Ferill 199. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 357  —  199. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Bryndísi Haraldsdóttur um ofbeldi í nánum samböndum.


    Við vinnslu fyrirspurnarinnar var óskað eftir upplýsingum frá ríkislögreglustjóra og eru eftirfarandi svör unnin í samráði við embættið.

     1.      Hve mörg manndráp hafa orðið á Íslandi í tengslum við ofbeldi í nánum samböndum frá árinu 2000?
     2.      Hve hátt hlutfall manndrápa á Íslandi frá árinu 2000 hefur tengst ofbeldi í nánum samböndum?

    Í eftirfarandi töflu má finna upplýsingar úr málaskrárkerfi ríkislögreglustjóra um hve mörg manndráp hafa orðið á Íslandi í tengslum við ofbeldi í nánum samböndum og hve hátt hlutfall manndrápa á Íslandi hefur tengst ofbeldi í nánum samböndum á árunum 1999–2020. Vakin er athygli á því að undir flokkinn kunningjar/vinir geta fallið þau tilvik þegar verknaðurinn beinist gegn núverandi maka þess sem gerandi átti áður í nánu sambandi við.

Tengsl í manndrápsmálum á tímabilinu 1999–2020:
Fjöldi Hlutfall
Kunningjar/vinir 21 51%
Maki/fyrrum maki 9 22%
Fjölskyldutengsl 6 15%
Ókunnug(ir) 5 12%
Samtals 41 100%

     3.      Hefur verið framkvæmd athugun á fjölda tilkynninga til lögreglu vegna ofbeldis í nánu sambandi í aðdraganda manndrápa sem tengjast slíku ofbeldi?
    Við rannsókn mála hjá lögreglu er forsaga könnuð ef tilefni er til þess. Þannig getur fjöldi fyrri tilkynninga komið til skoðunar í hverju máli fyrir sig. Það hefur þó ekki verið framkvæmd sérstök athugun á fjölda slíkra tilkynninga. Samkvæmt upplýsingum frá ríkislögreglustjóra er verið að skoða möguleikann á því að kanna sérstaklega og leggja heildstætt mat á þau mál sem hafa komið upp og munu koma upp í framtíðinni þar sem manndráp hefur átt sér stað og tengjast ofbeldi í nánum samböndum. Við þá vinnu yrði horft m.a. til sambærilegrar vinnu breskra stjórnvalda og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (e. World Health Organization).