Ferill 253. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 411  —  253. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um lagaheimild fyrir þvingaðri lyfjagjöf við brottvísanir.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Á hvaða lagaheimild byggist þvinguð lyfjagjöf við handtöku umsækjanda um alþjóðlega vernd, sem undanfari flutnings úr landi í fylgd, sbr. svar á þskj. 1164 frá 152. löggjafarþingi?

    Í svari ráðherra sem vísað er til í fyrirspurninni kemur fram að við framkvæmd ákvarðana um frávísun og brottvísun af hálfu stoðdeildar ríkislögreglustjóra sé ekki verið að gefa einstaklingum lyf gegn vilja þeirra í þeim tilgangi að auðvelda yfirvöldum brottvísun. Í svari ráðherra kemur fram að það hafi komið upp tilvik þar sem einstaklingur hafi við handtöku, sem undanfari flutnings úr landi í fylgd, farið í þannig ástand að nauðsynlegt hafi verið að gefa viðkomandi róandi lyf í þeim tilgangi að viðkomandi skaðaði hvorki sig né aðra. Slíkt væri einungis og ávallt að undangenginni ákvörðun heilbrigðisstarfsfólks, ekki samkvæmt beiðni stoðdeildar, og að lyfjagjöfin væri framkvæmd af heilbrigðisstarfsmanni. Tekið var fram að í slíkum aðstæðum væri framkvæmd brottvísunar eða frávísunar frestað þangað til að ástand viðkomandi væri metið þannig af lækni að óhætt væri að flytja viðkomandi.
    Þvinguð lyfjagjöf einstaklings í því skyni að tryggja öryggi hans sjálfs, sem og annarra, er framkvæmd af heilbrigðisstarfsmanni að undangenginni ákvörðun heilbrigðisstarfsfólks. Fyrirspurn um þessi atriði ber því að beina til heilbrigðisráðherra, sbr. 3. tölul. 6. gr. forsetaúrskurðar nr. 6/2022, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.