Ferill 257. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 388  —  257. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Gísla Rafni Ólafssyni um krabbamein hjá slökkviliðsmönnum.


     1.      Hversu margir slökkviliðsmenn hafa á árunum 1980–2022 annars vegar greinst með krabbamein og hins vegar látist úr krabbameini, sundurliðað eftir árum?
    Vegna fyrirspurnar þessarar leitaði heilbrigðisráðuneytið eftir upplýsingum frá Sjúkratryggingum Íslands, Krabbameinsfélaginu og Vinnueftirlitinu.
    Sjúkratryggingar taka við umsóknum um slysatryggingu vegna atvinnusjúkdóma, samkvæmt lögum nr. 45/2015, um slysatryggingar almannatrygginga. Sjúkratryggingar hafa til þessa ekki haldið utan um þær upplýsingar enda umsóknir um bætur vegna atvinnusjúkdóma fáar.
    Vinnueftirlitinu hafa ekki borist tilkynningar um krabbamein sem atvinnutengdan sjúkdóm meðal slökkviliðsfólks.
    Samkvæmt upplýsingum frá Krabbameinsfélaginu gefa íslenskar niðurstöður einar og sér sjaldnast tölfræðilega marktækar upplýsingar um krabbameinsáhættu eftir störfum vegna þess hve fámenn þjóðin er. Engin rannsókn hefur verið gerð á tíðni krabbameins meðal slökkviliðsfólks á Íslandi. Krabbameinsfélagið hefur tekið þátt í norrænum rannsóknum, m.a. á krabbameinum slökkviliðsfólks. Slík rannsókn fer nú fram en niðurstaðna úr henni er ekki að vænta fyrr en á næsta ári.
    Eldri norrænar niðurstöður varða íslenska slökkviliðsmenn sem voru að störfum árið 1981 og því má reikna með að margt hafi breyst í umhverfi þeirra síðan. Í þeirri rannsókn kom fram að aukin áhætta væri í aldurshópnum 30–49 ára á krabbameinum í blöðruhálskirtli og sortuæxlum í húð. Hvort tveggja gæti skýrst af því að meira heilbrigðiseftirlit er með slökkviliðsmönnum en almennt gerist. Þessi tvö mein eiga það til að vera „ofgreind“, þ.e. þegar skimað er eftir meini í blöðruhálskirtli með PSA-mælingum hjá körlum og teknir eru blettir til að greina húðmein. Ný norsk rannsókn bendir til að þetta eigi við, alla vega varðandi greiningar á krabbameini í blöðruhálskirtli. Í rannsókninni kom í ljós aukin áhætta hjá eldri mönnum fyrir önnur húðmein, mergæxli, lungnakrabbamein og miðþekjuæxli í fleiðru sem orsakast af asbestmengun. Það orsakaðist trúlega af þáttum sem tengdust slökkviliðsstarfinu.
    Rétt er að taka fram að undirstofnun Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO), Alþjóðlega rannsóknarstofnunin í krabbameinsfræðum (IARC), hefur breytt hættuflokkun starfs slökkviliðsmanna úr flokki 2B (hugsanlega krabbameinsvaldandi) yfir í flokk 1 (staðfest krabbameinsvaldandi). Hinn 12. nóvember 2021 skipaði heilbrigðisráðherra þverfaglegan starfshóp vegna reglugerðar um bótaskylda atvinnusjúkdóma. Verkefni hópsins er að setja saman drög að reglugerð með yfirliti yfir bótaskylda atvinnusjúkdóma, sbr. lög nr. 45/2015, um slysatryggingar almannatrygginga. Starfshópurinn er langt kominn með sína vinnu og gert er ráð fyrir að henni verði lokið fyrir áramót. Er þá áætlað að drögin verði birt í samráðsgátt stjórnvalda.
    Samkvæmt þeim upplýsingum sem ráðuneytinu hafa borist liggja ekki fyrir frekari upplýsingar um krabbamein íslenskra slökkviliðsmanna.

     2.      Hvert er hlutfall slökkviliðsmanna sem á sama árabili hafa annars vegar greinst með krabbamein og hins vegar látist úr krabbameini, samanborið við aðrar opinberar starfsstéttir á Íslandi, sundurliðað eftir árum?
    Þessar upplýsingar virðast ekki liggja fyrir hjá stofnunum ráðuneytisins.

     3.      Hvert er hlutfall slökkviliðsmanna sem á sama árabili hafa annars vegar greinst með krabbamein og hins vegar látist úr krabbameini, samanborið við slökkviliðsmenn í öðrum EES-löndum, sundurliðað eftir árum?
    Þessar upplýsingar virðast ekki liggja fyrir hjá stofnunum ráðuneytisins.

     4.      Hvert er hlutfallið á milli tegunda krabbameins sem slökkviliðsmenn hafa greinst með á árunum 1980–2022?
    Þessar upplýsingar virðast ekki liggja fyrir hjá stofnunum ráðuneytisins.