Ferill 263. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 402  —  263. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Guðrúnu Hafsteinsdóttur um niðurgreiðslu aðgerða á tunguhafti.


     1.      Hve háa fjárhæð hafa Sjúkratryggingar Íslands greitt vegna aðgerða á tunguhafti barna frá 1. janúar 2020?
    Samkvæmt upplýsingum frá Sjúkratryggingum Íslands hafa 22,5 milljónir kr. verið greiddar fyrir tunguhaftsaðgerðir frá 1. janúar 2020.

     2.      Hafa Sjúkratryggingar Íslands hafnað niðurgreiðslu vegna tunguhaftsaðgerða á börnum frá 1. janúar 2020? Ef svo er, hversu mörgum?
    Samkvæmt upplýsingum frá Sjúkratryggingum Íslands er ekki sótt sérstaklega um heimild fyrir þessum aðgerðum og þeim er ekki hafnað.

     3.      Hversu mörg börn biðu 1. september 2022 eftir aðgerð á tunguhafti?
    Embætti landlæknis hefur á undanförnum árum kallað reglulega eftir gögnum varðandi bið eftir völdum skurðaðgerðum, svo sem gerviliðaaðgerðum og ýmiss konar aðgerðum á hjarta. Ekki hefur þótt tilefni til að kalla eftir gögnum um bið eftir aðgerðum á tunguhafti.

     4.      Hversu langur er meðalbiðtími eftir aðgerð á tunguhafti barna?
    Sjá svar við 3. tölul.

     5.      Hefur landlæknisembættið farið þess á leit við þá lækna sem bjóða upp á tungu- og varahaftsaðgerðir að þeir geti sýnt fram á þekkingu á því sviði?
    Embætti landlæknis veitir starfsleyfi til einstaklinga sem uppfylla skilyrði laga og reglugerða til notkunar starfsheita löggiltra heilbrigðisstétta, sbr. h-lið 1. mgr. 4. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu. Í lögum um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012, segir m.a. í 1. og 3.–5. mgr. 13. gr. um faglegar kröfur og ábyrgð:
    „Heilbrigðisstarfsmaður skal sýna sjúklingi virðingu og sinna störfum sínum af árvekni og trúmennsku og í samræmi við faglegar kröfur sem gerðar eru á hverjum tíma. […] Heilbrigðisstarfsmanni ber að þekkja skyldur sínar og siðareglur, viðhalda þekkingu sinni og faglegri færni, tileinka sér nýjungar er varða starfið og kynna sér lög og reglugerðir sem gilda um heilbrigðisstarfsmenn og heilbrigðisþjónustu á hverjum tíma.
    Heilbrigðisstarfsmaður ber, eftir því sem við á, ábyrgð á greiningu og meðferð sjúklinga sem til hans leita. Um upplýsingaskyldu heilbrigðisstarfsmanns gagnvart sjúklingi fer samkvæmt ákvæðum laga um réttindi sjúklinga.
    Heilbrigðisstarfsmaður skal virða faglegar takmarkanir sínar og leita eftir aðstoð eða vísa sjúklingi til annars heilbrigðisstarfsmanns eftir því sem nauðsynlegt og mögulegt er, svo sem ef hann telur sig ekki geta veitt honum viðeigandi heilbrigðisþjónustu.“
    Ýmsir sérfræðilæknar og sumir tannlæknar sinna umræddum aðgerðum. Hver og einn heilbrigðisstarfsmaður ber því lögboðna ábyrgð á því að sú heilbrigðisþjónusta sem hann veitir sé í samræmi við faglegar kröfur sem gerðar eru á hverjum tíma og því að virða faglegar takmarkanir sínar.

