Ferill 323. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 438  —  323. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Jóhanni Páli Jóhannssyni um aðfarargerðir.


     1.      Hver er fjöldi aðfarargerða sem framkvæmdar hafa verið til að koma á umgengni, lögheimili og/eða forsjá sl. 20 ár? Hver er fjöldi þeirra sem framkvæmdar hafa verið á heilbrigðisstofnunum sl. 20 ár?
    Ráðuneytið óskaði eftir að sýslumannaráð aflaði umbeðinna upplýsinga frá sýslumannsembættunum. Sýslumannaráð vakti athygli á því að málakerfi sýslumanna, Sýslan, nái einungis til 1. janúar 2015 þegar núverandi embætti sýslumanna tóku til starfa. Samkvæmt upplýsingum frá sýslumannaráði hafi lögheimili verið komið á með aðför í tveimur málum á síðastliðnum sjö árum samkvæmt ákvæðum barnalaga, nr. 76/2003. Umrædd mál heyrðu bæði undir sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu og fór önnur aðfarargerðin fram á heilbrigðisstofnun. Hjá öðrum sýslumannsembættum hefðu aðfarargerðir til þess að koma á umgengni, lögheimili og/eða forsjá ekki verið framkvæmdar til að koma á umgengni, lögheimili og/eða forsjá á umræddu sjö ára tímabili. Er í því sambandi litið til mála þar sem aðfarargerð hafi náð fram að ganga. Ekki fengust upplýsingar um eldri mál, þ.e. frá því fyrir 1. janúar 2015, þar sem leita þurfi handvirkt í skjalasöfnum eldri embætta og í einhverjum tilvikum hjá Þjóðskjalasafni Íslands samkvæmt upplýsingum frá sýslumannaráði.

     2.      Hafa verið settar verklagsreglur um framkvæmd aðfarargerða skv. 45. og 50. gr. barnalaga eins og velferðarnefnd Alþingis lagði til að yrði gert í nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á barnalögum (sjá 290. mál 140. löggjafarþings)?
    Ráðuneytið (þá innanríkisráðuneytið) lagði áherslu á það við sýslumenn að settar yrðu verklagsreglur um það hvernig staðið skuli að aðför þegar börn eiga í hlut, m.a. til að tryggja að meðferð slíkra mála skapi sem minnst álag fyrir börn. Innanríkisráðuneytið fundaði einnig með helstu aðilum sem koma að framkvæmd umræddra mála, svo sem barnavernd, lögreglu og sýslumönnum. Ákveðið var að þeir aðilar sem sjá um framkvæmd umræddra mála mundu vinna að nánari verklagsreglum hvað þetta varðar. Á samráðsfundi ráðuneytisins og þeirra aðila sem koma að framkvæmd umræddra mála var einnig ákveðið að sá fulltrúi sýslumanns sem færi með slíkt mál mundi boða það teymi sem kæmi að aðfarargerðinni, barnaverndarnefnd í því umdæmi sem gerðin mundi fara fram ásamt lögreglu, til sín á skrifstofu í fyrirtöku. Þá var jafnframt ákveðið að Barnaverndarstofa mundi vera til ráðgjafar eftir þörfum.
    Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu setti verklagsreglur um aðfarargerðir er varða börn 9. júlí 2021. Þá samþykkti sýslumannaráð verklagsreglur um aðfarargerðir er varða börn í september 2022, en þær verklagsreglur eru byggðar á verklagsreglum sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu og gilda þær hjá öllum sýslumannsembættum. Í verklagsreglunum kemur m.a. fram að ef til aðfarar kemur boði sýslumaður fulltrúa barnaverndarnefndar (nú barnaverndarþjónustu) og lögreglu á teymisfund til að undirbúa gerðina þannig að gætt sé að hagsmunum barnsins. Einnig kemur fram að við framkvæmd gerðarinnar sé fulltrúi barnaverndar ávallt viðstaddur til að gæta hagsmuna barns. Jafnframt kemur fram að fulltrúa sýslumanns sé heimilt að stöðva gerðina telji hann sérstaka hættu á að barn hljóti skaða af framhaldi hennar. Í framkvæmd sé gerðin stöðvuð og óskað eftir afstöðu barnaverndar og gerðarbeiðanda um hvort halda eigi gerðinni áfram.

