Ferill 149. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 275  —  149. mál.




Svar


umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Valgerði Árnadóttur um skuldbindingar Íslands samkvæmt Kyoto-bókuninni.


     1.      Hvers vegna greiðir íslenska ríkið fyrir losunarheimildir á grundvelli Kyoto-bókunarinnar? Óskað er eftir sundurliðun eftir losunarvaldi.
    Ríki sem tóku á sig skuldbindingar í Kyoto-bókuninni fá úthlutað heimildum til losunar gróðurhúsalofttegunda og þurfa að tryggja að nettólosun fari ekki umfram þær heimildir. Hægt er að standa við ákvæðin á þrennan hátt: 1) með því að draga úr losun, 2) með því að binda kolefni á sannanlegan hátt, svo sem með skógrækt og landgræðslu, og 3) með því að kaupa einingar frá öðrum, svo sem frá ríkjum sem hafa losað minna en heimildir eru fyrir eða í gegnum styrk til verkefna í gegnum svokallaða loftslagsvæna þróunaraðstoð. Nú liggur fyrir að Ísland á ekki nægar heimildir skv. 1) og 2) og því þarf að skoða kaup á heimildum til að gera upp tímabilið 2013–2020. Um er að ræða tæpar 4 millj. tonna af CO2-ígildum, samkvæmt mati Umhverfisstofnunar, en endanlegir útreikningar liggja ekki fyrir.
    Kyoto-bókunin nær til losunar Íslands almennt og skuldbindingar eru ekki sundurliðaðar eftir losunarvaldi. Þó eru skuldbindingar Íslands þannig vaxnar að losun sem fellur innan evrópska viðskiptakerfisins með losunarheimildir (ETS) eru utan beinna skuldbindinga íslenskra stjórnvalda. Það er einkum losun frá stóriðju sem fellur undir ETS hvað Ísland varðar, svo að aukin losun frá stóriðju er ekki orsakavaldur í þessum efnum. Losun sem fellur undir beinar skuldbindingar Íslands er einkum frá bruna jarðefnaeldsneytis, svo sem í samgöngum, sjávarútvegi og byggingariðnaði, en einnig frá búfé og áburði, meðferð úrgangs o.fl. uppsprettum. Losun frá alþjóðaflugi og alþjóðasiglingum er hins vegar utan beinna skuldbindinga Íslands samkvæmt Kyoto og sömuleiðis losun tengd landnotkun, svo sem frá framræstum mýrum. Hins vegar getur Ísland talið fram kolefnisbindingu í skógrækt og landgræðslu á móti losun samkvæmt Kyoto-bókuninni og gerir það.

     2.      Hversu stórt hlutfall losunarheimilda kaupir íslenska ríkið vegna stóriðju?
    Ekkert, sbr. svar við fyrri spurningu. Losun sem fellur undir evrópska viðskiptakerfið, ETS, er utan beinna skuldbindinga Íslands samkvæmt Kyoto-bókuninni fyrir tímabilið 2013–2020.

     3.      Selur íslenska ríkið losunarheimildir til annarra ríkja?
    Nei. Ísland er ekki í stöðu til að geta selt losunarheimildir og gerir það ekki.