Ferill 181. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 405  —  181. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur um framlag Krabbameinsfélagsins til nýrrar dagdeildar blóð- og krabbameinslækninga.


     1.      Hver voru formleg viðbrögð stjórnvalda við ályktun sem samþykkt var á aðalfundi Krabbameinsfélagsins 2021 um allt að 450 milljóna króna framlag félagsins til að flýta fyrir framkvæmdum við byggingu nýrrar dagdeildar blóð- og krabbameinslækninga við Landspítala?
    Krabbameinsfélagið átti fund með heilbrigðisráðherra í apríl 2021 þar sem félagið upplýsti um vilja sinn til að styðja við framkvæmdir vegna dag- og göngudeildar. Þá lá fyrir að ríkið þyrfti eftir sem áður að fjármagna framkvæmdina að 2/ 3 hluta, samkvæmt grófu kostnaðarmati, en ekki væri gert ráð fyrir því fjármagni í fyrirliggjandi fjárlögum. Krabbameinsfélaginu var þakkað rausnarlegt tilboð og upplýst um vilja til að vinna að áætlun um framhald málsins. Krabbameinsfélagið átti annan fund með heilbrigðisráðherra í janúar 2022 og var síðar í sama mánuði sendur tölvupóstur þar sem félagið var upplýst um að unnið væri að gerð heildstæðra greininga á hlutverki spítalans og þörf fyrir húsnæði undir þá þjónustu sem byggðar væru á greiningarvinnu ráðgjafafyrirtækisins McKinsey og út frá gildandi heilbrigðisstefnu. Tekið var fram að niðurstaða þeirrar greiningar væri forsenda þarfagreiningar fyrir húsnæði sem Nýjum Landspítala (NLSH) yrði falið að gera og myndi taka til bæði nýbygginga og þeirra bygginga sem fyrir væru. Jafnframt var upplýst að NLSH hefði hafið ástandsmat á eldra húsnæði en það væri hluti af upplýsingaöflun fyrir ákvörðun um framtíðarnotkun þess út frá húsnæðisþörf Landspítala (LSH) í heild. Þá kom einnig fram að NLSH yrði falið að gera þarfagreiningu fyrir starfsemi dag- og göngudeildar krabbameinssjúkra í nýju skipulagi við Hringbraut, líkt og gert væri við aðrar starfseiningar spítalans, og metið hvort stækka þyrfti núverandi húsnæði við Hringbraut. Var það gert í byrjun mars 2022.
    Í lok júní 2022 upplýsti NLSH heilbrigðisráðuneytið um að sett hefði verið af stað sjálfstætt þarfagreiningarverkefni vegna starfsemi dag- og göngudeildar krabbameinssjúkra í nýju skipulagi við Hringbraut. Óskað var eftir því við LSH að upplýsa NLSH um þjónustuþarfir LSH til framtíðar vegna þeirrar starfseiningar, sbr. erindi heilbrigðisráðherra. Í kjölfarið væri hægt að vinna frumathugun á grundvelli laga um skipan opinberra framkvæmda, nr. 84/2001.

     2.      Með hvaða hætti var félaginu svarað og á hvaða forsendum var ákveðið að ganga ekki til viðræðna við félagið um þátttöku í kostnaði við svo brýnar umbætur á aðstöðu krabbameinssjúklinga?
    Krabbameinsfélaginu var svarað með áðurnefndum hætti, bæði í tölvupósti og á fundum. Engin ákvörðun var tekin um að ganga ekki til viðræðna við félagið um þátttöku í kostnaði við umbætur á aðstöðu krabbameinssjúkra. Aftur á móti var ljóst að rausnarlegt tilboð Krabbameinsfélagsins myndi ná yfir um 1/ 3 af heildarkostnaði við framkvæmdina en hvorki í fjárlögum né fjármálaáætlun til næstu fimm ára hafði verið gert ráð fyrir þeim 820 millj. kr. sem upp á vantaði samkvæmt áætlunum. Þá var sömuleiðis talið nauðsynlegt að fyrir lægi áðurnefnd þarfagreining áður en frekari ákvarðanir yrðu teknar.

     3.      Hefur ráðherra verið í samskiptum við Krabbameinsfélagið í kjölfar þess að hafa verið upplýstur um að félagið taldi ekki lengur forsendur fyrir því að veita fjárframlagið, í ljósi þess að engar tímasettar fyrirætlanir lágu fyrir af hálfu stjórnvalda um byggingu nýrrar dagdeildar?
    Ráðherra hefur ekki verið í formlegum samskiptum við Krabbameinsfélagið vegna þessa máls í kjölfar þess að Krabbameinsfélagið upplýsti að á aðalfundi hefði verið samþykkt að afturkalla tilboðið en bíður niðurstöðu NLSH vegna þarfagreiningar.

     4.      Hverjar eru áætlanir ríkisstjórnarinnar um aðstöðu deildarinnar? Liggja fyrir tímasett markmið í þeim efnum?
    Heilbrigðisráðuneytið bíður niðurstöðu NLSH áður en frekari ákvarðanir verða teknar en vonir standa til að þarfagreiningin sé væntanleg á næstunni. Áætlanir um uppbyggingu við Hringbraut gera ráð fyrir nýbyggingum í fyrsta áfanga sem stendur yfir. Sjúkrahótel hefur verið tekið í notkun og framkvæmdir eru m.a. hafnar á byggingu meðferðarkjarna. Í öðrum áfanga verður farið í viðhaldsframkvæmdir og endurbyggingar á eldra húsnæði Landspítala en fyrst verður gerð þarfagreining og endurmat á þörfum fyrir húsnæði sjúkrahússins. Nú er verið að endurmeta ýmsar áætlanir hjá stýrihópi um heildarskipulag bygginga Landspítala á vegum NLSH. Í þeirri vinnu er m.a. horft til húsnæðis fyrir krabbameinsþjónustu.