     3.      Telur ráðherra forsvaranlegt að aðfarargerðir til að koma á umgengni, lögheimili og/eða forsjá séu framkvæmdar inni á heilbrigðisstofnunum?
    Í 3. mgr. 45. gr. barnalaga, nr. 76/2003, kemur m.a. fram að framkvæmd aðfarar skuli hagað þannig að sem minnst álag verði fyrir barn og er sýslumanni heimilt að stöðva gerðina telji hann sérstaka hættu á að barn hljóti skaða af framhaldi hennar. Ráðherra tekur undir þau sjónarmið að mikilvægt sé að vandlega sé skoðað hvernig best sé að haga öllum undirbúningi og samvinnu þeirra sem að málunum koma við framkvæmd aðfarar. Almennt er talið að það sé barni fyrir bestu að það séu sem fæstir viðstaddir slíka gerð. En slík mál eru alla jafna talin mjög erfið og viðkvæm ef grípa þarf til aðgerða af þessu tagi. Er því með hliðsjón af framangreindu sú skylda lögð á sýslumann að boða fulltrúa barnaverndarþjónustu í því umdæmi þar sem aðför fer fram til að vera viðstaddan gerð og gætir hann hagsmuna barns.
    Að mati ráðherra þarf við framkvæmd og undirbúning slíkra aðfarargerða, þ.m.t. við undirbúning á því hvar aðfarargerð skuli fara fram, líta til þess að aðfarargerð valdi sem minnstu álagi fyrir barn. Þá sé einnig mikilvægt að slíkar aðfarargerðir séu framkvæmdar af ýtrustu nærgætni og þekkingu. Að mati ráðherra eru aðfarargerðir er varða börn þess eðlis að erfitt er að færa rök fyrir því eða staðhæfa að tiltekinn staður sé almennt heppilegri en annar fyrir slíkar aðfarargerðir og má í dæmaskyni nefna: heimili barns, leikskóla, grunnskóla eða stað þar sem barn sækir íþrótta- og tómstundastarf. Það verður hins vegar að telja mikilvægt að lagt sé mat á það í hverju máli fyrir sig, m.a. með tilliti til þess að aðfarargerð valdi sem minnstu álagi fyrir barn og með tilliti til aðstæðna í því máli sem um ræðir, hvar talið sé ásættanlegt að aðfarargerð fari fram. Þannig má að mati ráðherra færa rök fyrir því að aðfarargerð á heilbrigðisstofnun ætti almennt ekki að vera fyrsti kostur við val á því hvar slík gerð skuli fara fram. Í því sambandi verður að telja að framkvæma þurfi heildarmat á aðstæðum öllum sem uppi eru í máli hverju sinni og taka til skoðunar hvaða aðrir möguleikar eru fyrir hendi og hvort aðrir ákjósanlegri eða ásættanlegri staðir hafi verið reyndir áður en gripið sé til þess úrræðis að framkvæma aðfarargerð á heilbrigðisstofnun. Leggja ber áherslu á að atvik og aðstæður geta verið ólíkar í hverju máli fyrir sig og framkvæma þarf heildarmat á aðstæðum öllum í þeim málum sem eru til meðferðar.

     4.      Er ráðherra sammála því mati heilbrigðisráðherra, sem fram kemur í svari hans við fyrirspurn frá fyrirspyrjanda (sjá 755. mál 152. löggjafarþings), að aðfarargerðir sem framkvæmdar eru við slíkar aðstæður orki tvímælis með tilliti til réttinda sjúklinga og markmiða um að veita sem besta heilbrigðisþjónustu þar sem sjúklingar upplifa öryggi?
    Ráðherra er sammála því sem kemur fram í svari heilbrigðisráðherra um að almennt eigi stjórnvöld eins og aðrir að forðast að gera nokkuð það sem getur truflað veitingu nauðsynlegrar heilbrigðisþjónustu. Vísast að öðru leyti til svars ráðherra við 3. lið.

     5.      Mun ráðherra beita sér fyrir breytingum á lögum eða verklagi til að koma í veg fyrir að aðfarargerðir til að koma á umgengni, lögheimili og/eða forsjá séu framkvæmdar inni á heilbrigðisstofnunum?
    Ráðherra telur tilefni til þess að beina því til sýslumannaráðs að yfirfara og endurskoða eftir atvikum verklagsreglur sýslumanna um aðfarargerðir er varða börn með það í huga að skoða möguleika á aukinni aðkomu sérfræðings í málefnum barna sem starfar hjá sýslumanni að undirbúningi aðfarargerðar og eftir atvikum aukna samvinnu fulltrúa fullnustusviðs og fjölskyldusviðs og jafnframt hvort ástæða sé til þess að fjalla um þau sjónarmið í verklagsreglum sem koma til skoðunar við val á því hvar aðfarargerð skuli fara fram. Þá má einnig geta þess að til stendur að taka barnalög nr. 76/2003 til heildarendurskoðunar og gefst þá jafnframt tilefni til þess að skoða nánar hvort þörf sé á því að taka viðeigandi lagaákvæði sem um þetta gilda til endurskoðunar.