Ferill 204. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 292  —  204. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Ásthildi Lóu Þórsdóttur um lögheimilisskilyrði laga um gjaldþrotaskipti.


     1.      Hver eru rökin fyrir því að einstaklingar þurfi að hafa lögheimili á Íslandi til að geta leitað gjaldþrotaskipta á eigin búi, sbr. 4. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.?
    Í 4. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. kemur fram að þegar skuldari er einstaklingur verði ákvæðum gjaldþrotaskiptalaga aðeins beitt ef skuldarinn á lögheimili hér á landi og ekki undanþeginn lögsögu íslenskra dómstóla. Ákvæðum laganna verður þó beitt ef skuldari er íslenskur ríkisborgari sem ekki á lögheimili hér á landi ef hann er undanþeginn lögsögu dómstóla í öðrum ríkjum.
    Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. kemur fram að í 4. gr. laganna sé að finna almennar reglur um hvernig maður, félag eða stofnun þurfi að tengjast íslenska ríkinu með búsetu eða starfsemi á Íslandi til að dómstólar hér á landi verði taldir hafa lögsögu til að beita ákvæðum frumvarpsins gagnvart hlutaðeiganda.
    Þannig er gerð krafa um að fyrir hendi séu ákveðin tengsl skuldara við lögsögu íslenskra dómstóla enda skal beiðni um gjaldþrotaskipti lögð fyrir héraðsdómstól í því umdæmi þar sem skuldari er sóttur í einkamáli á heimilisvarnarþingi.

     2.      Telur ráðherra umrætt skilyrði samræmast meginreglum EES-samningsins um frjálsa för vinnuafls og samræmingu á sameiginlega markaðnum?
    Ráðherra bendir á að löggjöf er varðar réttarfar, þ.m.t. reglur um gjaldþrotaskipti, falla utan við það regluverk sem EES-samningurinn tekur til.

     3.      Telur ráðherra koma til greina að leggja til breytingar á lögunum svo að Íslendingar sem búsettir eru erlendis geti leitað gjaldþrotaskipta á Íslandi?
    Ekki hefur verið tekið til skoðunar að gera breytingar á lögunum í þá veru að íslenskir ríkisborgarar sem hafa lögheimili erlendis geti óskað eftir að bú þeirra verði tekið til gjaldþrotaskipta.