara að unnt sé að taka málið á dagskrá fundarins. Í 2. mgr. 86. gr. laganna er svo að finna sérstaka reglu sem tekur aðeins til aðalfunda félaga sem fengið hafa hluti sína tekna til viðskipta á skipulegum markaði en ekki hluthafafunda almennt. Ákvæðið kom inn í lög um hlutafélög með lögum nr. 51/2013, um breytingu á lögum um hlutafélög, og fól í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/36/EB frá 11. júlí 2007 um nýtingu tiltekinna réttinda hluthafa í skráðum félögum. Ísland nýtti sér heimild sína til að takmarka innleiðinguna við aðalfundi.
    Af 1. málsl. 2. mgr. 86. gr. laga um hlutafélög leiðir að í félögum sem fengið hafa hluti sína tekna til viðskipta á skipulegum markaði skuli kröfu um að fá ákveðið mál tekið til meðferðar fylgja rökstuðningur eða drög að ályktun til félagsstjórnar eigi síðar en viku fyrir boðun aðalfundar sem boða skal til með a.m.k. þriggja vikna fyrirvara skv. 1. mgr. 88. gr. a laganna. Hér er þess að gæta að hluthafa er, hvað sem líður fresti skv. 1. málsl., heimilt á grundvelli 2. málsl. að gera kröfu síðar eða í síðasta lagi tíu dögum fyrir aðalfundinn. Rökin eru þau að tryggja að hluthafar hafi ráðrúm til þess að setja fram kröfu um að fá ákveðið mál tekið til meðferðar á aðalfundi eftir að boðað hefur verið til aðalfundar, sem gera verður minnst þremur vikum fyrir fund, sbr. 1. mgr. 88. gr. a laga um hlutafélög, eins og áður segir.
    Samkvæmt 4. mgr. 88. gr. laganna eru endanleg dagskrá og tillögur fyrir hluthafafund birt viku fyrir fundinn og tveimur vikum fyrir aðalfund, nema boðunarfrestur sé skemmri, lögð fram hluthöfum til sýnis á skrifstofu félags og samtímis send sérhverjum skráðum hluthafa sem þess óskar. Framangreindir fyrirvarar til að birta endanlega dagskrá og tillögur geta reynst skammir í tilviki félaga þar sem hlutir hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði þegar hluthafar taka rafrænan þátt í hluthafafundi og skila inn atkvæði sínu í gegnum vörsluaðila. Erlendir vörsluaðilar loka fyrir viðskipti með hluti sem atkvæðisréttur hefur verið nýttur fyrir þar til hluthafafundi er lokið. Það getur verið til hagsbóta fyrir hluthafa sem taka rafrænan þátt í hluthafafundi og skila inn atkvæði sínu í gegnum vörsluaðila að endanleg dagskrá fundar og tillögur séu birtar með meiri fyrirvara en sjö dögum fyrir fundinn.
    Til þess að bregðast við framangreindri stöðu er í þessari grein lagt til að í samþykktum félaga sem fengið hafa hluti sína tekna til viðskipta á skipulegum markaði verði heimilt að kveða á um að frestur til að gera kröfu sé lengri en tíu dagar fyrir aðalfund en fresturinn telst þó aldrei liðinn fyrr en viku eftir að gögn skv. 4. mgr. 88. gr. laga um hlutafélög hafa verið birt. Þessi tillaga er í samræmi við ákvæði 4. mgr. 6. gr. tilskipunar (EB) 2007/36/EB þar sem fjallað er um frest fyrir hluthafa til að gera kröfu til að fá mál tekið fyrir á hluthafafundi, sem þarf að vera nægilega rúmur til þess að hluthöfum gefist ráðrúm til að veita umboð eða greiða atkvæði utan fundar. Í þessu sambandi skal þess einnig getið að í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að í samþykktum félaga sem fengið hafa hluti sína tekna til viðskipta á skipulegum markaði megi þó ákveða lengri lágmarksfrest til að boða til aðalfundar, að hámarki sex vikum fyrir fund.

Um 3. gr.

