Ferill 276. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 279  —  276. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um velsældarvísa fyrir heilbrigðan húsnæðismarkað.


Flm.: Björn Leví Gunnarsson, Andrés Ingi Jónsson, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Gísli Rafn Ólafsson, Halldóra Mogensen.


    Alþingi ályktar að fela innviðaráðherra að setja stefnu um velsældarvísa fyrir heilbrigðan húsnæðismarkað. Sérstaklega verði hugað að því að velsældarvísarnir sýni hvort nægt framboð sé á íbúðum fyrir námsmenn, félagslegu húsnæði, íbúðum á vegum óhagnaðardrifinna leigufélaga og viðeigandi húsnæði fyrir eldra fólk.

Greinargerð.

    Aðgerðir til að mæta íbúðaskorti eru mjög aðkallandi. Þó að aldrei hafi verið byggt meira í Reykjavíkurborg og uppbyggingu hafi verið flýtt á mörgum svæðum þarf enn að bæta við húsnæði til að mæta óuppfylltri og fyrirséðri þörf fyrir nýjar eignir. Samkvæmt greiningu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar á húsnæðismarkaði þarf að byggja um 2.000 íbúðir á ári til ársins 2040. Að auki er þörf fyrir 5.000 nýjar íbúðir til að mæta núverandi óuppfylltri þörf. Til þess að styðja betur við opinbera ákvarðanatöku um uppbyggingu húsnæðis víðs vegar um land er því lagt til að innviðaráðherra setji stefnu um velsældarvísa fyrir heilbrigðan húsnæðismarkað. Vísarnir eiga að sýna stöðu húsnæðismála út frá ýmsum sjónarhornum, sér í lagi húsnæðismálum fyrir viðkvæmari hópa samfélagsins.
    Tryggja verður uppbyggingu námsmannaíbúða og heimavista um allt land fyrir bæði háskóla- og framhaldsskólastig til að aðgengi til náms verði óháð búsetu og aðstæðum námsfólks, en á undanförnum árum og áratugum hefur aðgengi að slíku húsnæði dregist mjög saman. Fyrir námsfólk sem kemur úr dreifðari byggðum getur heimavist verið nauðsynleg forsenda fyrir aðgengi að námi.
    Þá verður einnig að grípa til aðgerða til að styðja óhagnaðardrifin leigufélög og húsnæðissjálfseignarstofnanir. Því markmiði má ná samhliða aðgerðum í fyrsta kafla stefnunnar, þar sem hægt er að tryggja stofnframlög í miklum mæli til slíkra úrræða. Þau hafa þegar borið árangur með uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á vegum óhagnaðardrifinna leigufélaga víða um land.
    Í svari innviðaráðherra við fyrirspurn um fjölda félagslegra íbúða (152. löggjafarþing, 305. mál) kom fram að hlutfall félagslegra íbúða er mjög mismunandi milli sveitarfélaga. Eðlilegt væri að gerðar væru lágmarkskröfur til sveitarfélaga þannig að öll sveitarfélög axli sameiginlega samfélagslega ábyrgð á því að bjóða upp á nauðsynleg, félagsleg úrræði. Ekki getur talist rétt að sum sveitarfélög axli meiri ábyrgð á þessum vanda en önnur. Um er að ræða samfélagslegt verkefni þar sem öll sveitarfélög bera sameiginlega ábyrgð.