Ferill 190. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 315  —  190. mál.




Svar


mennta- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Jóhanni Páli Jóhannssyni um skipun ráðuneytisstjóra án auglýsingar.

     1.      Hvers vegna ákvað ráðherra að víkja frá meginreglu 1. mgr. 7. gr. laga nr. 70/1996 um auglýsingaskyldu þegar skipað var í embætti ráðuneytisstjóra mennta- og barnamálaráðuneytis 2. júní 2022?
    Mennta- og barnamálaráðherra ákvað að beita heimild til að flytja embættismann úr embætti skrifstofustjóra í embætti ráðuneytisstjóra, sbr. 1. mgr. 21. gr. laga um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011, 36. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, og 4. mgr. 20. gr. stjórnarskrárinnar. Áttu ákvæði um auglýsingu í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins því ekki við, sbr. 5. mgr. 21. gr. laga um Stjórnarráð Íslands.
    Aðdragandi þess var sá að skrifstofur ráðuneytisins voru lagðar niður ásamt embættum skrifstofustjóra og nýjar skrifstofur voru settar á fót. Á sama tíma lét þáverandi ráðuneytisstjóri af embætti. Var ákveðið að auglýsa embætti skrifstofustjóra laus til umsókna en flytja einn af skrifstofustjórum ráðuneytisins í embætti ráðuneytisstjóra. Að baki þessari ákvörðun lá fyrst og fremst það mat ráðherra að viðkomandi skrifstofustjóri væri hæfasti einstaklingurinn í embætti ráðuneytisstjóra.

     2.      Hvers konar rannsókn framkvæmdi ráðherra við undirbúning ákvörðunarinnar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993?
    Í ráðuneytinu lágu fyrir upplýsingar um hæfni viðkomandi einstaklings bæði vegna starfa fyrir ráðuneytið og fyrri umsóknar um embætti skrifstofustjóra. Jafnframt var aflað upplýsinga um afstöðu viðkomandi embættismanns til flutningsins.

     3.      Leitaði ráðherra álits ráðuneytis síns, sbr. 1. mgr. 20. gr. laga um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011, áður en ákvörðunin var tekin? Ef svo er, hvers efnis var ráðgjöfin?
    Ráðherra leitaði álits starfsfólks ráðuneytisins áður en ákvörðunin var tekin. Ráðgjöfin var í formi leiðbeininga um heimildir til flutnings embættismanna og framkvæmd slíks flutnings.

     4.      Hvernig samrýmist ákvörðunin grundvallarreglu stjórnsýsluréttar um að velja skuli hæfasta einstaklinginn hverju sinni?
    Ákvörðunin var byggð á því að viðkomandi embættismaður, sem var fluttur úr embætti skrifstofustjóra í embætti ráðuneytisstjóra, væri hæfasti einstaklingurinn til að gegna því embætti.

     5.      Hvernig samrýmist ákvörðunin réttmætisreglu stjórnsýsluréttar um að allar ákvarðanir og athafnir stjórnvalda skuli byggjast á málefnalegum sjónarmiðum?
    Ákvörðunin var byggð á sjónarmiðum sem tengjast hæfni viðkomandi embættismanns, þ.m.t. starfsreynslu og persónulegum eiginleikum. Þessi sjónarmið eru málefnaleg og innan þess svigrúms sem ráðherra hefur við ráðstöfun embættis ráðuneytisstjóra.
     6.      Hvernig samrýmist ákvörðunin 18. og 19. gr. laga um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011, þar sem mælt er fyrir um að ráðuneytisstjórar séu skipaðir að fengnu mati hæfnisnefndar?
    Ákvæði 18. og 19. gr. laga um Stjórnarráð Íslands fjalla um skipan nefnda sem er ætlað að meta hæfni umsækjenda um embætti skrifstofustjóra og ráðuneytisstjóra. Ákvæðin gilda ekki um flutning embættismanna milli embætta í Stjórnarráði Íslands. Í því sambandi má meðal annars benda á að í 1. mgr. 19. gr. laganna segir m.a. að við skipan í embætti ráðuneytisstjóra „skv. 18. gr., sbr. þó 21. gr.“ skuli ráðherra skipa þriggja manna nefnd til að meta hæfni umsækjenda um embættið. Eins og áður segir fjallar 21. gr. laga um Stjórnarráð Íslands m.a. um heimildir ráðherra til að flytja embættismenn á milli embætta innan Stjórnarráðs Íslands.