    Í 1. mgr. 88. gr. laga um hlutafélög segir: „Boða skal til hluthafafundar lengst fjórum vikum fyrir fund og, sé ekki mælt fyrir um lengri frest í félagssamþykktum, skemmst viku fyrir fund (tveimur vikum fyrir aðalfund).“ Aðalreglan skv. 1. mgr. 88. gr. er þannig sú að boða skal til hluthafafundar skemmst einni viku fyrir hlutafund en lengst fjórum vikum fyrir fundinn. Þegar um aðalfund er að ræða skal boða til fundarins skemmst tveimur vikum fyrir fund en lengst fjórum vikum fyrir fundinn. Með lögum nr. 126/2009 voru innleidd ákvæði tilskipunar (EB) 2007/36/EB og kom ákvæði 88. gr. a nýtt inn í lögin með innleiðingunni. Með ákvæðinu voru innleidd ákvæði 1. mgr. 5. gr. framangreindrar tilskipunar um lágmarksboðunarfrest aðalfundar félaga þar sem hlutir hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum markaði. Í 1. mgr. 88. gr. a segir: „Í félögum þar sem hlutir hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum markaði skal boða til hluthafafundar minnst þremur vikum fyrir fund.“ Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 126/2009 segir um ákvæði 88. gr. a að ákvæðum 1. og 2. mgr. sé ætlað að gefa hluthöfum, einkum erlendum hluthöfum, færi á að gæta betur hagsmuna sinna og skapa þeim betri möguleika til að taka þátt í hluthafafundi og greiða þar atkvæði.
    Ákvæði um hámarksboðunarfrest kom inn með lögum um hlutafélög, nr. 32/1978, en um það segir í greinargerð: „Ákvæði um hámarksfrest er talið nauðsynlegt, þar sem boðun með of löngum fyrirvara getur haft óhagræði í för með sér, einkum fyrir nýja hluthafa. Með reglum þessum er leitast við að tryggja hag hluthafanna jafnframt því að veita félagsstjórn möguleika á hæfilegu svigrúmi.“
    Í 1. mgr. 88. gr. a er að finna sérreglu um boðun til hluthafafunda í félögum sem fengið hafa hluti sína tekna til viðskipta á skipulegum markaði. Þar kemur fram að boða skuli til hluthafafundar minnst þremur vikum fyrir fund. Aftur á móti er í ákvæðinu ekki vikið að hámarksboðunartíma og gildir að þessu leyti um félög sem fengið hafa hluti sína tekna til viðskipta á skipulegum markaði hin almenna regla 88. gr. um að boða skuli til hluthafafundar lengst fjórum vikum fyrir fundinn. Þessi fjögurra vikna frestur þykir heldur skammur.
    Í nágrannaríkjunum er hámarksfrestur til að boða til aðalfunda skráðra félaga lengri en hér á landi. Í Danmörku er hámarksboðunarfrestur fyrir aðalfund skráðra félaga fimm vikur en lágmarksboðunarfrestur þrjár vikur. Í Svíþjóð er hámarksboðunarfrestur fyrir aðalfund í hlutafélögum sex vikur en lágmarksboðunarfrestur fjórar vikur. Í Noregi er enginn hámarksboðunarfrestur en lágmarksboðunarfrestur skráðra félaga er þrjár vikur, nema samþykktir kveði á um lengri frest.
    Til að gefa hluthöfum færi á að gæta hagsmuna sinna betur og skapa þeim möguleika til að taka þátt í aðalfundi og greiða þar atkvæði, sem og að færa framkvæmdina hérlendis meira til samræmis við það sem gerist í nágrannalöndunum, er lagt til að hámarksfrestur til að boða til aðalfundar í félögum þar sem hlutir hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum markaði verði lengdur úr fjórum vikum í allt að sex vikur. Verði frumvarp þetta að lögum verður slíkum félögum því heimilt að boða til aðalfundar eigi síðar en þremur vikum (lágmarksfrestur) fyrir aðalfund en lengst sex vikum (hámarksfrestur) fyrir aðalfund. Er því lagt til að við 1. mgr. 88. gr. a bætist nýr málsliður þar sem kveðið verði á um að til aðalfundar í félögum þar sem hlutir hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum markaði skuli boða minnst þremur vikum fyrir fund og lengst sex vikum fyrir fund.

Um 4. gr.

