Ferill 224. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 441  —  224. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Gísla Rafni Ólafssyni um markvissa kennslu um kynheilbrigði og ofbeldisforvarnir í grunn- og framhaldsskólum.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hver er staða vinnu heilbrigðisráðuneytis á grundvelli tillagna sem komu fram í skýrslunni „Markviss kennsla um kynheilbrigði og ofbeldisforvarnir í grunn- og framhaldsskólum: Greinargerð og tillögur starfshóps“, þar sem m.a. er fjallað um hlutverk skólahjúkrunarfræðinga og breytingar á lögum um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir? Hvenær er áætlað að vinnslu ráðuneytisins á tillögunum ljúki?

    Í fyrirspurn þingmannsins er væntanlega átt við tillögur sem fram komu í skýrslu starfshóps sem þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra skipaði í desember 2020.
    Fyrirspurninni er því til að svara að þótt mennta- og menningarmálaráðherra hafi skipað starfshóp þá er ekki sjálfgefið að annað ráðuneyti hafi upplýsingar um þá vinnu og taki upp tillögur starfshóps sem undir annað ráðuneyti heyrir.
    Formlegt erindi með upplýsingum og beiðni um slíkt þyrfti að berast frá viðkomandi ráðuneyti áður en það er gert. Í þessu tilviki hefur heilbrigðisráðuneytið ekki fengið formlegar upplýsingar um efni skýrslunnar né upplýsingar um ákvörðun þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra, varðandi þær tillögur sem þar komu fram né hefur borist erindi til heilbrigðisráðuneytisins þess efnis.