Ferill 183. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 435  —  183. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Halldóru Mogensen um kostnað vegna rannsókna og haldlagningar vímuefna.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hver er áætlaður heildarkostnaður tveggja aðgerða lögreglu gegn skipulagðri brotastarfsemi sem fjallað var um á blaðamannafundi af hálfu lögreglunnar 9. júní sl.? Óskað er upplýsinga um kostnað frá því að rannsókn hófst og til og með því að efnin voru haldlögð? Hversu margra stöðugilda lögreglu krafðist hvor aðgerð fyrir sig? Hversu margra vinnustunda krafðist hvor aðgerð fyrir sig í heild? Óskað er eftir sundurliðun fyrir heildarkostnað hvorrar aðgerðar fyrir sig.
     2.      Hver er áætlaður heildarkostnaður vegna aðgerðar lögreglu frá miðjum ágúst sl. þar sem lagt var hald á 99,25 kíló af kókaíni? Hversu margra stöðugilda lögreglu krafðist aðgerðin? Hversu margra vinnustunda krafðist aðgerðin? Óskað er upplýsinga um kostnað frá því að rannsókn hófst og til og með því að efnin voru haldlögð.
     3.      Hver var kostnaður, fjöldi stöðugilda lögreglufólks og fjöldi vinnustunda sem var varið í aðgerðir er stefndu að haldlagningu vímuefna hvert ár sl. 5 ár? Svar óskast sundurliðað eftir árum.


    Lögreglan skráir verkefni sín í málaskrárkerfi lögreglu (LÖKE) þar sem haldið er utan um aðgerðir, skjöl, aðila og önnur atriði sem eru málinu viðkomandi. Fjöldi vinnustunda vegna einstakra mála er hins vegar ekki skráður sérstaklega inn í kerfið og ekki er haldið utan um það með öðrum hætti hversu mikill tími fer í hvert verkefni fyrir utan þau atriði sem skráð eru sjálfkrafa í málaskrárkerfi lögreglu eins og upptökur, skýrslutökur og aksturstími bifreiða. Af því leiðir að ekki er unnt að kalla fram upplýsingar um heildarkostnað við rannsóknir einstakra mála eða málaflokka.
    Jafnframt er rétt að benda á að starfsemi ákæruvaldsins er sérstaks eðlis og hefur sérstöðu hvað varðar eftirlitsheimildir ráðherra. Skv. 1. mgr. 19. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, hefur dómsmálaráðherra eftirlit með framkvæmd ákæruvalds og getur krafist þess að ríkissaksóknari láti í té gögn og greinargerð um meðferð einstakra mála og hvernig rannsókn þeirra miðar með einum eða öðrum hætti. Ákvæði þessu hefur ávallt verið beitt af mikilli varfærni og í algerum undantekningartilvikum, enda eru afar fá tilvik þar sem til skoðunar hefur komið að beita því og því verið beitt. Það eru því almennt verulegar takmarkanir á því hvaða upplýsingum dómsmálaráðherra getur kallað eftir frá lögreglu og ákæruvaldi er varðar rannsókn einstakra sakamála.