    Heimilt er að afskrá hlutafélög eftir reglum 108. gr. laga um hlutafélög. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum um hlutafélög, nr. 2/1995, segir um ákvæðið að nokkur tilvik kæmu upp öðru hverju þar sem stjórnarformaður eða aðrir stjórnarmenn hættu störfum án þess að varamönnum væri til að dreifa eða kjörnir væru nýir menn í stað þeirra sem hætta. Gæti jafnvel komið til þess að enginn væri skráður stjórnarmaður. Þetta gæti valdið opinberum innheimtuaðilum og öðrum margháttuðum erfiðleikum en hins vegar þætti ekki ástæða til þess með tilliti til opinberra hagsmuna að hlutafélagaskrá stæði straum af skiptakostnaði vegna aðgerða sem miðuðu að því að óvirk hlutafélög væru á endanum afskráð. Þætti réttara að gefa kost á möguleika á afskráningu með einfaldari en þó öruggum hætti, en afskráningin yrði ein tegund félagsslita. Þrátt fyrir framangreind ummæli í greinargerð með frumvarpinu er staðreyndin sú að afskráð félög eru enn til þótt þau hafi verið afskráð samkvæmt framansögðu. Litið er á þau sem óskráð hlutafélög og einkahlutafélög sem hvorki geta öðlast réttindi né tekið á sig skyldur og geti þau almennt ekki verið aðilar í dómsmálum. Þá er litið svo á að frá og með þeim tíma sem félag er löglega afskráð hafi hvorki stjórn né aðrir umboð til að gera nýja löggerninga í nafni hins afskráða félags þótt ekki sé hægt að útiloka að í einhverjum tilvikum kunni að vera eignir til staðar í félögunum eða önnur réttindi.
    Eins og fyrr segir þykir rétt að ljúka formlega því ferli sem hefst með afskráningu og gera hlutafélagaskrá kleift að krefjast skipta á slíkum félögum að liðnu ári frá afskráningu, að því skilyrði uppfylltu að ekki hafi borist beiðni um skráningu félagsins á nýjan leik eða ef lánardrottnar eða hluthafar hafa ekki óskað eftir skiptum á félaginu. Hefur þessi heimild engin áhrif á aðrar heimildir til þess að krefjast skipta eftir ákvæðum laga um hlutafélög, lögum um ársreikninga, nr. 3/2006, eða reglum laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991. Er lagt til að hlutafélagaskrá sendi beiðni um skipti þegar ár er liðið frá því að félag hefur verið afskráð. Í því samhengi er rétt að hafa í huga að hluthafar og lánardrottnar hafa haft ár til þess að bregðast við yfirvofandi afskráningu félags og því hafi þeir haft nægt ráðrúm til að grípa til viðeigandi ráðstafana til að koma í veg fyrir afskráningu félags og skipti þess samkvæmt framansögðu.
    Er hér haft í huga að beiðni um skráningu félags getur komið innan þess ársfrests sem mælt er fyrir um í lögunum en skráningu á ný hafi ekki verið lokið þegar ársfresturinn er liðinn. Í slíkum tilvikum getur hlutafélagaskrá ekki komið fram með kröfu um slit félags eftir ákvæðinu. Ekkert er því þó til fyrirstöðu að beiðni um skipti komi fram í slíku tilviki eftir að beiðni um skráningu á ný hefur verið hafnað endanlega.
    Ástæður afskráningar félags geta verið af ýmsum toga en því formlega ferli sem fram fer í aðdraganda afskráningar er lýst í 108. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög. Eins og þar er nánar rakið er það meginskilyrði afskráningar að hlutafélagaskrá telji sig hafa upplýsingar um að félag hafi hætt störfum, sé án starfandi stjórnar, endurskoðanda eða skoðunarmanns eða það sinni ekki tilkynningarskyldu sinni til skrárinnar. Að ári liðnu frá afskráningu félags getur hlutafélagaskrá gert þá kröfu að bú hlutafélags verði tekið til skipta í samræmi við ákvæði 109. gr. enda hafi þá ekki borist beiðni um að félagið verði skráð á nýjan leik. Skiptir í þessu samhengi ekki máli hvort til staðar séu eignir í félagi og er heimildin óháð því hvort skattframtali eða ársreikningi hafi verið skilað inn fyrir viðkomandi félag. Hér er lagt til að því ferli sem lýst er í ákvæðunum ljúki með því að í kjölfar afskráningar verði hægt að krefjast skipta á viðkomandi félagi og að félaginu sé þannig slitið.