     6.      Hvers vegna var starfsemi Tunguhaftssetursins stöðvuð af landlækni án þess að lagt væri mat á gæði og árangur þeirrar meðferðar sem þar var veitt?
    Rekstur starfsemi undir nafninu Tunguhaftssetur var hafinn sem hluti af starfsemi tannlæknastofu. Engin tilkynning um nýjan rekstur eða breytingu á rekstri stofunnar hafði borist embætti landlæknis. Í lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, segir í 1. og 2. mgr. 26. gr.:
    „Þeir sem hyggjast hefja rekstur heilbrigðisþjónustu, þ.m.t. ríkið og sveitarfélög, skulu tilkynna fyrirhugaðan rekstur til landlæknis. Með tilkynningunni skulu fylgja fullnægjandi upplýsingar um starfsemina, svo sem um tegund heilbrigðisþjónustu, starfsmenn, búnað, tæki og húsnæði. Landlæknir getur óskað eftir frekari upplýsingum og gert úttekt á væntanlegri starfsemi telji hann þörf á því. Með sama hætti skal tilkynna landlækni ef meiri háttar breytingar verða á mönnun, búnaði, starfsemi og þjónustu rekstraraðila. Sé rekstri heilbrigðisþjónustu hætt skal tilkynna landlækni um það.
    Landlæknir staðfestir hvort fyrirhugaður rekstur heilbrigðisþjónustu uppfylli faglegar kröfur og önnur skilyrði í heilbrigðislöggjöf. Hið sama gildir þegar ráðherra endurnýjar samninga við heilbrigðisstofnanir. Óheimilt er að hefja starfsemi á sviði heilbrigðisþjónustu nema staðfesting landlæknis liggi fyrir. Landlækni er heimilt að gera frekari kröfur sé það talið nauðsynlegt vegna eðlis þeirrar starfsemi sem um er að ræða. Staðfesting landlæknis verður jafnframt að liggja fyrir við meiri háttar breytingar skv. 1. mgr.“
    Með vísan til framangreindra ákvæða voru forráðamenn umræddrar starfsemi með bréfi 29.10.2021 minntir á framangreind ákvæði og kynnt það mat embættisins að byggt á fyrirliggjandi upplýsingum fæli starfsemi Tunguhaftssetursins í sér breytingu á starfsemi og þjónustu tannlæknastofu miðað við þann hefðbundna rekstur sem viðtekin fagleg viðmið gilda um. Enn fremur var bent á að slík starfsemi kynni að vera bundin ýmsum skilyrðum sem uppfylla þyrfti áður en rekstur gæti hafist. Því hefði rekstraraðilum verið skylt að hlíta framangreindum ákvæðum og tilkynna fyrirhugaðan rekstur. Bent var á að reksturinn hefði ekki hlotið staðfestingu landlæknis á því að hann uppfyllti faglegar kröfur og önnur skilyrði heilbrigðislöggjafar og væri því ekki heimill. Rekstraraðilar stöðvuðu reksturinn í kjölfarið en ekki er rétt það sem fram kemur í fyrirspurn að embætti landlæknis hafi stöðvað reksturinn.
    Hins vegar var embætti landlæknis kunnugt um að umtalsverð aukning hefði orðið á skömmum tíma á umræddum aðgerðum, ekki síst hjá hvítvoðungum. Sexföld aukning hafði orðið í greiðsluþátttöku miðað við fyrri ár samkvæmt gögnum frá SÍ og stefndi í allt að áttfalda aukningu á fyrra ári þegar gögn þessi voru skoðuð.
    Umræddir rekstraraðilar höfðu haldið því fram að um væri að ræða fagleg sjónarmið byggð á nýjum þekkingargrunni varðandi þörf fyrir aðgerðir. Því taldi embættið ástæðu til að meta þau sjónarmið með tilliti til þess hvort endurskoða þyrfti þau viðmið sem áður hafði verið stuðst við varðandi ábendingar aðgerða. Embættinu höfðu að auki borist athugasemdir frá heilsugæslu, barnalæknum o.fl. þar sem lýst var yfir áhyggjum af meintum ónauðsynlegum aðgerðum og nýstárlegum upplýsingum í fræðsluefni heilbrigðisstarfsmanna á opinberum vettvangi, svo sem á samfélagsmiðlum.
    Að gefnu tilefni leitaði embættið því til viðeigandi fagaðila hjá Háskóla Íslands og á Landspítala og fór þess á leit að þeir stæðu fyrir fjölfræðilegu mati á fyrirliggjandi sjónarmiðum og stöðu þekkingar á þessu sviði sem og gerð klínískra leiðbeininga sem byggðust á gagnreyndum vísindum og vel staðfestri reynslu. Embætti landlæknis kom ekki að gerð umræddra leiðbeininga að öðru leyti en því að hvetja til þess að sem flestar viðkomandi heilbrigðisstéttir kæmu að henni og tekin yrðu mið af öllum þekktum sjónarmiðum og gögnum um efnið. Leiðbeiningarnar voru gefnar út á vef Landspítala 9. september sl. og eru á ábyrgð og forræði þeirrar stofnunar. 1

     7.      Hvernig er greiningu og meðferð á tunguhafti hjá ungbörnum á fæðingardeild og í ungbarnaeftirliti háttað?
    Þessu er vel lýst í klínískum leiðbeiningum um aðgerðir á stuttu tunguhafti og efrivararhafti. 2 Varðandi nánari upplýsingar vísast til viðkomandi sjúkrastofnana.

     8.      Hvernig er greiningu og meðferð á tunguhafti hjá eldri börnum með talvanda háttað?
    Sjá svar við 7. tölul.

     9.      Hvernig var nefnd sem vann að gerð klínískra leiðbeininga um aðgerðir á stuttu tunguhafti og efrivararhafti samansett?
    Á bls. 7 í framangreindum leiðbeiningum eru tilgreindir átta höfundar:
    Einar Kristinn Hjaltested, háls-, nef- og eyrnalæknir, Landspítala,
    Eva Guðrún Sveinsdóttir, lektor í barnatannlækningum, HÍ,
    Hannes Petersen, háls-, nef- og eyrnalæknir, prófessor í líffærafræði, HÍ,
    Heiða D. Sigurjónsdóttir, talmeinafræðingur, Landspítala,
    Ingibjörg Eiríksdóttir, ljósmóðir, Landspítala,
    Ólafur Heiðar Þorvaldsson, barnalæknir, Landspítala,
    Sigurður Björnsson, barnaskurðlæknir, Landspítala,
    Snjólaug Sveinsdóttir, nýburalæknir, Landspítala.

1     tinyurl.com/mr3sn45d
2     tinyurl.com/mr3sn45d