Ferill 151. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 317  —  151. mál.




Svar


matvælaráðherra við fyrirspurn frá Valgerði Árnadóttur um grænmetisrækt.


     1.      Hver er aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar þegar kemur að því að efla grænmetisrækt á Íslandi?
    Unnið er að eflingu grænmetisræktar í samræmi við áherslur sem fram koma í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og í búvörusamningum. Íslenskur landbúnaður býr yfir miklum sóknarfærum þar sem græn orka, hugvit og hreint vatn gefa tækifæri til að sækja fram og auka verðmætasköpun og fæðuöryggi. Núgildandi garðyrkjusamningur felur meðal annars í sér markmið um að stuðla að framþróun og nýsköpun í framleiðslu garðyrkjuafurða með áherslu á aðgerðir í loftslagsmálum og að auka framleiðslu á íslensku grænmeti. Við endurskoðun samningsins árið 2020 voru lagðir til auknir fjármunir til þess að stuðla að hagfelldari starfsskilyrðum greinarinnar, sem nýtast meðal annars til aðgerða í loftslagsmálum, raforkukaupa vegna flutnings- og dreifikostnaðar raforku, aðlögunar að lífrænum framleiðsluháttum og fjölbreyttari ræktunar, svo sem útiræktunar á grænmeti og garðávöxtum til manneldis. Samningurinn stuðlar nú að fjölbreyttari ræktun m.a. vegna þess að bætt var við nýjum flokki beingreiðslna vegna ræktunar á öðrum grænmetistegundum en gúrkum, paprikum og tómötum og sérstökum jarðræktarstyrk til útiræktunar á grænmeti og garðávöxtum til manneldis en einnig annarra ylræktartegunda. Seinni endurskoðun á samningnum er fyrirhuguð á árinu 2023. Við endurskoðun samningsins verður áhersla lögð á að tryggja fæðuöryggi á Íslandi með því að efla innlenda landbúnaðarframleiðslu. Stuðningur hins opinbera verður samhæfður með það að markmiði að styrkja og fjölga stoðum landbúnaðar á grunni sjálfbærrar nýtingar í þágu loftslagsmála, umhverfis- og náttúruverndar og fjölbreytni í ræktun. Vinna er hafin við gerð aðgerðaáætlunar til eflingar lífrænnar framleiðslu og eiga tillögur að liggja fyrir í byrjun árs 2023. Þá er einnig hafin vinna við gerð aðgerðaáætlunar til eflingar kornræktar og eiga niðurstöður að liggja fyrir í mars 2023. Þessi verkefni sem sett hafa verið af stað eru í samræmi við áherslur sem fram koma í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um eflingu íslensks landbúnaðar.
    Þá fela tillögur spretthóps sem skipaður var í júní síðastliðnum í sér aðgerðir til að mæta alvarlegri stöðu í matvælaframleiðslu. Tillögur spretthópsins gera ráð fyrir álagi á hefðbundnar stuðningsgreiðslur í garðyrkju, þ.e. vegna útiræktunar á grænmeti (45% álag), lýsingar í ylrækt (25% álag) og aðlögunar að lífrænni framleiðslu (45% álag). Aðgerðirnar miða að því að styðja við framleiðendur vegna verðhækkana á aðföngum í kjölfar stríðsátaka.

     2.      Mun ríkisstjórnin niðurgreiða kostnað vegna flutnings og dreifingar á raforku til grænmetisbænda til að létta þeim róðurinn yfir vetrarmánuðina?
    Í samningi um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða er kveðið á um stuðningsgreiðslur vegna flutnings og dreifingar á raforku. Fyrirkomulagi á niðurgreiðslu raforku var breytt við endurskoðun samningsins árið 2020 með þeim hætti að ylræktendum eru nú tryggðar beingreiðslur vegna lýsingar í stað niðurgreiðslu kostnaðar. Í því felst að magnliðir og fastagjald í gjaldskrá dreifiveitna fyrir flutning og dreifingu eru greidd niður um allt að 95%, en framleiðendur garðyrkjuafurða greiða að lágmarki 5%.
    Áætlanir gera ráð fyrir að 95% af kostnaði verði greidd vegna notkunar á árinu 2022. Samkvæmt samningnum eru 404.869.186 kr. til ráðstöfunar á árinu vegna flutnings- og dreifingarkostnaðar raforku. Við þá upphæð bætist 25% álag á greiðslur ársins í samræmi við tillögur spretthópsins sem áætlað er að verði greiddar í upphafi árs 2023.
    Mikil tækifæri eru til þess að efla innlenda matvælaframleiðslu og sjálfbærni með því að sækja fram í grænmetisframleiðslu. Á það bæði við aukna ylrækt og útiræktun grænmetis. Einstakir kostir Íslands eru á þessu sviði, sem felast í endurnýjanlegum orkugjöfum, jarðvarma og raforku, sem og aðgengi að hágæðaferskvatni, mannauði og þekkingu, og mynda forsendur fyrir frekari vexti og eflingu á garðyrkjuframleiðslu. Áhersla er lögð á að starfsskilyrði greinarinnar skapi hvata og ýti undir framtak til að nýta þau tækifæri sem eru til staðar.