Um 5. gr.

    Lögð er til sambærileg breyting á lögum um einkahlutafélög og lögð er til í 4. gr. á lögum um hlutafélög. Í 83. gr. laga um einkahlutafélög er að finna sambærilega heimild og er að finna í 108. gr. laga um hlutafélög. Í 82. gr. laga um einkahlutafélög er að finna heimild sem að hluta til er sambærileg þeirri heimild sem er að finna í 107. gr. laga um hlutafélög og í 84. gr. laga um einkahlutafélög er að finna sambærilegt ákvæði og er að finna í 109. gr. laga um hlutafélög. Um skýringar við 5. gr. frumvarpsins er því vísað til skýringa við 4. gr.

Um 6. gr.

    Lagt er til að lagfærð verði tilvísun í 2. málsl. 66. gr. b laga um ársreikninga en í ákvæðinu er kveðið á um yfirlýsingu stjórnarmanna tiltekinna félaga í skýrslu stjórnar með ársreikningi. Með lögum nr. 102/2020 voru m.a. gerðar breytingar á lögum um ársreikninga og er nú í 1. málsl. 66. gr. b laganna kveðið á um að þegar um er að ræða félög sem hafa verðbréf sín skráð á skipulegum markaði í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, einingar tengdar almannahagsmunum og stór félög sem falla undir d-lið 11. tölul. 2. gr. laganna, sem og móðurfélög stórra samstæðna skuli hver og einn stjórnarmaður undirrita yfirlýsingu þar sem fram kemur nafn hans og verksvið innan stjórnar félagsins. Í frumvarpinu er lagt til að tilvísun til VIII. kafla í 2. málsl. 66. gr. b verði lagfærð þannig að fram komi að í yfirlýsingunni verði vísað til viðeigandi reikningsskilastaðla þar sem ekki öll félög sem falla nú undir gildissvið ákvæðis 66. gr. b semji reikningsskil sín í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla skv. VIII. kafla laganna.
    Ákvæði 66. gr. b kom inn í lög um ársreikninga með lögum nr. 171/2007 um breytingu á lögum nr. 3/2006, um ársreikninga, en með lagabreytingunni voru innleidd ákvæði 4. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2004/109/EB frá 15. desember 2004 um samhæfingu krafna um gagnsæi í tengslum við upplýsingar um útgefendur verðbréfa sem eru skráð á skipulegan markað og um breytingu á tilskipun 2001/34/EB. Þegar um er að ræða félög sem semja reikningsskil sín í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla skal í yfirlýsingunni áfram vísa til þeirra staðla sem er að finna í VIII. kafla laganna. Þegar um er að ræða önnur félög sem falla undir ákvæði 66. gr. b og semja reikningsskil sín ekki í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla þá skal yfirlýsingin endurspegla að ársreikningur sé saminn í samræmi við lög um ársreikninga.

Um 7. gr.

    Í 7. gr. er lögð til breyting á lögum um ársreikninga. Í ákvæðinu er lagt til að gert verði að skyldu að skil ársreikninga skuli vera rafræn og að ársreikningaskrá setji reglur um skil með þeim hætti. Skil ársreikninga á pappírsformi kalla á nokkra vinnu hjá starfsmönnum embættis ríkisskattstjóra við viðtöku reikninganna, yfirferð og skönnun á gögnunum en árlega er um 500 ársreikningum skilað á pappír. Í ákvæðinu er eins og fyrr segir lagt til að ársreikningum verði skilað rafrænt, þá annaðhvort á pdf-formi eða þegar um örfélög er að ræða einfaldari útgáfu af ársreikningi sem byggist á skattframtali félagsins. Hér er um að ræða skil á rekstraryfirliti og efnahagsyfirliti byggð á skattframtali félagsins í gegnum vef Skattsins með „hnappnum“.

Um 8. gr.

    Lagt er til að kveðið verði á um það að ekki verði hægt að skjóta ákvörðunum ársreikningaskrár um að krefjast skipta á búi félags á grundvelli 1. mgr. 121. gr. laganna til æðra stjórnvalds.
    Í 1. mgr. 121. gr. laga um ársreikninga er kveðið á um að ársreikningaskrá skuli krefjast skipta á búi félags sem ekki hefur skilað ársreikningi eða samstæðureikningi, ef við á, innan sex mánaða frá því frestur skv. 109. gr. laganna til skila er liðinn eða frá því ársreikningaskrá hefur komist að þeirri niðurstöðu að skýringar eða upplýsingar með ársreikningi eða samstæðureikningi sem lagður hefur verið fram til opinberrar birtingar hafi ekki verið fullnægjandi. Með lögum nr. 73/2016, um breytingu á lögum um ársreikninga, nr. 3/2006, með síðari breytingum (einföldun og innleiðing ársreikningatilskipunar 2013/34/ESB), var heimild til að krefjast skipta á búi hlutafélags eða einkahlutafélags sem ekki skilar ársreikningi færð frá ráðherra málaflokksins til ársreikningaskrár og það tímamark sem miðað var við stytt úr þremur árum í átta mánuði.
    Með lögum nr. 68/2020, um breytingu á lögum um ársreikninga, nr. 3/2006 (skil ársreikninga), var fresturinn svo styttur í sex mánuði. Auk þess var ársreikningaskrá fengin heimild til að krefjast skipta á búi félags að uppfylltum skilyrðum ef skýringar eða upplýsingar með ársreikningi eða samstæðureikningi sem skilað er til ársreikningaskrár hafa ekki verið fullnægjandi. Krafa skal borin upp við héraðsdóm og kveður héraðsdómari upp úrskurð um það hvort orðið verði við kröfu um að bú félags verði tekið til skipta. Sé krafan tekin til greina skal farið með búið eftir fyrirmælum laga um skipti á dánarbúum o.fl. um meðferð dánarbús þar sem erfingjar taka ekki á sig ábyrgð á skuldbindingum þess látna að öðru leyti en því að hluthafar njóta ekki þeirrar stöðu sem erfingjar njóta við slík skipti fyrr en leitt er í ljós eftir lok kröfulýsingarfrests að eignir búsins muni hrökkva fyrir skuldum. Framangreint lagaákvæði felur í sér úrræði svo hægt sé að bregðast við í þeim tilvikum sem ársreikningi eða samstæðureikningi er ekki skilað eða ekki veittar fullnægjandi skýringar eða upplýsingar með ársreikningi eða samstæðureikningi þrátt fyrir álagningu stjórnvaldssektar. Í gegnum árin hefur verið nokkuð um að félög sinni ekki skyldum sínum um skil ársreikninga eða samstæðureikninga til opinberrar birtingar þrátt fyrir álagningu stjórnvaldssekta.
    Þar sem krafa um skipti sendist héraðsdómi og héraðsdómari úrskurðar um hvort orðið verður við kröfunni þykir ekki nauðsynlegt að ákvörðun ársreikningaskrár sæti einnig stjórnsýslukæru til æðra stjórnvalds. Í því sambandi er einnig vert að hafa í huga að þegar ársreikningi hefur ekki verið skilað þá leikur ekki vafi á því að sú staða sé uppi hjá félagi. Hafi ársreikningi aftur á móti verið skilað en ársreikningaskrá hefur komist að þeirri niðurstöðu að skýringar eða upplýsingar með ársreikningi eða samstæðureikningi sem lagður hefur verið fram til opinberrar birtingar hafi ekki verið fullnægjandi og lögð hefur verið á félagið sekt skv. 3. mgr. 120. laga um ársreikninga sætir sú sektarákvörðun stjórnsýslukæru til yfirskattanefndar, sbr. 5. mgr. 120. gr. laganna. Ákvarðanir um ófullnægjandi skil ársreiknings eða samstæðureiknings og álagningu sekta vegna þeirra er þannig hægt að skjóta til úrskurðaraðila.

Um 9. gr.

    Lagt er til að lögin taki þegar gildi. Hvað varðar ákvæði 7. gr. þar sem kveðið er á um að ársreikningum skuli skilað rafrænt þá er lagt til að ákvæðið komi til framkvæmda fyrir reikningsár sem hefst 1. janúar 2022 eða síðar, þ.e. að ársreikningum sem skilað er til ársreikningaskrár eftir 1. janúar 2023 sé skilað rafrænt.